Ávarp forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessonar – Ísland 2020

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands

 

Íslenskir atvinnuhættir breytast ár frá ári, breytast í raun dag hvern ef því er að skipta. Þannig er málum háttað í öflugu samfélagi. Því er fagnaðarefni að þetta rit kemur nú út í nýrri og uppfærðri útgáfu. Margs er hér getið sem ekki var að finna í eldri útgáfum Íslenskra atvinnuhátta. Sífellt verður til ný þekking, sífellt skapast ný störf.

Um leið hljótum við að byggja á gömlum grunni. Eitt æxlast af öðru. Framfarir byggjast á virðingu fyrir lærdómi sögunnar, virðingu fyrir hugviti og striti fyrri kynslóða. En þær byggjast líka á forvitni og nýsköpun, fjölbreytni í öllu atferli. Einnig fléttast saman í flestum framförum hið þjóðlega og hið alþjóðlega, aðlögun þess sem vel hefur tekist ytra að innlendum aðstæðum.

Sömuleiðis eru þrautseigja og samstaða einatt forsenda framfara og framsækinna atvinnuhátta. Síðustu misseri höfum við Íslendingar glímt við sameiginlegan vágest, hættulega farsótt sem minnti um margt á fyrri plágur sem ollu hér miklum skaða. Í krafti vísinda, þekkingar og öflugs heilbrigðiskerfis auðnaðist okkur hins vegar að verjast skaðvaldinum betur en formæður og forfeður gátu vonast til. Vissulega urðu mörg fyrir búsifjum, atvinnulífið beið hnekki. En það stóðst samt áfallið og nú megum við leyfa okkur að horfa björtum augum fram á veg.

Það eru sígild sannindi að öflugir atvinnuhættir byggjast á dugnaði og elju og vilja til góðra verka. Sá hugur einkennir þetta verk. Ég fagna útgáfunni og vona að sem flestir lesendur fái notið hennar.

Aðrar greinar

Rafbílar – Jón Kristján Sigurðsson og Runólfur Ólafsson

desember 27, 2023
Lesa nánar
Hvað getum við lært um mótun lífeyriskerfa af alþjóðasamfélaginu? Málþing 2018. Frá vinstri: Þórey S. Þórðardóttir, Ásdís Eva Hannesdóttir, Elín Björg Jónsdóttir, Gylfi Arnbjörnsson, Hannes G. Sigurðsson, Ólafur Sigurðsson og Tómas Njáll Möller.

Landssamtök lífeyrissjóða – Þórey S. Þórðardóttir

desember 27, 2023
Lesa nánar

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd