AFL Starfsgreinafélag var stofnað 28. apríl 2007, með sameiningu þriggja félaga, AFLs Starfsgreinafélags Austurlands, Verkalýðsfélags Reyðarfjarðar og Vökuls Stéttarfélags.
Félagssvæðið er víðfeðmt, en það nær frá og með Langanesbyggð í norðri til Skeiðarársands í suðri. Ríflega 6000 félagsmenn eru í félaginu í 4 deildum, starfsgreinadeild, sjómannadeild, iðnaðarmannadeild og deild verslunar-og skrifstofufólks.
Félagið á aðild að Starfsgreinasambandinu, Sjómannasambandinu, Samiðn- sambandi iðnfélaga og Landssambandi íslenskra verslunarmanna, auk aðildar að Alþýðusambandi Íslands. Félagið tekur virkan þátt í starfi sambandanna auk ýmissa annarra félaga og sjóða tengdir starfsemi þess.
Megináherslur félagsins eru að vinna að því að verja og bæta kjör félagsmanna hvar og hvenær sem er. Veigamest er þar að gera kjarasamninga og sækja þar fram í bættum réttindum bæði hvað varðar kjör og ekki síður réttindi af ýmsum toga. Margir félagsmenn þurfa að sækja umsamin réttindi sín í gegn um félagið þar sem kjör þeirra hafa ekki náð lágmarksréttindum kjarasamninga. Félagið hefur á að skipa öflugum lögmönnum til að sækja vangreidd laun og önnur réttindi í gegnum dómstóla þurfi þess með.
Þá hefur félagið öflugan sjúkrasjóð sem bætir félagmanni 85% af launatapi í veikindum eftir að veikindarétti líkur hjá atvinnurekanda. Auk dánarbóta eru heimildir fyrir ýmsum styrkjum úr sjúkrasjóðnum, en megintilgangur hans er eins og annarra sjúkrasjóða að greiða sjúkradagpeninga og dánarbætur.
Orlofssjóður félagsins er öflugur en auk orlofshúsa gefst félagamönnum kostur á að leigja íbúðir á Akureyri og í Reykjavík. Íbúðirnar í Reykjavík eru að hluta til í eigu sjúkrasjóðs en margir félagsmenn þurfa að sækja læknisþjónustu þangað vegna síendurtekinna skerðinga á heilbrigðisþjónustu á félagssvæðinu
Þá er AFL í samstarfi við önnur stéttarfélag um menntasjóði sem gerir félagsmönnum kleift að fá endurgreitt hluta af kostnaði við nám. Félagið stendur fyrir ýmsum félaglegum viðburðum og hefur á liðum árum séð um vinnustaðaeftirlit á svæðinu.
Ráðgjafar Virk eru starfsmenn hjá félaginu en þeir sinna auk félagsmanna á svæðinu öðru launafólki vegna tímabundinna aðstæðna utan vinnumarkaðar.
Trúnaðarmannakerfi félagsins er öflugt og haldin eru námskeið til þess að efla trúnaðarmenn í þeirra mikilvæga hlutverki.
Félagið hefur látið gera viðhorfs- og launakönnun meðal félagsmanna í nokkur ár sem gefur mikilvægar upplýsingar um launakjör og viðhorf til starfsemi félagsins.
Félagið heldur úti öflugri þjónustu fyrir félagsmenn. Í því sambandi má m.a. nefna að haldið er úti skrifstofum á 6 þéttbýlisstöðum á félagssvæðinu, Vopnafirði, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Neskaupsstað, Djúpavogi og Hornafirði. Leitast er við að tryggja félagsmönnum sem bestan og greiðastan aðgang að upplýsingum og þjónustu á heimasíðunni. Á mínum síðum eru möguleikar á að félagsmenn afgreiði sig með leigu, kaupum á orlofskostum og sæki um í menntasjóði auk sjúkrasjóðsumsókna.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd