Alþýðusamband Íslands er stærsta fjöldahreyfing launafólks á landinu. Um tveir þriðju hlutar launamanna í skipulögðum samtökum á Íslandi eru í ASÍ. Félagsmenn í ASÍ eru 133 þúsund í 5 landssamböndum og 46 aðildarfélögum um land allt. Þar af eru ríflega 120 þúsund virkir á vinnumarkaði. Félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ eru starfandi á flestum sviðum samfélagsins, á almennum vinnumarkaði og hjá ríki og sveitarfélögum.
Alþýðusambandið berst fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna og stendur vörð um hagsmuni þeirra og réttindi. ASÍ kemur fram fyrir hönd aðildarfélaga sinna gangvart stjórnvöldum, Alþingi, samtökum atvinnurekenda, fjölmörgum stofnunum samfélagsins, hagsmunasamtökum, alþjóðlegri verkalýðshreyfingu, alþjóðasamtökum og alþjóðastofnunum. Þá er margháttuð þjónusta við aðildarsamtökin mikilvægur þáttur í starfi ASÍ. Segja má að verkalýðshreyfingin hafi að verulegu leyti byggt upp það velferðarkerfi sem við njótum góðs af í dag, samstaðan og fjöldinn gerir henni kleift að hafa pólitísk áhrif og móta þjóðfélagið að þörfum fólksins. ASÍ gerir kröfu um úrbætur, völd og áhrif fyrir hönd félaga sinna, en úrslitavaldið þegar mest á reynir, til dæmis við gerð kjarasamninga eða verkfallsboðun, er ætíð í höndum fólksins í stéttarfélögunum.
Alþýðusambandið gerir þá kröfu til íslensks velferðarsamfélags að þar njóti allir sömu tækifæra til menntunar og heilbrigðisþjónustu. ASÍ vill stuðla að öflugu og alþjóðlega samkeppnishæfu atvinnulífi sem gefur launafólki tækifæri til símenntunar og starfsþroska. Samtökin beita sér ennfremur fyrir því að verðmætasköpun atvinnulífsins skiptist með réttlátum hætti og skipi um leið íslensku samfélagi í fremstu röð á meðal þjóða heims. Á Íslandi á enginn að líða skort. ASÍ leggur áherslu á aðgengi allra vinnufúsra handa að fullri atvinnu og gerir kröfu um vandaða samfélagsþjónustu sem tryggir öllum tækifæri til menntunar og starfa, einkum ungu fjölskyldufólki. ASÍ beitir sér fyrir sjálfsögðum rétti aldraðra og öryrkja til lífsgæða og jöfnu aðgengi barna og unglinga að þróttmiklu og þroskandi æskulýðsstarfi.
Bætt lífskjör í landinu eru aflvaki blómlegrar menningarstarfsemi, gæða fjölskyldulífsins og heilbrigðara samfélags. ASÍ gerir sér grein fyrir styrk heildarinnar og kappkostar að vinna daglegt starf sitt með þeim hætti að launafólk fylki sér að baki samtökunum, jafnt í varðstöðu þeirra sem sókn, og leggist með þeim á árar til þess að gera gott samfélag ennþá betra.
Alþýðusamband Íslands fagnaði 100 ára afmæli sínu 12. mars 2016 og tveimur árum síðar var fyrsta konan kjörin forseti sambandsins en það var Drífa Snædal, þá 45 ára gömul, viðskiptafræðingur með meistarapróf í vinnumarkaðsfræðum og vinnurétti frá Háskólanum í Lundi. Drífa hafði áður starfað sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands í sex ár.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd