Austurbrú ses. er sjálfseignarstofnun, sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi, sem stofnuð var
8. maí 2012. Yfir 30 stofnaðilar eru að Austurbrú, þar á meðal eru öll sveitarfélögin á Austurlandi, allir háskólar landsins, helstu fagstofnanir, stéttarfélög og hagsmunasamtök atvinnulífsins, framhaldsskólar og þekkingarsetur á Austurlandi. Markmiðið með stofnuninni er að einfalda stjórnsýslu, vera vettvangur fyrir samstarf og samþættingu og vinna metnaðarfullt starf, íbúum Austurlands til hagsbóta. Austurbrú veitir samræmda og þverfaglega þjónustu tengda atvinnulífi, menntun og menningu. Hún leiðir fjölmörg verkefni sem stuðla að þróun samfélags, atvinnulífs, háskólanáms, símenntunar, rannsókna og menningarstarfs á Austurlandi. Lögheimili stofnunarinnar er á Tjarnarbraut 39e á Egilsstöðum.
Mannauður og starfsmannafjöldi
Í Austurbrú er deigla fyrir ólík sjónarmið, nýbreytni og þor til að takast á við áskoranir og reyna nýjar leiðir að sameiginlegu marki. Fjölhæfni í menntun, reynslu og hæfileikum starfsfólks gerir það að verkum að stofnunin er vel í stakk búin að takast á við flókin viðfangsefni sem spanna vítt svið. Virk samvinna á milli málaflokka og þverfaglegt starf Austurbrúar styrkir grundvöll fyrir uppbyggilegri þróun og nýsköpun í samfélaginu. Starfssvæði Austurbrúar er frá Vopnafirði suður að Djúpavogi en þar eru sveitarfélögin fjögur. Hjá Austurbrú starfa að jafnaði um tuttugu og átta manns á sex starfsstöðvum um allan fjórðung.
Vinnulag og framleiðsluferli
Verkefni Austurbrúar, hvort sem þau eiga upptök sín innan hennar eða utan, taka mið af þörfum og hagsmunum samfélagsins. Austurbrú efnir reglulega til samtals við hagsmunaðila um málefni sem á þeim brenna. Allir geta komið í Austurbrú með erindi sín, hugmyndir, uppástungur og hvaðeina sem styrkt getur Austurland.
Velta og hagnaður
Velta Austurbrúar á árinu 2019 var 428 millj. kr. og hagnaður ársins nam 28 millj. kr. Eignir stofnunarinnar voru 207 millj. kr. og eigið fé 43 millj. kr.
Framtíðarsýn
Austurbrú vinnur samkvæmt þeirri framtíðarsýn að Austurland verði eftirsóknarverður staður fyrir jafnt unga sem aldna til að búa og starfa á, þar sem fólk vill byggja upp sjálfbært samfélag. Til þess þarf atvinnulífið að byggja á sterkum grunnstoðum og eflast, frumkvöðlastarf og skapandi greinar að styrkjast með samvinnu þeirra sem starfa að menntun, menningu og nýsköpun. Í fjórðungnum þarf menntunarstig að hækka með auknu námsframboði í heimabyggð, möguleikar til háskólanáms að verða fjölbreyttir og rannsóknir og fræðastarf að verða fastur hluti af starfi fagstofnana. Að sama skapi verði menningarstarfsemi gróskumikil og stuðli að auknum lífsgæðum íbúanna og Austurland verði einstæður áfangastaður ferðamanna sem byggir á náttúru, menningu og afurðum úr héraði, með öflugu markaðsstarfi þar sem áhersla er lögð á gæði og fagvitund í takt við samfélagið.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd