Bílgreinasambandið

2022

Bílgreinasambandið er samtök atvinnurekenda í sölu ökutækja og tengdri vöru og þjónustu. Í sambandinu eru yfir 110 fyrirtæki af ýmsum toga, svo sem almenn bílaverkstæði, bílasölur, bílaumboð, hjólbarðaverkstæði, málningar- og réttingaverkstæði, ryðvarnarstöðvar, smur-stöðvar, varahlutasalar, bílaþvottastöðvar og aðrir þjónustuaðilar.Haustið 2020 fagnaði Bílgreinasambandið 50 ára afmæli sínu en sambandið var stofnað þann 14. nóvember 1970 með samruna tveggja félaga, Sambands bílaverkstæða á Íslandi (stofnað 1933) og Félags bifreiðainnflytjenda (stofnað 1954). Sambandið er því í grunninn sameiginleg samtök stéttarfélaga og vinnuveitenda en samvinna hefur ætíð verið mikil og góð með launþegum og launagreiðendum í bílgreininni, enda hafa yfirmenn fyrirtækjanna vegna eðlis starfseminnar gjarnan verið „á gólfinu“ til jafns við starfsmennina.

Starfsemin

Bílgreinasambandið hefur í gegnum tíðina verið bakhjarl margra þarfra verka innan greinarinnar. Sambandið stóð m.a. fyrir mörgum vinsælum bílasýningum hér á árum áður sem voru gríðarlega vel sóttar af almenningi. Einnig kom sambandið að útgáfu bókarinnar Saga bílsins á Íslandi árið 2004 sem var gefin út í tilefni af 100 ára sögu bílsins hér á landi.

Bílgreinasambandið var stofnað að norrænni fyrirmynd og hefur alla tíð haft mikla samvinnu við systursamtök sín á Norðurlöndum. Aðal hvatamaður að stofnun Bílgreinasambandsins og fyrsti formaður var Gunnar Ásgeirsson. Síðan hafa formenn verið: Geir Þorsteinsson, Ingimundur Sigfússon, Þórir Jónsson, Þórir Jensen, Gísli Guðmundsson, Sigfús Sigfússon, Hallgrímur Gunnarsson, Bogi Pálsson, Erna Gísladóttir, Úlfar Steindórsson, Egill Jóhannsson, Guðmundur Ingi Skúlason, Sverrir Viðar Hauksson og Jón Trausti Ólafsson. Á aðalfundi í júní 2020 var hins vegar gerð sú breyting að enginn formaður fer nú fyrir stjórn heldur kemur framkvæmdastjóri fram fyrir hönd sambandsins.

Þar sem ræturnar liggja í hinni norrænu fyrirmynd hefur á síðustu árum verið settur aukinn kraftur í að endurvekja og efla samstarf Bílgreinasambandsins við sambönd hinna Norðurlandanna. Með tilkomu fjarfundartækninnar hefur það orðið sífellt auðveldara og nú á sér stað mjög reglulegt og stöðugt samtal á milli sambandanna allra. Kemur það að sjálfsögðu öllum til góða og einnig er ljóst að Bílgreinasambandið hefur margt fram að færa í slíkt samstarf. Þá hefur Bílgreinasambandið einnig lagt mikið upp úr að vera virkur meðlimur í CECRA sem eru samtök bílgreinasambanda í Evrópu og þannig stuðlað að hagsmunagæslu bílgreinarinnar innan álfunnar. Bílgreinasambandið gekk úr Vinnuveitendasambandi Íslands árið 1998 og átti því ekki hlut að Samtökum atvinnulífsins er þau voru stofnuð. Sambandið var hins vegar alla tíð þátttakandi í Landssambandi iðnaðarmanna og Samtökum málm- og skipasmiða. Það átti líka aðild að lífeyrissjóðum iðnaðarmanna innan sinna raða og átti þar forystumönnum á að skipa, svo sem Þóri Jónssyni og Geir Þorsteinssyni. Fyrsti sjálfstæði kjarasamningur Bílgreinasambandsins annars vegar og Samiðnar hins vegar var þannig gerður árið 2000 og hefur það fyrirkomulag verið til staðar síðan þá, síðast með kjarasamningum árið 2019.

Aðsetur og stjórnendur

Frá stofnun 1970 fram til 1982 var Bílgreinasambandið til húsa hjá Félagi íslenskra stórkaupmanna að Tjarnargötu 14. Þann 30. desember 1974 gerðist Bílgreinasambandið stofnaðili að Húsi verslunarinnar og flutti starfsemi sína þangað árið 1982 er húsið var fullbyggt. Árið 1994 sömdu Bílgreinasambandið, Bíliðnafélagið og Menntamálaráðuneytið um tilraunakennslu í bílgreinum sem leiddi til þess að Fræðslumiðstöð bílgreina var stofnuð og hóf starfsemi í nýjum Borgarholtsskóla haustið 1996. Árið 2000 var einkahlutafélagið Bílmennt stofnað í eigu Bílgreinasambandsins og Bíliðnafélagsins. Bílmennt ehf. byggði hús að Gylfaflöt 19 þar sem Bílgreinasambandið var til húsa til ársins 2014 ásamt Fræðslumiðstöð bílgreina. Bílgreinasambandið hefur síðan verið til húsa í Borgartúni 35, í Húsi atvinnulífsins ásamt mörgum öðrum félögum og félagasamtökum.

Fyrsti framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins var Júlíus Ólafsson frá 1970 til 1977. Jónas Þór Steinarsson tók við starfinu 1977 og gegndi því óslitið til 2006. Frá árinu 2006 til 2018 var Özur Lárusson framkvæmdastjóri. Núverandi framkvæmdastjóri er María Jóna Magnúsdóttir sem er þar af leiðandi fyrsta konan til að gegna þessari stöðu. Má segja að það sé vel við hæfi þar sem þróunin innan bílgreinarinnar hefur verið á þann veg að konur hafa í auknum mæli kveðið sér hljóðs innan greinarinnar, bæði í námi og í lykilstöðum innan fyrirtækja í greininni.

Skrifstofa Bílgreinasambandsins er fámenn og treystir því á vinnuframlag stjórnar sambandsins og félagsmanna. Stjórn félagsins er mjög virk og fundar mánaðarlega þar sem verkefnum er gjarnan skipt niður á stjórnarmenn sem veita þeim forystu og bera ábyrgð. Þar að auki starfa sérstakar nefndir innan sambandsins en starfsmenn félagsmanna sitja í þessum nefndum. Fjalla nefndirnar sérstaklega um málefni innan sinna sviða sem eru annars vegar þjónustusvið og hins vegar sölusvið.

Verkefnin

Bílgreinasambandið er mikilvægur málsvari bílgreinarinnar allrar og gætir hagsmuna hennar gagnvart hinu opinbera og öðrum aðilum. Samtal við hið opinbera hefur aukist mjög á hinum síðustu árum og hefur Bílgreinasambandið gætt þess að komast ávallt að borðinu þegar um er að ræða mál sem snerta bílgreinina með einhverjum hætti, svo sem vegna laga- og reglugerðabreytinga. Hefur þetta skilað góðum árangri til hagsbóta fyrir greinina alla.

Mikið og gott starf hefur átt sér stað innan sambandsins á síðustu misserum. Á árunum 2018-2019 varð endurnýjun í hópi starfsmanna og komu nýir starfsmenn inn með nýjar áherslur og sýn á verkefni sambandsins. Síðan þá hefur mörgum verkefnum verið ýtt úr vör og kláruð. Ný heimasíða var sett í loftið haustið 2019 og í kjölfarið innri vefur fyrir félagsmenn og sérstakur vefur með tölfræðivinnslu um bílgreinina. Nýtt gæðakerfi fyrir verkstæði var sett á laggirnar snemma árs 2020 og er þar um að ræða algjörlega endurskoðað kerfi sem er ætlað að halda uppi gæðum og faglegum vinnubrögðum á markaðnum til framtíðar. Ennfremur stofnaði Bílgreinasambandið ásamt Félagi íslenskra bifreiðaeigenda sjálfstæða úrskurðarnefnd bílgreina sem samþykkt var af ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra það sama ár. Þá fékkst það í gegn í mars 2020 að bílgreinin varð hluti af „Allir vinna“ leið stjórnvalda sem er ætlað að ýta undir viðskipti við bílaverkstæði og stemma stigu við svartri atvinnustarfsemi.

Bílgreinin er sú iðngrein sem hefur þróast hvað hraðast á síðustu árum og því er af nógu að taka og mikilvægt að gæta hagsmuna þeirra sem innan hennar starfa. Sú vinna sem hefur átt sér stað á síðustu árum hefur m.a. endurspeglast í því að æ fleiri sjá hag sinn í því að vera hluti af sambandinu. Þannig hefur fjöldi félagsmanna aukist hröðum skrefum á síðustu misserum og styrkir það sambandið enn frekar til góðra verka í framtíðinni.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd