Íslensk getspá sf

2022

LOTTÓ – leikurinn okkar – Hvernig byrjaði þetta?
Leitin að fjármagni til rekstrar félagasamtaka og hreyfinga hefur verið nær þrotlaus um áratuga skeið, það þekkja þeir sem láta sig slík mál varða. Róðurinn er gjarnan þungur og fjárskortur oftar en ekki undirliggjandi stef í mikilvægu starfi. Á níunda áratug síðustu aldar höfðu forsvarsmenn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) annars vegar og Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ) hins vegar hafið að skoða möguleikann á svokölluðum talnagetraunum til stuðnings starfsemi samtakanna. Í því sambandi horfðu þeir út í heim þar sem algengt var orðið að talnaleikir væru reknir af fyrirtækjum sem veittu styrki út í samfélagið. Forsvarsmenn ÖBÍ höfðu kynnst lottói í Bandaríkjunum og sáu sóknarfæri í að fylgja þessari alþjóðlegu þróun. Að tilstuðlan Steingríms Hermannssonar, sem þá gegndi embætti forsætisráðherra, settust þessir aðilar niður til að ræða möguleikann á samstarfi um getraunaleik í því skyni að fjármagna reksturinn. Fulltrúar Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) komu skömmu síðar að borðinu og fundahöld samtakanna þriggja leiddu til þess að stofnað var sameiginlegt félag, Íslensk getspá. Fyrirtækið hafði og hefur enn það eitt markmið, að stuðla að hagnaði eigenda sinna sem verður til með þátttöku íslensku þjóðarinnar. Íslensk getspá er alfarið í eigu samtakanna þriggja. ÍSÍ (46,67%) sem hefur meðal annars það markmið að efla, samræma og skipuleggja íþróttastarfsemi í landinu. ÖBÍ (40%) sem eru heildarsamtök hagsmuna og mannréttinda fatlaðs fólks og UMFÍ (13,33%) sem hefur það meginmarkmið að efla lýðheilsu íslensku þjóðarinnar. Hagnaður starfsemi ÍG skiptist eftir eignarhluta og hver eigandi hefur sínar eigin reglur um hvernig hagnaði er varið innan sinna vébanda. Tilurð og tilgangur Íslenskrar getspár er eins og áður segir, að styðja við stærstu félagsmálasamtök landsins þar sem hagnaðurinn rennur óskertur í hendur eigenda þess.

Stórt skref
Ekki leið langur tími frá því forsvarsmenn samtakanna sátu við fundarborðið fyrripart árs 1986 og þar til fyrst var dregið í Lottó 5/32 á Íslandi laugardaginn 22. nóvember sama ár. Steingrímur Hermannsson keypti fyrsta miðann og þar með var lottóævintýrið hafið. Viðtökur almennings reyndust miklu betri en bjartsýnustu menn höfðu þorað að vona og ljóst að forsvarsmenn ÍSÍ, ÖBÍ og UMFÍ höfðu, með aðstoð annarra, stigið stórt skref í átt að því að styðja við, hlúa að og jafnvel tryggja samtökunum lífæð til að geta sinnt mikilvægu starfi.
Með tilkomu Íslenskrar getspár hefur tekjugrunnur eigenda styrkst verulega og munar um minna í stærstu fjöldahreyfingum landsins. Það er í raun dálítið sérstakt að rekstur fyrirtækis snúist ekki um að hagnaður þess rati í hendur örfárra aðila, heldur deilist hagnaður af rekstri Íslenskrar getspár á ótal marga.
ÍSÍ nýtir arðinn til stuðnings við sérsambönd sín, íþróttabandalögin, héraðssamböndin og íþrótta- og ungmennafélögin í landinu. Hluti arðsins fer einnig í Afrekssjóð ÍSÍ. ÖBÍ nýtir sinn arð til reksturs bandalagsins. Auk þess renna verulegir fjármunir til Brynju hússjóðs ÖBÍ, sjálfseignarstofnunar sem á og rekur leiguhúsnæði fyrir öryrkja og fatlað fólk um allt land. Öruggt og gott húsnæði hefur mikla þýðingu fyrir sjálfstæði fatlaðs fólks. UMFÍ nýtir arðinn til stuðnings sambandsaðila sinna. Arður af rekstri Getspár rennur því beint í samfélagsleg uppbyggingaverkefni til hagsbóta fyrir alla landsmenn.

Bætt við og breytt
Þótt rekstrargrundvöllur ÍG sé frábrugðinn öðrum, þá er hann ekki undanskilinn breytingum sem eiga sér stað á 35 ára tímabili. Þar mætti fyrst nefna aðgengi Lottóspilara til að næla sér í miða. Á bernskuárum ÍG lögðu Lottóspilarar leið sína í verslun af einhverju tagi til að merkja tölurnar sínar inn á þar til gert blað með gamla góða blýantinn sér í hönd, oftar en ekki um leið og matarinnkaupin voru gerð. Árið 1998, eða tólf árum eftir að Lottó hóf göngu sína var fólki gert kleift að gerast áskrifendur að „sínum tölum“. Þannig mátti komast hjá því að gera sér ferð í búð til að tryggja sér miða, nú eða losna við stressið sem fylgir því að uppgötva seinnipart laugardags að Lottómiðinn er ekki kominn í hús. Í dag fer 60-70 % af sölunni fram rafrænt, í gegnum heimasíðu eða snjalltæki og nýjasta viðbótin er smáforrit sem gerir spilurum kleift að klára miðakaupin heima í sófa, eða bara hvar sem er. Sölukassarnir standa þó enn fyrir sínu, staðsettir á 220 stöðum víðsvegar um landið – blað og blýantur á vísum stað.
Tækninýjungar eru hins vegar ekki einu breytingarnar á starfsemi ÍG heldur hefur bæst í framboðið með fleiri möguleikum fyrir spilara. Á 35 árum hefur Lottótölunum fjölgað, í skrefum, úr 32 í 38 og loks 40 auk bónustölu. Jókerinn mætti til leiks árið 1998 sem gefur möguleika á 2 milljónum og er dreginn út í öllum leikjum. Íslensk getspá hefur alla tíð átt mjög gott samstarf við önnur norræn lottó- og getraunafyrirtæki og í því sambandi er vert að nefna að ÍG tók, ásamt öðrum Norðurlöndum, þátt í stofnun Víkingalottós sem hóf göngu sína 1993. Víkingalottóið hefur gengið ágætlega á Íslandi, þátttaka er stöðug og stórir vinningar hafa fallið íslenskum lottóspilurum í skaut. Enn fjölgaði valkostum spilara og árið 2013 bættist EuroJackpot við leikjaflóruna þar sem Ísland ásamt 17 öðrum Evrópulöndum tekur þátt.

Fjármálaráðgjöf
Vinningsupphæðir yfir fimm milljónir eru sóttar á skrifstofu ÍG við Engjaveg og framvísa þarf vinningsmiðanum. Mikil ánægja er að hitta vinningshafa og þeir ófáir sem enn hafa ekki meðtekið að fullu þá óvæntu staðreynd að fjárhagurinn vænkaðist á einni nóttu. Stórum vinningi fylgir mikil gleði en það getur líka verið býsna flókið þegar landslag fjármála gjörbreytist á einu augnabliki. Því býður ÍG þeim sem vinna háar fjárhæðir upp á fjármálaráðgjöf hjá sérfræðingi virts endurskoðunarfyrirtækis. Flestir vinningshafar þiggja ráðgjöfina fegins hendi.

Horft til framtíðar
Íslensk getspá hefur starfað samfellt frá árinu 1986 og alltaf að sama marki. Árin 2020 og 2021 voru góð rekstrarár. Árið 2020 greiddi ÍG tæpa þrjá milljarða í vinninga og tveir milljarðar runnu í arðgreiðslur til félagasamtakanna. Þjóðin styður vel við bakið á starfseminni og horft er með björtum augum til framtíðarinnar.
Saga Íslenskrar getspár er ánægjuleg saga og uppbyggileg. Allt frá því þegar hugsjónamenn hittust á níunda áratug síðustu aldar til skrafs og ráðagerða í því skyni að finna leið til að styðja við bakið á öryrkjum og íþróttahreyfingu landsins. Íslenska þjóðin hefur síðan 1986 sameinast og glaðst, ýmist yfir eigin heppni, annarra og/eða framlagi hennar sjálfrar til mikilvægra málefna með því að taka þátt. Stefið í auglýsingaherferðum Íslenskrar getspár lýsir þessu ákaflega vel; „Lottó, leikurinn okkar“.

Engjavegur 6
104 Reykjavík
5802500
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd