Olíudreifing var stofnuð 2. júní 1995 af Olíufélaginu hf. (60% hlutur) og Olíuverslun Íslands hf. (40% hlutur). Við stofnun félagsins gegndi Geir Magnússon stöðu forstjóra í Olíufélaginu og Einar Benediktsson var forstjóri Olís. Þeir skipuðu svo fyrstu stjórn félagsins ásamt Þórólfi Árnasyni og Thomasi Möller. Knútur G. Hauksson var fyrsti framkvæmdastjóri félagsins og gegndi því starfi fyrstu fimm starfsárin. Í árslok árið 2000 tók Hörður Gunnarsson við starfi framkvæmdastjóra sem hann gegnir enn í dag.
Megin tilgangur stofnunar félagsins var að lækka kostnað og auka öryggi við móttöku, geymslu og dreifingu eldsneytis.
Núverandi stjórn og lykilstarfsmenn
Stjórn Olíudreifingar skipa Már Sigurðsson formaður, Ólafur G. Sigurðsson, Martha Eiríksdóttir og Guðný Rósa Þorvarðardóttir. Lykilstarfsmenn eru Hörður Gunnarsson framkvæmdastjóri, Gestur Guðjónsson öryggis- og umhverfisfulltrúi, Hulda Björk Pálsdóttir fjármálastjóri, Grétar Mar Steinarsson forstöðumaður dreifingarsviðs, Jónas Þór Kristinsson forstöðumaður þjónustusviðs og Ari Elísson forstöðumaður tæknisviðs.
Aðsetur
Höfuðstöðvar Olíudreifingar eru til húsa í eigin húsnæði félagsins við Hólmaslóð 8-10 í Reykjavík við hlið birgðastöðvarinnar í Örfirisey. Þar er skrifstofa félagsins sem og þjónustudeildin en félagið rekur starfsemi á 16 stöðum á landinu.
Þróun
Strax í byrjun starfseminnar var hafist handa við að sameina og einfalda dreifikerfi félaganna og mynda eitt öflugt félag. Í byrjun störfuðu um 200 manns hjá Olíudreifingu, að langmestu leyti fyrrum starfsmenn frá móðurfélögunum, en í dag eru starfsmenn félagsins 130. Það sama má segja um birgðastöðvar, þær voru 72 talsins á 54 stöðum við upphaf starfseminnar en eru núna 16 talsins á 16 stöðum. Í upphafi starfseminnar var allt eldsneyti flutt inn til Reykjvíkur og flutt þaðan út á land með skipum eða bílum en í dag er beinn innflutningur mögulegur á 6 stöðum á landinu.
Á upphafsmánuðum starfseminnar sáu 125 eldsneytisflutningabílar um dreifinguna en frá þeim tíma hefur þeim fækkað mikið og eru þeir nú 45 talsins. Nýting ökutækja hefur aukist mjög mikið og eru nú mun færri eknir km á bak við hvern fluttan m3 eldsneytis en áður. Í byrjun rak Olíudreifing þrjá afgreiðslubáta, Héðinn Valdimarsson, Lágafell og Bláfell og olíuflutningaskipið Stapafell ásamt samrekstri á Kyndli með Skeljungi. Þessi floti var allur aflagður eða seldur og nú rekur félagið eitt nýtt flutningaskip, Keilir, sem siglir við strendur landsins ásamt þvi að annast afgreiðslu til skipa. Keilir er annað skip Olíudreifingar sem ber þetta nafn en eldri Keilir var smíðaður í Kína og afhentur árið 2002 og seldur til Danmerkur 2008. Hann var fyrsta Íslenska kaupskipið sem sigldi undir færeyskum fána frá 2003. Nýr Keilir, sem tók við af Laugarnesinu, er vel búið 750 m3 skip smíðað í Tyrklandi og afhent í byrjun árs 2019. Við hönnun Keilis er litið til framfara í öryggismálum sem felast í því að í skipnu eru tvær aðalvélar með tveimur stýrum og tveimur skrúfum auk þess sem botn og birðingur eru tvöfaldir. Einnig býr nýja skipið yfir meiri afkastagetu, s.s. stórauknum ganghraða ásamt auknum dæluafköstum og burðargetu.
Öryggis- og umhverfismál
Í stefnu Olíudreifingar kemur m.a. fram að öryggi mannslífa kemur framar öllu öðru sem og að umhverfisvernd er lykilatriði í rekstri félagsins. Til þess að tryggja sem best að þessum markmiðum verði náð hefur starfsemi félagsins verið tekin út og vottuð af British Standard Institude í Bretlandi. Félagið er vottað samkvæmt gæðastaðlinum ISO-9001, umhverfisstaðlinum ISO-14001, öryggisstaðlinum ISO-45001 og jafnlaunastaðlinum IST-85. Olíudreifing hlaut forvarnarverðlaun VÍS og Vinnueftirlitsins 2016 fyrir árvekni í öryggismálum.
Samstarf við Umhverfisstofnun hefur ávallt verið náið og gott. Olíudreifing er hluti af viðbragðsteymi stofnunarinnar þegar fást þarf við mengun í sjó. Olíudreifing hefur komið að allmörgum mengunarslysum síðustu ár þar með talið stórum ströndum, s.s. þegar Vikartindur strandaði við Suðurströndina 1997, Wilson Muuga við Hvalsnes 2006 og Green Freezer í Fáskrúðsfirði 2014, ásamt mörgum öðrum slysum.
Olíudreifing sér um söfnun á úrgangsolíu á landsvísu samkvæmt samningi við Úrvinnslusjóð. Hluti af þessum úrgangi er endurunninn í starfsstöð félagsins í Reykjavík og nýtt sem eldsneyti fyrir fiskimjölsverksmiðjur.
Dótturfélög
Árið 1997 keypti Olíudreifing heildsöluna G. Hannesson og hefur rekið það félag síðan. Fyrirtækið er umboðsaðili og heildsala fyrir margvíslegan afgreiðslubúnað fyrir bensínstöðvar og aðra sérhæfða vöru til meðhöndlunar og sölu á eldsneyti.
Árið 2009 stofnaði Olíudreifing hlutfélagið Icelandic Tank Storage (ITS) með Scandinavian Tank Storage (STS) í Svíðþjóð og á Olíudreifing helmings hlut í ITS. Hlutverk félagsins er að eiga og reka birgðarstöðvar til útleigu.
Framtíðarsýn
Olíudreifing mun eins og kostur er fylgjast með og taka þátt í þeirri öru þróun sem nú er að verða á eldsneytismarkaðnum vegna orkuskipta. Félagið hefur þegar komið að samnorrænu verkefni sem snýst um að þróa rafhvarfaeldsneyti til notkunar, m.a. á skip og stærri bíla. Jafnframt hefur Olíudreifing haft með höndum sölu og uppsetningu á rafhleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla. Að öðru leyti mun Olíudreifing kappkosta að fylgjast vel með nýjungum á sviði dreifingar og geymslu á eldsneyti, tryggja sem best öryggi og vinna að hagræðingu.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd