Það var vorið 1970 að Finnbogi Bernódusson lauk námi í Vélsmiðjunni Þór hf. á Ísafirði, þar sem hann hafði starfað frá áramótum 1965-66 þegar hann hóf nám í vélvirkjun 2. janúar 1966. Þaðan útskrifaðist hann sem sveinn í tveimur fögum, vélvirkjun og rennismíði, í apríl 1970. Þetta var svolítið sérstakt, þegar að prófinu kom, varð ljóst að námstíminn var orðinn rúmlega sex ár þegar vinnustundir voru lagðar saman. Hann hafði aldrei tekið frí, yfirvinna var mjög mikil og kláraði hann iðnskólann á aðeins tveimur vetrum með góðum vitnisburði. Það varð að samkomulagi milli hans og vinnuveitanda að hann fengi að taka próf í bæði vélvirkjun og rennismíði þannig að ekki þyrfti að endurreikna launin uppá nýtt. Á þessum tíma höfðu verið deilur milli nema og meistara um launakjör og vinnustundir til að geta farið í sveinspróf. Hann hafði leitt sinn hest framhjá þessum deilum og bauð uppá þessa lausn. Við athugun kom í ljós að þetta var svolítið einstakt. Niðurstaðan varð sú að þetta gekk eftir og allir ánægðir. Hann þreytti prófin og stóðst þau með góðum árangri. Bara eitt vandamál, hvað átti að standa á prófskírteininu? Stakk hann uppá vélsmiður en það sameinar vélvirki og rennismiður og hefur það staðið óhaggað í rúm 50 ár. Að námi loknu flutti hann til Bolungarvíkur þar sem hann var byrjaður að byggja sér íbúðarhús. Hann hóf störf hjá byggingafyrirtæki JFE 2. janúar 1970. Sá þar um viðgerðir á allskyns vélum og tækjabúnaði fyrir þetta stóra verktakafyrirtæki, ásamt ýmsum smíða verkefnum svo sem stigahandriðum og mörgu fleiru. Hugurinn stefndi hinsvegar á skipaflotann, þar var hans hugur allur. Hann hætti því hjá JFE vorið '72 og byrjaði sinn eigin rekstur 2. júní 1972. Hann hafði verið á kafi í þessum bátaviðgerðum kvöld og helgar frá komu hans til Bolungarvíkur, þar var hans vettvangur. Ekki í steypuvélum og hjólborum eða öðru þess háttar. Þetta var mjög frumstætt í byrjun, gastæki, rafsuða og handverkfæri um borð í Volkswagen Rúgbrauði. Gert út frá gömlum skúr frammí sveit. Erfiðast var að hafa ekki rennibekk o.fl. Þegar þarna var komið við sögu eða 1973 var hann búinn að byggja íbúðarhús fjölskyldunnar en þau höfðu flutt inn haustið 1972. Þá átti hann kost á seinniparti af húsnæðisláni, um 250 þúsund krónur, en þá peninga notaði hann til að kaupa fyrsta rennibekkinn. Hann var keyptur eftir lítilli ljósmynd frá fyrirtæki í Englandi, þetta tæki reyndist vel og er hann enn til.
Starfsemin
Margt hefur á dagana drifið síðan þá. Þjónustan við sjávarútveginn hefur gengið mjög í bylgjum, bæði veiðar og vinnsla. Rækjuvinnslan og veiðar er nánast horfið úr Bolungarvík, þetta var stór atvinnugrein fram að aldamótum. Þjónusta við skip og báta var stór þáttur í starfsemi Vélsmiðjunnar Mjölnis. Líka uppsetning verksmiðja úti um land. Vélsmiðjan Mjölnir tók líka þátt í breytingum margra skipa, sem breytt var í nokkurs konar verksmiðjuskip mikið til rækjuveiða. Aðallega var okkar aðkoma tengd vökvakerfum allskonar, mjög stórum.
Stundum voru breytingar gerðar erlendis og þurftu þá okkar menn að fara utan. Þetta voru oftast Pólland, Spánn, Lettland, Noregur, Færeyjar, Kanada o.fl.
Mjölnir hefur líka séð um vélaskipti í bátum og togurum bæði hér heima og erlendis ásamt ýmsum breytingum öðrum. Spilviðgerðir og togbúnað af ýmsu tagi hefur verið stór þáttur í starfseminni. Þjónusta við þungavinnuvélar og vélaviðgerðir slitflata, gálga, skóflur o.fl.
Fyrr á árum smíðaði vélsmiðjan og setti upp töluverðan fjölda stálgrindahúsa af ýmsu tagi, svosem gripahús í sveitum, skemmur ýmis konar, iðnaðarhús og íbúðarhús og sorpbrennslu-stöðvar svo eitthvað sé nefnt.
Árið 2012 festi vélsmiðjan Mjölnir kaup á húsnæði á Hafnargötu 53 í Bolungarvík og flutti starfsemina þangað 2015. Staðsettir á miðju hafnarsvæðinu, góð staðsetning til þjónustu við sjávarútveginn. Starfsmenn eru níu talsins, þar af þrír nemar.
Reynt er að hafa allan tækjakost sem bestan og í takt við þau verkefni sem tekist er á við.
Síminn er opinn allan sólarhringinn og menn til taks ef þörf krefur.
Almenn skipa- og vélaþjónusta í boði. Vélaviðgerðir, rennismíði, suðuvinna, frystivélaþjónusta, þjónusta vökvakerfa og varahlutalager fyrir okkar þjónustu.
Tíundi áratugur síðustu aldar var mjög sérstakt tímabil, þá gengu yfir breytingar á öllu atvinnulífi hér vestra, mikið vegna breyttra aðstæðna í sjávarútvegi. Fækkun skipa, fækkun aflaheimilda og lokun margra vinnslustöðva af ýmsu tagi. Rækjuveiðar og -vinnsla nánast hurfu af sjónarsviðinu bæði hér vestra og líka víða annars staðar. Þessa atvinnugrein hafði Vélsmiðjan Mjölnir byggt mikið upp til að þjónusta, sem best, bæði flotann og ekki síður verksmiðjurnar. En þær þurftu mikið viðhald á tækjabúnaði ýmis konar, mest þó pillunarvélum o.fl. En í þær framleiddum við mikið af allskonar slithlutum og endurnýjunarbúnaði. Þessi reynsla fleytti okkur inní næsta æðið, það voru breytingar á úthafsveiðiflotanum, sem fór til rækjuveiða á Flæmska, þegar það stórfellda æði flaug af stað. Allir sem reynslu höfðu af þessum veiðum og búnaði til þeirra, voru kallaðir til. Við komum að þessari vinnu í á fjórða tug skipa, bæði hér heima og erlendis, í samvinnu við fjölda margra fyrirtækja víðsvegar að. Þessar ferðir voru margar ekki til fjár farnar. Það leyndist misjafn sauður í mörgu fé. Það höfðu ekki allir séð fyrir endann á ævintýrinu í upphafi vegar.
Mjölnir neyddist til að lána nokkrum þessara útgerða miklar fjárhæðir. En þær innheimtust ekki, því margar fóru í þrot og engin veð fyrir því sem lánað var. Það tók langan tíma að komast útúr þeim erfiðleikum, sem þetta skapaði fyrirtækinu. Mjölnir gat samt haldið starfsemi sinni áfram með samkomulagi við sína birgja, þannig að allir fengu sitt upp í topp. En þá skall kreppan á og Mjölnir var skuldlaust. Búnir að rifa öll sín segl þegar annar áratugur aldarinnar hófst og höfðu siglt þægilega leið fram að COVID-19.
COVID-19 árið hefur verið þeim þægilegt. Mikið hefur verið haldið til í vinnunni og svo bara heima, allt sloppið mjög vel. Verkefnin hafa haldist í hendur við þeirra getu og flest í heimabyggð. Nýjum degi fylgja alltaf nýjar áskoranir, þannig hefur það verið síðustu 50 árin.
Annan janúar 2021 voru 55 ár frá því að Finnbogi hóf nám í Þór á Ísafirði og annan júní sama ár voru 51 ár síðan hann hóf sjálfstæðan atvinnurekstur í Bolungarvík.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd