112, Tetra og Vaktstöð siglinga
Fyrsta símtali í nafni Neyðarlínunnar eða 112, var svarað hér á landi á miðnætti aðfararnótt 1. janúar 1996. Með gildistöku EES samningsins hafði Ísland skuldbundið sig til að taka upp hið samræmda Evrópska neyðarnúmer, einn – einn – tveir, og voru lög þess efnis samþykkt í apríl 1995, og fyrirtækið opnað um áramótin þar á eftir. Við það tækifæri voru 146 númer áframsend á nýja stjórnstöð Neyðarlínunnar. Svarað skyldi fyrir öll neyðarnúmer, allstaðar af á landinu á einum stað, og viðeigandi viðbragð ræst eftir því sem tilefni væri til. 2003 tók félagið yfir rekstur og vöktun sjófjarskipta með samningi við Siglingastofnun um rekstur Vaktsstöðvar Siglinga (VSS). Mannskapur til vöktunarinnar var síðar leigður af Landhelgisgæslunni, þegar þeir fluttu sína stjórnstöð í sama húsnæði 2005. Rekstur 40 fjarskiptastaða fyrir sjófarendur kallaði á sérhæft starfsfólk, og það á fleiri verkefni, og árið 2006 tók félagið yfir rekstur allra Tetra staða tveggja fjarskiptakerfa (í eigu Stiklu og Irju/Tetralínu. Net sem höfðu skömmu áður sameinast í félaginu Tetra Ísland), og sameinaði í eitt landsdekkandi Tetra kerfi árið 2007. Í dag rekur félagið fjarskiptabúnað á rúmlega 200 stöðum á landinu, og þar af eru tæplega 100 í eigu félagsins.
Eigendur og stjórnendur
Í upphafi var félagið sjálfstætt hlutafélag, í eigu opinberra aðila til hálfs en öryggisfyrirtækja til hálfs á móti. Þetta fyrirkomulag reyndist ekki nógu vel og frá 2008 hafa eigendur einungis verið opinberir aðilar, fyrst um sinn Ríkið, Reykjavíkurborg, Orkuveitan og Landsvirkjun, en síðan 2019 hafa eigendur verið tveir. Ríkið með 81,6% og Reykjavíkurborg með 18,4%.
Vorið 2020 er stjórn Neyðarlínunnar skipuð eftirfarandi aðilum:
Jón Gunnar Vilhelmsson, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu, formaður stjórnar
Ingilín Kristmannsdóttir, skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu
Ebba Schram, borgarlögmaður
Bryndís Þorvaldsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu
Ragna Bjarnadóttir, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, Ríkislögreglustjóri, varamaður.
Framkvæmdastjóri er Þórhallur Ólafsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Tómas Gíslason, rekstrarstjóri Magnús Hauksson og skrifstofustjóri Hugrún Ósk Guðmundsdóttir.
Fyrirtækið er deildarskipt og eru 24 starfsmenn (neyðarverðir) í 112 deildinni, en 12 í tæknideildinni sem sér um rekstur fjarskiptakerfanna, bæði Tetra og VSS auk kerfis löggæslumyndavéla.
Neyðarsvörun
Á hverju ári koma tæplega 200 000 erindi inn á símstöð 112, og verða tæp 130 000 þeirra að erindum hjá neyðarsveitum landsins. Um 65% enda hjá lögreglu, 30% hjá sjúkra-flutningaaðilum og þá um 5% hjá öðrum eins og t.d. slökkviliðum, björgunarsveitum, barnaverndarnefndum og landhelgisgæslu, svo þeir helstu séu nefndir.
Hröð þróun í fjarskiptum almennings undanfarin ár hefur orðið til þess að sífelld þróun þarf að verða í tækniumhverfi 112 og eru ekki líkur til annars en að sú þróun haldi áfram. Þannig er ekki ólíklegt að hlutur símtala í erindum til 112 eigi eftir að minnka talsvert á næstu árum.
Tæknideild
Tæknideildin rekur tvö talsvert ólík kerfi, annars vegar fjarskiptakerfi fyrir sjóinn, talrásir (MF, VHF og UHF), staðsetningarkerfi (AIS), sjálfvirka tilkynningarskyldu (STK) og veðurskeytakerfi (Navtex), og svo talstöðvakerfið Tetra fyrir allan neyðargeirann. Það sem þau eiga helst sameiginlegt er að útstöðvarnar (sendarnir) þurfa að vera út um allt land, og þar sem þær eru settar niður þarf að vera hús, mastur, rafmagn og gagnasamband. Oft tekst að hýsa bæði kerfin í sama húsi, en þó hentar það ekki alltaf. Víða eru þessir staðir mjög hrjóstrugir og erfitt að komast í rafmagn eða gagnatengi. Þar sem þess er kostur leigir félagið húsnæði af öðrum en á hrjóstrugustu stöðunum er slíku yfirleitt ekki til að dreifa og á því félagið sjálft um 90 staði þar sem aðrir hafa ekki séð fjárhagslegan ávinning í að setja sig niður. Iðulega er erfitt að koma upp gagnasambandi og nær ómögulegt að tengjast veiturafmagni. Af þessum sökum hefur það verið eitt aðalverkefni tæknideildarinnar undanfarin ár að byggja smávirkjanir og leggja jarðstrengi til að hætta rekstri rúmlega 10 díselstaða sem áður brenndu yfir 100 000 lítrum árlega, en eru nú komnir niður fyir 10 000 lítra, sem bæði minnkar kolefnisfótsporið og útgjöldin. Einn mesti samfélagslegi ávinningurinn af þessu brölti er svo að eftir að staður hefur verið byggður og þjónusta við hann tryggð hafa farsímafyrirtækin leigt þar aðstöðu fyrir sína senda og þannig náð að auka aðgengi almennings að sínu helsta öryggistæki, farsímanum, svo um munar. Stöðugt þarf svo líka að vera vakandi fyrir því að þétta fjarskiptanetið um landið allt, og bæta þekjuna þar sem fjöldadreifing hefur verið talsvert að breytast með tilkomu aukins ferðamannastraums. Neyðarlínan er í mjög viðamiklu samstarfi við önnur fjarskiptafyrirtæki til að auka aðgengi almennings að neyðaraðstoð, og rekur í því skyni tæplega 90 fjarskiptastaði á erfiðum stöðum. Í dag eru um 8000 notendur í Tetra kerfinu og eitthvað tæplega 1800 skip með AIS staðsetningarbúnað.
Einnig rekur Neyðarlína umfangsmikið kerfi myndavéla fyrir löggæslu og er sífellt unnið að stækkun þess.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd