Bikun ehf

2022

Verktakafyrirtækið Bikun ehf. er stofnað í Reykjavík í maí 2009. Stofnendur félagsins voru hjónin Gestur Pálsson og Linda Guðlaugsdóttir ásamt Sigurði Óla Grétarssyni og Selmu S. Gunnarsdóttur, eigendur Bikunar í dag eru Gestur og Sigurður Óli. Bikun er til húsa í eigin húsnæði að Íshellu 4 í Hafnarfirði.

Starfsemin
Bikun ehf. er verktakafyrirtæki sem hefur sérhæft sig í lagningu bundins slitlags, þ.e.a.s. klæðingu sem er algengasta yfirborð þjóðvega í dag. Bikun sinnir einnig allri almennri jarðvegsvinnu ásamt snjómokstri og hálkuvörn í samstarfi við Íslenska gámafélagið og Malbikunarstöðina Höfða.
Stærsti verkkaupi Bikunar er Vegagerðin og verktakar í nýbyggingum, sem þurfa að skila vegum með bundnu slitlagi í verklok en einnig eru sveitarfélög og fyrirtæki á meðal viðskiptavina þar sem klæðing er orðin algeng á götum í þéttbýli, á flugvöllum og áningastöðum. Þá hefur færst í vöxt að bændur láti klæða heimreiðar að bæjum og félög sumarhúsaeigenda hafa í auknum mæli látið leggja klæðingu á stofnbrautir, aðkeyrslur og plön hjá sér.
Starfsemi Bikunar fer fram um allt land en hefur þó verið mest á Suðurlandi og Vesturlandi seinustu ár. Aðföng við framkvæmdir þ.e.a.s. steinefni í klæðingu, eru að stærstum hluta unnun í nálægð við verkstaði en bindiefnin (asphalt o.fl.) er flutt frá Reykjavík í tankbílum á verkstað. Bikbirgðastöðvar eru í öllum landsfjórðungum ýmist í einkarekstri eða í rekstri Vegagerðarinnar .
Það hefur verið kappsmál fyrirtækisins að skila vel unnu verki og á umsömdum tíma. Verkefni Bikunar frá stofnun skipta hundruðum, bæði stór og smá og má sem dæmi nefna Suðurstrandarveg sem unninn var í samstarfi við Suðurverk og Uxahryggjaleið upp frá Þingvöllum sem unnin var í samstarfi við Suðurtak. Ótal önnur verk mætti nefna til enda spannar saga eigenda Bikunar yfir 40 ár í klæðingum á vegum landsins.
Verkefnin dreifast víða um land og eru vissulega háð veðuraðstæðum. Keppst er við að ljúka sem flestum verkefnum fyrir veturinn og því geta vinnudagar oft orðið langir.

Starfsfólk
Að jafnaði starfa 6 til 7 manns hjá Bikun, en eru fjórir að jafnaði yfir veturinn.

Framtíðarsýn og samfélgasmál
Eigendur Bikunar telja ærin verkefni framundan þar eð viðhaldsþörf vega hefur safnast upp á liðnum árum og fáir verktakar sem hafa sérhæfingu í klæðingu eða öðrum gerðum af bundnu slitlagi. Bikun er eitt þeirra fyrirtækja sem láta verkin tala en ber ekki mikið á. Lítið er auglýst en Bikun ehf. styrkir ýmis góð málefni.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd