365 miðlar er framsækið fjölmiðlafyrirtæki sem veitir lifandi og upplýsandi þjónustu við landsmenn, 365 daga ársins. 365 miðlar starfa á öllum sviðum fjölmiðlunar: Sjónvarps- og útvarpsrekstri, blaðaútgáfu og vefmiðlun.
Fyrirtækið er reist á traustum grunni sterkra og útbreiddra miðla en auk Stöðvar 2, Bylgjunnar, Fréttablaðsins og frétta- og afþreyingarvefsins Visir.is, starfrækja 365 miðlar sjónvarpsstöðvarnar Stöð 2 Sport, Stöð 2 Sport 2, Stöð 2 Bíó, Stöð 2 Krakkar, Stöð 2 Gull og Popptíví. Stöð 2 Netfrelsi er sjónvarpsþjónusta Stöðvar 2 á Netinu og Stöð 2 Fjölvarp býður upp á fjöldi erlendra sjónvarpsrása. Ennfremur starfrækja 365 miðlar útvarpsstöðvarnar FM957, X-ið 977, Léttbylgjuna og Gullbylgjuna.
365 miðlar tóku á sig núverandi mynd í ársbyrjun 2005 við samruna Fréttar, sem þá rak Fréttablaðið, og Norðurljósa, áður Íslenska útvarpsfélagið, sem rak Stöð 2 og Bylgjuna, auk annarra sjónvarps- og útvarpsstöðva. Bylgjan var fyrsta einkarekna útvarpsstöðin á Íslandi er hún hóf starfsemi í ágúst 1986 og í október sama ár hóf Stöð 2 útsendingar og varð þar með fyrsta einkarekna sjónvarpsstöðin.
Fréttablaðið hóf göngu sína í apríl 2001 og varð fyrst íslenskra dagblaða til að vera dreift frítt inn á heimili landsins. Blaðið náði jafnt og þétt að skapa sér yfirburðarstöðu á íslenskum blaðamarkaði, hvað varðar allt í senn útbreiðslu, lestur og tekjur af auglýsingasölu, en samkvæmt lestrarmælingum Capacent-Gallup er hvert tölublað blaðsins að jafnaði með yfir 60% lestur á öllu landinu. Á þettbýlissvæðinu suðvestanlands og á Akureyri er daglegur lestur blaðsins enn meiri. Fréttablaðinu er dreift í 90 þúsund eintökum um allt land; frítt á helstu þéttbýlisstöðum en gegn lágu gjaldi á sölustöðum í dreifðari byggðum. Að auki má nálgast eintak af blaðinu á Visir.is þar sem einnig er að finna mikið og fjölbreytt frétta- og afþreyingarefni frá öðrum miðlum en þar er einnig starfrækt sjálfstæð ritstjórn sem flytur fréttir allan sólarhringinn. Vísir er í mikilli sókn og er annað tveggja vinsælustu vefsvæða landsins.
Útsendingar sjónvarpsstöðva 365 miðla ná til um 99% þjóðarinnar. Stöð 2 er áskriftarstöð sem um helmingur þjóðarinnar er að jafnaði með áskrift að. Stöðin kappkostar að bjóða uppá fyrsta flokks afþreyingarefni, jafnt innlent sem erlent, fyrir alla aldurshópa. Sérstök áhersla er lögð í metnaðarfulla innlenda dagskrárgerð og hefur Stöð 2 verið
leiðandi á sviði leikins efnis og skemmtiefnis eins og bæði áhorfstölur Capacent-Gallup og yfirburðir á Eddu-verðlaunahátíðum bera vitni um. Fréttir Stöðvar 2 fá að jafnaði mesta áhorf allra sjónvarpsfréttatíma í aldurshópnum 12-54 ára, auk þess sem Ísland í dag hefur verið vinsælasti dægurmálaþátturinn í sjónvarpi í sama aldurshópi. Barnaefni skipar háan sess hjá Stöð 2, en þar er boðið uppá fjölbreytt, fræðandi og skemmtilegt efni, jafnt innlent sem talsett erlent efni, alla daga vikunnar. Allt frá stofnun hefur Stöð 2 lagt línur um ýmiskonar nýjungar og aukna þjónustu við íslenska sjónvarpsáhorfendur. Þannig kynnti Stöð 2 til sögunnar barnaefni með íslenskri talsetningu, útsendingar allan sólarhringinn og allt árið um kring, svo fátt eitt sé nefnt. Þá hefur Stöð 2 einnig verið leiðandi í ýmiskonar tækniframþróun og varð fyrst til að bjóða uppá stafrænar útsendingar, útsendingar í háskerpu og nú síðast þrívíddarútsendingu.
Stöð 2 Sport og Sport 2 sýna frá helstu íþróttaviðburðum innlendum sem erlendum og eru þeirra vinsælastir Enska úrvalsdeildin í fótbolta, Meistaradeildin og Evrópudeildin í fótbolta, Enska bikarkeppnin, Spænski boltinn, Formúla 1 kappaksturinn, NBA í körfubolta, íslenska úrvalsdeildin og bikarkeppnin í fótbolta, úrvalsdeildin í körfubolta, sumarmót yngri flokkanna í fótbolta auk fjölda golfmóta, þar á meðal US Masters, boxbardagar og aðrir stórviðburðir í íþróttum. Markaðshlutdeild sjónvarpsstöðva 365 miðla er að jafnaði um 50% í aldurshópnum 12-54 ára skv. rafrænum áhorfsmælingum Capacent-Gallup.
Bylgjan er vinsælasta útvarpsstöð landsins, leikur tónlist sem höfðar til breiðs hóps og flytur hlustendum sínum fréttir, fróðleik og skemmtun á hverjum degi. Markhópur Bylgjunnar eru konur og karlar á aldrinum 18-54 ára. Á Léttbylgjunni og Gullbylgjunni er nær eingöngu leikin tónlist en auglýsingar eru samkeyrðar með Bylgjunni. FM957 er svokölluð topp 40 stöð sem spilar vinsælustu tónlistina hverju sinni fyrir markhópinn 16-40 ára. Xið 977 er rokkstöðin þar sem markhópur er karlmenn á aldrinum 15-35 ára. Markaðshlutdeild útvarpsstöðva 365 miðla er um 70% að jafnaði skv. hlustunarmælingum Capacent-Gallup.
Hjá 365 miðlum störfuðu árið 2011 um 320 manns. Fyrirtækið velti rúmlega 9 milljörðum króna þar sem um 87% af tekjum fyrirtækisins komu frá afþreyingu og 13% úr fréttatengdri starfsemi.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd