701 Hotels ehf.

2022

701 Hotels er stærsta fyrirtæki Austurlands á sviði hótels og veitingarekstrar
Fyrirtækið 701 Hotels er hið stærsta á sviði hótels- og veitingahúsareksturs á Austurlandi. Fyrirtækið er í eigu Þráins Lárussonar og sér hann um reksturinn ásamt dóttur sinni Sigrúnu Jóhönnu framkvæmdastjóra fyrirtækisins og syni sínum Kristjáni Stefáni rekstrastjóra veitingastaða. Undir hatti 701 Hotels eru rekin tvö hótel, eitt gistihús, fimm veitingastaðir, matvælaframleiðsla og bakarí. Flaggskipið er stærsta hótel fjórðungsins Hótel Hallormsstaður með sín 92 herbergi og tvo veitingastaði, Kol og Lauf, ráðstefnusal, líkamsrækt, spa og nuddherbergi. Hótelstjóri á Hallormsstað undanfarin 7 ár er Heiðrún Ágústsdóttir og hefur hún auk þess, samhliða hótelstjórastarfinu, staðið þétt að baki Þráni í uppbyggingu fyrirtækisins á þessum árum.

Sagan
Upphafið að fyrirtækinu má rekja til ársins 2005 en þá starfaði Þráinn Lárusson sem skólameistari við Hússtjórnarskólann á Hallormsstað. Þráinn og Þurý Bára Birgisdóttir þáverandi eiginkona hans keyptu stórt hús með tveimur íbúðum á staðnum. Neðri hæð hússins breyttu þau í gistiheimili sem fékk nafnið Grái hundurinn og Þurý tók að sér að sjá um reksturinn. Síðan bættust við fjórir bjálkakofar árið 2007. Í upphafi árs 2008 rétt áður en kreppan skall á ákvað Þráinn að kaupa allt hlutafé í félaginu Hallormi sem átti gistiálmu sem stóð við Grunnskólann á Hallormsstað sem var rekin sem sumarhótel Fosshótela. Árið 2009 byggði hann tvo veitingarstaði og gestamóttöku við gistiálmuna og opnaði Hótel Hallormsstað. Ári síðar var aftur byggt við hótelið og ný 28 herbergja álma tekin í notkun árið 2011. Herbergin voru þá orðin 49 en þeim til viðbótar voru leigð af sveitarfélaginu, yfir sumartímann, 14 herbergi í grunnskólanum. Hótelið taldi því 63 herbergi. Árið 2013 kaupir Þráinn húsnæði í miðbæ Egilsstaða og stofnar veitingastaðinn Salt, þann fyrsta af þremur sem hann rekur á Egilsstöðum.
Árið 2014 kaupir Þráinn hótelið og félagsheimilið Valaskjálf og byrjar að endurbyggja það. Hótel Valaskjálf er síðan formlega opnað eftir endurbætur árið 2015. Auk þess að vera hótel er Valaskjálf fullkomið fundar og ráðstefnu hús með þrjá sali sem hver um sig er heppilegur til ýmissa funda, ráðstefnu, menningar- og veisluhalda. Árið 2015 fara byggingar grunnskólans á Hallormsstað á sölu og í kjölfarið er ákveðið að festa kaup á þeim og stækka Hótel Hallormsstað. Mikil endubygging liggur þar á bakvið og er húsnæðinu breytt í herbergi og stoðrými fyrir hótelið. Þá er hótelið komið með 92 herbergi. Árið 2018 opnar veitingastaðurinn Skálinn Diner á Egilsstöðum sem er eins og nafnið bendir til nákvæmlega eins og bandaríska fyrirmyndin. Árið þar á eftir opnar þriðji veitingastaðurinn innan fyrirtækisins, Glóð sem er til húsa í viðbyggingu hótels Valaskjálfar. Haustið 2020 hóf Þráinn sölu á nýrri vörulínu undir nafninu Salt Express. Línan hefur gengið vonum framar og nú hyggst hann selja hana í nágrannabyggðalögum. Nýja vörulínan, Salt express, saman stendur af þremur „Taktu með“ réttum og ítölskættuðum ís. Um er að ræða sushi, poke, bento og gelato. Poke, sem ættað er frá Hawai, er salat blandað fiskmeti og nýtur vinsælda víða um heim. Bento á að baki gamla hefð í Japan en Bento er fyrst getið í heimildum þar á 12. öld. Gelato byggir á ítalskri uppskrift í ísgerð og er mun þéttari í sér en hefðbundinn ís hérlendis. Í upphafi þessa árs festi Þráinn kaup á Fellabakarí á Egilsstöðum. Bakaríið hefur starfað frá 1968 og bakar brauð fyrir verslanir á Egilsstöðum og víðar á Austurlandi. Farið var í endurbætur á framleiðslu og markaðsetningu bakarísins. Bætt var við ýmsum nýjungum í framleiðslulínuna og í mars síðastliðnum opnaði síðan Fellabakstur tvær nýjar brauðbúðir aðra í Fellabæ og hina í Kleinunni á Egilsstöðum. Þessu til viðbótar hefur matvælaframleiðslan hafið framleiðslu á salötum og samlokum undir nafni Fellabaksturs. Uppbygging 701 Hotels hefur verið ör og umfangsmikil á síðustu árum og hefur haldið í við vaxandi ferðamannastraum til landsins. Þá hefur Þráinn og fjölskylda bryddað upp á nýjungum í tengslum við veitingarekstur sinn. Þannig hefur vörulínan Salt Express þróast í samræmi við uppbyggingu á Salt veitingahúsinu.
Stöðug vöruþróun hefur verið í gangi hjá Salt á árinu 2020. Að hluta til er um viðbrögð við hruninu á ferðamannamarkaðinum sem COVID hefur skapað. Nýjasta línan sem er í þróun þessa dagana eru sælkeravörur á borð við sultur, kæfur, paté, reykt og grafið kjöt eins og til dæmis reyktar gæsabringur og úrval af fullunnum vörum úr laxi.

Framtíðin
Stærsti hlutinn í rekstri 701 Hotels er þjónusta við ferðamenn og innan fyrirtækisins ríkir hófleg bjartsýni um framtíðina á þeim markaði þrátt fyrir bakslagið á síðasta ári. „Ég tel að Austurland eigi mikið inni enn hvað varðar ferðamennsku og tækifærin sem fylgja henni. Raunar tel ég að Austurland hafi forskot á aðra landshluta í náinni framtíð þar sem svæðið er gríðarlega áhugavert fyrir ferðamenn en hefur verið afskipt af stjórnvöldum þegar kemur að markaðsetningu. Þar af leiðandi er svæðið minna þekkt meðal erlendra ferðamanna. Það þurfi bara að snúa þessari þróun við“, segir Þráinn. Hann segir að langtímaáætlanir hans snúist um að stækka Hótel Valaskjálf. „Það hefur alltaf staðið til að fjölga herbergjum á Hótel Valaskjálf. Þetta verkefni hefur verið í biðstöðu en um leið og ferðamannastraumurinn er aftur kominn í gang og þörfin fyrir fjölgun herbergja munum við fara í gang með stækkun á Hótel Valaskjálf.“ Þráinn segir að væntanlega verði hótel- og gistihúsaeigendur á Austurlandi að reiða sig á íslenska ferðamenn í sumar að stórum hluta eins og í fyrrasumar.
„Ég á alveg von á að þetta verði annað gott sumar hvað innlenda ferðamenn varðar. Við komumst á kortið með vinsæla ferðamannastaði og þeir verða væntanlega einnig vinsælir í sumar. Vegna COVID-19 er erfitt að meta bókunarstöðuna 2021. Við erum yfirleitt með herbergi bókuð langt fram í tímann eða allt til 2023. Til dæmis í fyrra vor var bókunarstaðan góð en svo kom enginn vegna COVID-19. Það var ekki fyrr en farið var að líða á sumarið að innlendir ferðamenn komu í töluverðum fjölda og staðan lagaðist. Hann segir að væntanlega verði hótel- og gistihúsaeigendur á Austurlandi að reiða sig á íslenska ferðamenn í sumar að stórum hluta eins og í fyrrasumar. Við komumst á kortið með vinsæla ferðamannastaði í fyrra og þeir verða væntanlega einnig vinsælir í sumar,” segir Þráinn.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd