Aalborg Portland Íslandi ehf.

2022

Aalborg Portland Íslandi ehf. hóf starfsemi hér á landi aldamótaárið 2000. Upp frá því hefur fyrirtækið staðið að markaðssetningu, sölu og dreifingu á sementi víða um landið. Sementið sem Aalborg Portland Íslandi flytur inn er framleitt af móðurfélaginu Aalborg Portland A/S í Danmörku. Bjarni Óskar Halldórsson stýrði uppbyggingu félagsins frá stofnun þess fram til ársins 2017, að frátöldu tímabilinu 2005-2006, en þá stýrði Thomas Möller félaginu. Magnús Eyjólfsson tók við starfi framkvæmdastjóra árið 2017. Starfsemi Aalborg Portland Íslandi er með ISO-9001 vottun.

Öflug starfsemi í meira en 100 ár
Sementsframleiðsla hófst í Danmörku um miðbik 19. aldar. Aðdragandann að stofnun móðurfélagsins má rekja til Hans Holm, kaupmanns í Álaborg. Í kringum 1880 biðlaði hann til æskuvinar síns, verkfræðingsins Læssöe Smidth frá Skive, um að gangsetja með sér sementsverksmiðju. Henni var valinn staður á N-Jótlandi, nánar tiltekið á hentugu landi í Rördal sem er um fjóra kílómetra norðaustan við Álaborg. Þar var hlutafélagið Aalborg Portland-Cement-Fabrik opinberlega stofnað þann 16. október árið 1889. Sementsverksmiðja félagsins er í dag sú eina sinnar tegundar sem starfrækt er í Danmörku. Staðarval hennar í Rördal þykir einkar vel heppnað, með greiðum aðgangi að úrvals hráefnum á borð við kalk og leir. Auk þess þykir verksmiðjan einstaklega vel í sveit sett hvað varðar skipasamgöngur til og frá innlendum og erlendum höfnum.

Aalborg Portland sement á Íslandi
Fyrstu kynni Íslendinga af steinsteypu áttu sér stað árið 1847 þegar hún var notuð við endurbætur á Dómkirkjunni í Reykjavík. Efnið hóf síðan innreið sína af fullu afli árið 1895 þegar íbúðarhúsið að Sveinatungu í Borgarfirði var byggt. Átta árum síðar, árið 1903, var reist kirkja á sama stað sem telst vera elsta steinsteypta kirkjan í heiminum.
Við upphaf 20. aldar voru steinsteypt hús ekki mörg á Íslandi, enda tæknikunnáttan ekki búin að ná almennri fótfestu. Árið 1903 hóf Knud Zimsen, verkfræðingur og síðar borgarstjóri, að flytja inn sement frá Álaborg í Danmörku en var fremur lítið ágengt í upphafi við markaðssetningu efnisins. Til þess að sannfæra Íslendinga um ágæti sementsins lét Knud reisa hið formfagra hús Gimli að Lækjargötu 3b, en smíði þess var lokið árið 1905. Í kjölfarið átti steinsteypan eftir að festa sig rækilega í sessi á undraskömmum tíma og í auglýsingum mátti sjá hið nýja töfraefni kynnt með orðunum: „Notið eingöngu hið margviðurkennda Álaborgarsement með ljónsmerkinu”. Helstu vitnisburðirnir áttu síðan eftir að spretta upp í formi alþekktra kennileita eins og Klepps- og Vífilstaðaspítala, Hótel Borgar, Landspítalans, Landssímahússins og verkamannabústaða. Eftir gangsetningu Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi árið 1958 hætti innflutningur á sementi frá Álaborg og var svo, að mestu leyti, fram til síðustu aldamóta.
Aalborg Portland A/S í Danmörku hóf sölu á sementi á nýjan leik hér á landi árið 2000, en á þeim tíma ríktu hagstæðar markaðsaðstæður á landinu og mikil þensla var á byggingamarkaði sem hélt sementsverði mjög háu. Hér var stofnað dótturfélagið Aalborg Portland Íslandi ehf. sem fram á þennan dag hefur verið með skrifstofu í Bæjarlind 4, Kópavogi, en megin starfsemi félagsins er að finna í Helguvík í Reykanesbæ. Hjá fyrirtækinu hafa stöðugildi verið um tíu síðastliðin ár og er starfsfólkið með viðamikla starfsreynslu.

Flutnings- og dreifingarferlið
Fyrirkomulag flutnings og dreifingar hjá Aalborg Portland er með þeim hætti að laust sement er flutt frá Danmörku með sérsmíðuðum sementsskipum. Flutningsgetan í hverri ferð er á bilinu 4.000-8.000 tonn. Heildar markaður fyrir sement á Íslandi hefur verið á bilinu 150-200 þúsund tonn á ári, síðan félagið hóf starfsemi hér á landi um síðustu aldamót, og hefur hlutdeild Aalborg Portland Íslandi verið á bilinu 50-60% s.l. ár. Í Helguvík starfrækir félagið tvö staðsteypt geymslusíló sem hvort um sig geta rúmað um 5.000 tonn af sementi. Úr þeim er lausu sementi dælt yfir á sérhannaða flutningabíla sem bílstjórar félagsins aka til viðskiptavina um land allt. Flutningsgetan í hverri ferð er um 33 tonn. Í næsta nágrenni við Helguvík, að Hólamiðum 6, á félagið vöruskemmu og dreifingarmiðstöð fyrir pakkað sement sem dreift er í 25 kg pokum til helstu byggingavöruverslana í landinu. Að auki er sementi pakkað þar í 1.500 kg stórsekki og dreift á sama máta. Frá árinu 2012 hefur Aalborg Portland verið í samstarfi við eigendur Skútabergs ehf. með rekstur á sementssílóum í eigu Skútabergs á Akureyri og Reyðarfirði. Í því sambandi má nefna að Rapid sement frá Aalborg Portland var notað bæði í Norðfjarðar- og Vaðlaheiðargöngin. Með samstarfinu við Skútaberg er félagið vel í stakk búið til að þjónusta viðskiptavini um allt land með sement til hinna ýmsu framkvæmda.

Farsæll framgangur
Á þeim tuttugu árum sem liðin eru frá endurkomu sements frá Aalborg Portland til Íslands hafa viðtökur markaðarins verið mjög góðar. Á fyrsta heila starfsári félagsins voru flutt inn um 31.000 tonn af sementi, sem samsvaraði um 20% markaðshlutdeildar, en upp frá því hafa þessar tölur vaxið með hverju ári.
Aalborg Portland Íslandi hefur frá upphafi lagt mikið upp úr háu þjónustustigi og faglegri ráðgjöf varðandi vörur félagsins. Í slíkum tilvikum óska viðskiptavinir eftir helstu grunnupplýsingum hvað varðar notkunarmöguleika sements við mismunandi mannvirkjagerð. Ráðgjöfin er veitt af ráðgjafadeild Aalborg Portland A/S í Danmörku, en deildin hefur á að skipa mjög reynslumiklu starfsfólki og úrvals tækjakosti til rannsókna á sementi, fylliefnum og steypu.

Þátttaka í fjölbreyttum verkefnum
Í samstarfi við helstu steypustöðvar landsins hefur Aalborg Portland Íslandi komið að framkvæmd margra af helstu byggingarframkvæmdum hér á landi frá aldamótum. Sem dæmi um verkefni ná nefna Norðfjarðar- og Vaðlaheiðargöng, virkjanirnar við Þeistareyki og Búðarháls ásamt brúm yfir Steinavötn og Hvítá. Þá hefur sement frá Aalborg Portland verið notað í fjölmargar byggingar sem margar hverjar hafa hlotið mikla athygli fyrir útlit, gæði og hönnun. Retreat Hotel við Bláa lónið fékk til að mynda íslensku steinsteypuverðlaunin árið 2019. Það var álit dómnefndar að steinsteypa njóti sín vel á mörgum stöðum í byggingunni, að innan sem utan, og að einstaklega vel hafi tekist til við framkvæmd á mynsturveggjum í byggingunni.

Þróun á sementi í nánastu framtíð
Stærsta áskorunin sem sementsframleiðendur í heiminum standa frammi fyrir er að minnka kolefnislosun sem hlýst af semenstframleiðslu og er Aalborg Portland þar ekki undanskilið. Fyrirtækið hefur sett sér það markmið að minnka CO2 losun við framleiðsluna um 30% fyrir árið 2025 og allt að 50% fyrir árið 2030. Til þess að ná þessum markmiðum mun félagið m.a. breyta framleiðsluaðferðum og nota vistvæna orku eins og t.d. rafmagn frá vindmyllum.

2012

Aalborg Portland – Ísland ehf. hóf starfsemi hér á landi aldamótaárið 2000. Upp frá því hefur fyrirtækið staðið að markaðssetningu og dreifingu á hágæða sementi víða um landið. Framleiðslan kemur frá móðurfélaginu Aalborg Portland A/S í Danmörku sem er meðal þeirra umfangsmestu á sínu sviði í Evrópu og stendur fyrir vöruútflutningi til um 70 landa. Að auki rekur félagið verksmiðjur í Bandaríkjunum Danmörku, Egyptlandi, Kína og Malasíu.

Bjarni Óskar Halldórsson framkvæmdastjóri.

Öflug starfsemi í meira en 100 ár
Sementsframleiðsla hófst í Danmörku um miðbik 19. aldar. Aðdragandann að stofnun móðurfélagsins má rekja til Hans Holm, kaupmanns í Álaborg. Í kringum 1880 biðlaði hann til æskuvinar síns, verkfræðingsins Læssöe Smidth frá Skive, um að gangsetja með sér sementsverksmiðju. Henni var valinn staður á N-Jótlandi, nánar tiltekið á hentugu landi í Rördal sem er um 4 kílómetra norðaustan við Álaborg. Þar var hlutafélagið Aalborg Portland-Cement-Fabrik opinberlega stofnað þann 16. október árið 1889. Sementsverksmiðja félagsins er í dag sú eina sinnar tegundar sem starfrækt er í Danmörku. Staðarval hennar í Rördal þykir einkar vel heppnað, með greiðum aðgangi að úrvals hráefnum á borð við kalk og leir. Auk þess þykir verksmiðjan einstaklega vel í sveit sett hvað varðar skipasamgöngur til og frá innlendum og erlendum höfnum.

Álaborgar-Sement á Íslandi
Fyrsti kynni Íslendinga af steinsteypu áttu sér stað árið 1847 þegar hún var notuð við endurbætur á Dómkikjunni í Reykjavík. Efnið hóf síðan innreið sína af fullu afli árið 1895 þegar íbúðarhúsið að Sveinatungu í Borgarfirði var byggt. Átta árum síðar, árið 1903, var reist kirkja á sama stað sem telst vera elsta steinsteypta kirkjan í heiminum.
Við upphaf 20. aldar voru steinsteypt hús ekki mörg á Íslandi, enda tæknikunnáttan ekki búin að ná almennri fótfestu. Árið 1903 hóf Knud Zimsen, verkfræðingur og síðar borgarstjóri, að flytja inn sement frá Álaborg í Danmörku en varð fremur lítið ágengt, í upphafi, við markaðssetningu efnisins. Til þess að sannfæra Íslendinga lét Knud reisa hið formfagra hús Gimli að Lækjargötu 3b, en smíði þess var lokið árið 1905. Í kjölfarið átti steinsteypan eftir að festa sig rækilega í sessi á undraskömmum tíma og í auglýsingum mátti sjá hið nýja töfraefni kynnt með orðunum: „Notið eingöngu hið margviðurkennda Álaborgarsement með ljónsmerkinu“. Helstu vitnisburðirnir áttu síðan eftir að spretta upp í formi alþekktra kennileita eins og Klepps- og Vífilsstaðaspítala, Hótel Borgar, Landspítalans, Landssímahússins og verkamannabústaða. Eftir gangsetningu Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi árið 1958 hætti innflutningur á sementi frá Álaborg og var svo, að mestu leyti, alveg fram til aldamóta.
Aalborg Portland A/S í Danmörku hóf sölu á sementi á nýjan leik, hér á landi, árið 2000. Á þeim tíma ríktu mjög hagstæðar markaðsaðstæður og mikil þensla á byggingamarkaði sem hélt sementsverði háu. Hér var stofnað dótturfélagið Aalborg Portland – Ísland ehf. sem fram á þennan dag hefur verið með meginaðsetur í Bæjarlind 4 í Kópavogi en helsta athafnasvæðið er í Helguvík á Reykjanesi. Hjá fyrirtækinu störfuðu þegar mest lét 15 fastráðnir starfsmenn en þeim hefur fækkað að undanförnu í kjölfar hruns á byggingamarkaði.

Helguvík.

Flutnings- og dreifingarferlið
Fyrirkomulag flutnings og dreifingar hjá Aalborg Portland – Ísland ehf. er með þeim hætti að laust sement er flutt frá móðurfélaginu í Danmörku með sérsmíðuðum sementsskipum. Flutningsgetan í hverri ferð er allt að 6.000 tonn. Í Helguvík starfrækir félagið tvö staðsteypt geymslusíló sem hvort um sig geta rúmað um 5.000 tonn af sementi. Á árinu 2012 hóf Aalborg Portland einnig dreifingu á lausu sementi frá geymslusílóum á Akureyri og einnig Reyðarfirði. Úr geymslusílóunum er lausu sementi dælt yfir á sérhannaða flutningabíla sem síðan aka því til viðskiptavina um land allt. Flutningsgetan í hverri ferð er um 33 tonn. Í næsta nágrenni við Helguvík, að Hólamiðum 6, er rekin vöruskemma og dreifingarmiðstöð fyrir pakkað sement sem dreift er til helstu byggingavöruverslana og múrbúða í landinu. Helstu smásöluaðilar eru Múrbúð Steypustöðvarinnar við Malarhöfða og Múrbúðin á Kletthálsi auk helstu byggingavöruverslana BYKO. Í slíku formi er sementið afgreitt ýmist í 25 kg pokum eða 1.500 kg stórsekkjum.

Farsæll framgangur
Á þeim tíu árum sem liðið hafa frá endurkomu Álaborgarsementsins á Íslandi hafa viðtökur markaðarins verið framar björtustu vonum enda gæði vörunnar, frá fyrri tíð, enn í fersku minni landsmanna. Á fyrsta heila starfsári félagsins voru flutt inn um 31.000 tonn af sementi sem samsvarar um 20% markaðshlutdeild en upp frá því jókst markaðshlutdeild og voru seld u.þ.b. 145.000 tonn á árinu 2007.
Mikil tímamót urðu í rekstrinum árið 2003 þegar Aalborg Portland – Ísland ehf. undirritaði stóran viðskiptasamning við Steypustöðina í Reykjavík og Loftorku og átti hann eftir að styrkja enn frekar stoðir starfseminnar hér á landi. Þetta sama ár var einnig fjárfest í sérstökum blöndunarbúnaði fyrir kísilryk sem aflað er frá Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Ein helsta þjónustunýjung fyrirtækisins er síðan innleiðing færanlegra 33 tonna sílóa sem eru tilvalin til notkunar t.d. í dreifbýli, þar sem langt er til næstu steypustöðvar.
Aalborg Portland – Ísland ehf. leggur mikið upp úr háu þjónustustigi og ítarlegri ráðgjöf varðandi sína vöruflokka. Í slíkum tilvikum óska viðskiptavinir eftir helstu grunnupplýsingum hvað varðar notkunarmöguleika sements við mismunandi mannvirkjagerð. Ráðgjöf er ýmist veitt af íslenskum sérfræðingi eða ráðgjafardeild Aalborg Portland A/S í Danmörku. Magnreikni er að finna á vefsíðu fyrirtækisins: www.aalborg-portland.is

Farið um Öxi frá Egilsstöðum til Hafnar

Helstu framleiðsluvörur Aalborg Portland
RAPID – Portlandsement.
Styrkleikaflokkur 52,5 N. Lágt alkalíinnihald og nær miklum styrkleika á skömmum tíma. Hentar mjög vel við alhliða steypuvinnu. Þrátt fyrir mikinn styrk er hitamyndun vel viðunandi. Fjöldi rannsókna á Rapid sementi og íslenskum fylliefnum staðfesta að steypan uppfyllir allar kröfur íslenskra staðla og reglugerða um styrkleika, veðrunar- og alkalíþol.

BASIS – Portlands kalksteinssement.
Styrkleikaflokkur 52,5 R. Sterk steypa strax í upphafi og heldur styrkleika vel. Hefur ásamt Rapid sementi þótt henta sérlega vel til framleiðslu á forsteyptum einingum.

MESTER – Portlandssement.
Styrkleikaflokkur 42,5 N. Mester sement er hægharðnandi sement með langan líftíma í bala. Hentar sérstaklega vel til múrviðgerða og til pússningar. Sementið er fáanlegt í hentugum 25 kg pokum.

LAVAKALI – Portlandssement.
Styrkleikaflokkur 42, 5 N. Lágalkalí- og súlfatþolið sement sem hentar sérlega vel við gerð stórra mannvirkja þar sem rúmmál steypu er mikið, t.d. byggingu vatnsaflsvirkjana.

AALBORG WHITE – Portlandssement.
Styrkleikaflokkur 52, 5 N. Hvítt sement sem hefur mikinn hreinleika. Hentar vel við að ná fram hvítum lit í steypuna og/ eða til litunar á steypu í ýmsum sérverkefnum. Hvíta sementið býr að sama styrk og svipuðum eiginleikum og Rapid sement.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd