Saga Aðalskoðunar og einkarekinna skoðunarstöðva
Bifreiðaeftirlit ríkisins var sérstök stofnun á vegum ríkisins sem starfaði samkvæmt umferðarlögum og annaðist skoðun og eftirlit ökutækja ásamt því að sinna framkvæmd og prófdómgæslu við ökukennslu. Bifreiðaeftirlitið tók til starfa árið 1932. Stofnunin var síðan lögð niður árið 1988-1989 og Bifreiðaskoðun Íslands hf stofnuð.
Starfsemi Bifreiðaeftirlitsins var lengst af í Borgartúninu í Reykjavík. Aðstaðan fyrir skoðun ökutækjanna var löngum undir berum himni við ófullkomnar aðstæður. Bifreiðum var t.a.m. ekið upp á palla úr timbri úti á malarplani þar sem allt allt var opið fyrir veðri og vindum. Þeir sem unnu við skoðunina voru lítt varðir fyrir rigningu, snjókomu og ryki sem þyrlaðist upp í strekkingnum. Tækin sem notuð voru til skoðunar voru vökvatjakkar á hjólum sem rennt var undir bílinn sem var lyft upp svo hægt væri að skoða hjólabúnað og hemlaprófin voru framkvæmd með því þeysa um á moldarplani og nauðhemla til að sjá hvaða hvort þeir virkuðu.
Árið 1960 kom fyrsti vísir að einkarekinni bifreiðaskoðunarstöð þegar Bílaskoðun og Stilling í Skúlagötu var stofnuð af þeim Pálma Friðrikssyni og Gylfa Hinrikssyni. Sú tilraun fékk ekki brautargengi fyrr en nokkrum áratugum síðar, nánar tiltekið 1994-1995 þegar ríkið rauf loksins einokun á bifreiðaskoðunum.
Aðalskoðun var stofnuð þann 13. september 1994 með það að markmiði að setja á fót hlutlausa skoðunarstofu á sviði skoðunar ökutækja. Skoðun ökutækja á vegum Aðalskoðunar hf. hófst í janúar 1995. Fest voru kaup á húsnæði og tækjum fyrir starfsemina að Helluhrauni í Hafnarfirði.
Þorsteinn Pálsson, dómsmálaráðherra, vígði stöðina í Hafnarfirði að viðstöddu miklu fjölmenni. Í ágústmánuði 1995 veitti viðskipta- og iðnaðarráðherra fyrirtækinu faggildingu á sviði ökutækjaskoðunar.
Starfsemin
Aðalskoðun hf. var vel tekið strax frá byrjun og hefur markaðshlutdeild þess í skoðun ökutækja aukist jafnt og þétt á höfuðborgarsvæðinu, en fyrirtækið er nú með 4 skoðunarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu; Skeifunni 5 og Grjóthálsi 10 í Reykjavík og Skemmuvegi 6 í Kópavogi ásamt skoðunarstöðinni við Helluhraun í Hafnarfirði. Aðalskoðun rekur einnig skoðunarstöð í Reykjanesbæ og á landsbyggðinni heldur fyrirtækið einnig úti skoðunarstarfsemi í Grundarfirði, á Ólafsfirði og á Reyðarfirði.
Þann skugga bar á starfsemina frá upphafi að ýmsir einkaleyfisþættir varðandi bifreiðaskráningar- og skoðanir sem Aðalskoðun hf. fékk ekki leyfi til að framkvæma gerðu fyrirtækinu erfiðara um vik að veita þá þjónustu sem fyrirtækið vildi veita neytendum. Aðalskoðun hf. beitti sér kröftuglega fyrir því í orði og riti að einkaleyfin yrðu lögð niður. Gríðarlega mikil vinna fór fram vegna þess enda lífspursmál fyrir fyrirtækið að geta tekið þátt í samkeppni til jafns við aðra aðila á markaði. Árið 1997 ákvað dómsmálaráðherra að fela einkavæðingarnefnd ríkisins að sjá um sölu á eignarhlut ríkisins í Bifreiðaskoðun Íslands hf. og kljúfa það fyrirtæki í minni einingar. Þar með var enn einum áfanga náð.
Stofnendur
Þeir frumkvöðlar sem stofnuðu Aðalskoðun voru þeir Gunnar Svavarsson og Bergur Helgason, Síðar keyptu þeir Jafet Ólafsson fjárfestir, Eyjólfur Árni Rafnsson, núverandi formaður SA og Kristján Gíslason fjárfestir Aðalskoðun.
Árið 2016 kaupir Ómar Þorgils Pálmason fv.lögreglumaður og stofnandi arekstur.is félagið af þeim Jafet, Eyjólfi Árna og Kristjáni.
Á þeim tíma hefur Aðalskoðun vaxið töluvert og aukið við búnað sinni. M.a. færanlega skoðunarstöð og opnað útibú á Kópaskeri og nú síðast nýja og glæsilega skoðunarstöð á Eyravegi 51 á Selfossi.
Mannauður
Hjá Aðalskoðun starfa í dag 21 skoðunarmaður og 8 starfsmenn við afgreiðslu og aðra umsýslu. Mannauðurinn er mikill og langur starfsaldur þeirra sem starfa hjá Aðalskoðun er eitt af því sem einkennir fyrirtækið.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd