Advania er eitt stærsta upplýsingatæknifyrirtæki landsins árið 2021. Það varð til í ársbyrjun 2012 með sameiningu fjölda öflugra fyrirtækja og má því rekja söguna í margar áttir. Fyrstu skrefin voru stigin árið 1939 þegar frumkvöðullinn Einar J. Skúlason stofnaði samnefnt fyrirtæki sem í fyrstu fékkst við viðgerðir á skrifstofubúnaði. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Nú er fyrirtækið hluti af Advania-samsteypunni sem er meðal umsvifamestu upplýsingatæknifyrirtækja á Norðurlöndum. Samstæðan er með 25 starfsstöðvar í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi og Íslandi. Mikael Noaksson er forstjóri Advania-samstæðunnar og hjá henni starfa um 2500 sérfræðingar. Advania á Íslandi býður alhliða þjónustu á sviði upplýsingatækni. Fyrirtækið veitir viðskiptavinum ráðgjöf, býður stakar lausnir eða samþætta heildarþjónustu.
Stjórnandi og aðsetur
Ægir Már Þórisson er forstjóri Advania á Íslandi. Hjá fyrirtækinu starfa um 600 sérfræðingar með margvíslegan bakgrunn og sérhæfingu. Höfuðstöðvar eru í Guðrúnartúni 10 í Reykjavík en einnig eru smærri starfstöðvar vítt og breitt um landið.
Hugmyndafræði og viðskiptavinir
Hugmyndafræði fyrirtækisins snýst um að gera upplýsingatækni mannlega. Sérfræðingar Advania reyna eftir fremsta megni að aðstoða viðskiptavini við að skapa verðmæti með snjallri notkun upplýsingatækninnar. Þeir veita ráðgjöf og finna hentugar lausnir fyrir viðskiptavini óháð framleiðendum. Fyrirtækið smíðar og rekur vefi og vefverslanir, rekur margskonar upplýsingakerfi, fjárhagskerfi og netkerfi og veitir notendum tæknilega aðstoð. Ráðgjöf á sviði upplýsingatækni er sífellt stærri hluti af starfsemi Advania enda kalla örar tækniframfarir á stöðugt endurmat á lausnum.
Meðal viðskiptavina eru stór og smá fyrirtæki og stofnanir bæði á Íslandi og utan landsteinanna.
Starfsemin
Starfsemi Advania skiptist í fjögur tekjusvið; rekstrarlausnir, hugbúnaðarlausnir, sérlausnir og viðskiptalausnir. Sviðin eru leidd af framkvæmdastjórunum Sigurði Sæberg Þorsteinssyni, Sigrúnu Ámundadóttur, Margréti Gunnlaugsdóttur og Heimi Fannari Gunnlaugssyni. Auk þess eru tvö stoðsvið, Fjármálasvið, sem leitt er af Jóni Brynjari Ólafssyni og Rekstrar og mannauðssvið sem Hinrik Sigurður Jóhannesson stýrir. Fyrir framkvæmdastjórninni fer Ægir Már Þórisson forstjóri.
Alþjóðlegt samstarf
Advania á í nánu samstarfi við fjölmörg alþjóðleg fyrirtæki í upplýsingatækni svo sem Microsoft, Dell, Oracle, Cisco, SAP og Verisign.
Þjónustan
Advania rekur einnig eina öflugustu vefverslun landsins með breiðu vöruúrvali frá Dell og HP. Vefverslunin er fyrst og fremst gerð með það í huga að auðvelda fyrirtækjum kaup á tölvubúnaði. Þá rekur Advania einnig viðgerðarþjónustu á tölvubúnaði í Borgartúni í Reykjavík.
Á hverju ári heldur Advania veglega haustráðstefnu þar sem fjallað er um spennandi nýjungar í upplýsingatækni. Ráðstefnan hefur verið haldin af Advania og forverum fyrirtækisins í á þriðja áratug og er ein sú elsta sinnar tegundar í Evrópu.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd