Akrahreppur

2022

Akrahreppur liggur svo til allur austan Héraðsvatna í Skagafirði. Land á hreppurinn inn til Hofsjökuls í suðri, á kafla upp á miðjan Tröllaskaga gengt Eyjafjarðasýslu að austanverðu og eftir Blönduhlíðarfjallgarði gengt Sveitarfélaginu Skagafirði. Stærð hreppsins er um 1380 km2. Víðlend afréttarlönd tilheyra sveitarfélaginu, Silfrastaðaafrétt og Nýjabæjarafrétt. Kennileiti eru þessi helst: Fjallið Glóðafeykir (990 m.y.s.), Bólugil og Héraðsvötn. Ekkert þéttbýli er í sveitarfélaginu. Austurdalur í Akrahreppi hefur löngum þótt einstök útivistarparadís og þangað sækja bæði hestamenn og gönguhópar á ári hverju auk þess sem ævintýraþyrstir sækja í flúðasiglingar í Jökulsá austari. Austurdalurinn er næstum 50 km langur, nokkuð vel gróinn með náttúrulegum birki- og víðiskógi í Fögruhlíð. Austurdalur þykir einnig merkilegur vegna menningarminja sem ekkert hefur raskað nema náttúran sjálf en þar eru merki um að hafi verið allt að 30 bæir.

Atvinnuhættir
Sveitarfélagið er fyrst og fremst landbúnaðarhérað og þar er víða stundaður öflugur og fjölbreyttur landbúnaður. Akrahreppur er sögusvið margra stórviðburða Sturlungaaldarinnar og því blómstrar þar menning og viðburðir því tengd, t.d. í Kakalaskála sem opnaður var árið 2012. Í Kakalaskála er sögu- og listasýning með hljóðleiðsögn frá átakatímum 13. aldar, með áherslu á líf Þórðar kakala eins og nafn skálans gefur til kynna. Við Kakalaskála er jafnframt að finna stórt útilistaverk, Sviðsetningu Haugsnesbardaga 1246 (Grjótherinn). Grunn- og leikskóli er staðsettur í Varmahlíð og er börnum ekið í skólann með skólabíl, lengst rétt rúma 20 km. Þar er sömuleiðis rekin íþróttamiðstöð með sundlaug. Flest heimili sveitarfélagsins eru tengd Varmahlíðarveitu. Ljósleiðari hefur verið inn á flestum heimilum í allnokkur ár. Stendur til að tengja síðustu bæina sem föst búseta er á. Ein lítil vatnsaflsvirkjun er í Akrahreppi en nokkur áhugi er fyrir því að nýta orkuna úr bæjarlæknum á nokkrum býlum og er líklegt að fleiri beisli orku náttúrunnar á næstu árum.

Mannlíf og stjórnsýsla
Þann 1. janúar 2020 bjuggu 210 manns í sveitarfélaginu og er aldursdreifing góð. Í hrepps- nefnd sitja 5 fulltrúar sem kjörnir eru hlutfallskosningu á fjögurra ára fresti. Síðast var kosið í hreppsnefnd í sveitarstjórnarkosningum 26. maí 2018. Sveitarfélagið Skagafjörður annast framkvæmd fjölmargra verkefna fyrir Akrahrepp samkvæmt samningi frá 2019.
Taka samningarnir til verkefna eins og rekstur grunnskóla, leikskóla, tónlistarskóla, íþróttamiðstöðvar og íþróttamannvirkja, barnaverndar, frístundastarfs barna, dagþjónustu fyrir aldraða, þjónustu héraðsbókasafns, héraðsskjalasafns, safnahúss, byggðasafns, upp-lýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn, þjónustu atvinnu- og ferðamálafulltrúa, almannavarna, brunavarna- og eldvarnaeftirlits, fasteigna í sameign sveitarfélaganna tveggja, auk þjónustu skipulags- og byggingarfulltrúa. Félagsheimili er í Héðinsminni og eru þar fjölmargar sameiginlegar uppákomur á ári hverju, ber þar hæst árleg saltkjötsveisla á sprengidag í boði hreppsnefndar og kvenfélagsins, hjónaball að haustinu og jólaball fyrir yngstu kynslóðina auk margra annarra stórra og smárra viðburða.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd