Akureyrarbær

2022

Akureyrarbær er fjölmennasta sveitarfélag landsins utan höfuðborgarsvæðisins. Í dag búa þar um 19.000 manns og teljast þar með allir íbúar Grímseyjar og Hríseyjar. Bærinn er á gróðursælum og skjólgóðum stað við vestanverðan botn Eyjafjarðar. Þar fellur Glerá til sjávar og hefur hún með tímanum rutt fram jarðefnum og myndað Oddeyrina, sem er eitt stærsta og grónasta hverfi bæjarins. Ágætar hafnaraðstæður eru við Pollinn á Akureyri en í hann fellur Eyjafjarðará með miklum óshólmum og leirum. Frá Pollinum rís snarbrött brekka í vesturátt, sem rofin er með lækjargiljum, stærst eru Búðargil og Grófargil og hafa myndast undan þeim litlar eyrar, Akureyrin og Torfunef. Þegar komið er upp á brekkubrún tekur við mikið flatlendi upp að fjallsrótum. Brekkan hverfur norðan Glerár og miðast nyrðri bæjarmörkin við Lónsá sem rennur úr Hlíðarfjalli.
Akureyri er fallegur og friðsæll bær með einstakt aðdráttarafl sem löngum hefur skipað mikilvægan sess í hjörtum landsmanna. Hvert sem litið er má verða vitni að auðugu mannlífi og blómlegri menningu ásamt öflugu athafnalífi sem í raun hefur markað sveitarfélaginu mikla sérstöðu miðað við annað þéttbýli í landinu. Helstu atvinnuvegir eru verslun og þjónusta, framleiðsluiðnaður og sjávarútvegur. Opinber þjónusta er einnig mjög umsvifamikil en stærsti einstaki vinnustaðurinn á Akureyri er Sjúkrahúsið á Akureyri sem er hið næststærsta á landinu öllu. Iðnfyrirtækin í bænum sérhæfa sig að mestu í matvælaframleiðslu, byggingariðnaði og málm- og skipasmíði. Á síðustu tveimur áratugum hefur hlutur framleiðsluiðnaðar í atvinnulífi þó minnkað mikið. Á sama tíma hefur sjávarútvegi vaxið fiskur um hrygg og er nærtækasta vitnisburðinn að finna hjá Samherja sem er annað stærsta útgerðarfyrirtæki landsins.

Söguágrip
Elstu rituðu heimildir um byggð við botn Eyjafjarðar má rekja til frásagna Landnámabókar af kristna landnámsmanninum Helga „magra“ Eyvindarsyni sem á 9. öld bjó sér ból að Kristnesi ásamt konu sinni Þórunni Hyrnu Ketilsdóttur. Örnefnið Akureyri er fornt og tengist, að öllum líkindum, kornakuryrkju sem bændur stunduðu með öðrum bústörfum. Nafnið kemur fyrst fyrir í ritmáli árið 1526 þegar dómur fellur yfir konu fyrir að hafa sængað með karlmanni án þess að hafa giftingarvottorð. Fyrsti vísir að byggð tók að myndast á Akureyri á fyrri hluta 18. aldar. Þangað komu nokkrir danskir kaupmenn og reistu búðir sínar við Pollinn, enda þóttu náttúruleg hafnarskilyrði þar einstaklega vel af guði gerð. Danirnir dvöldu þar eingöngu yfir sumartímann og sóttu mikið í gjöfulan landbúnaðinn á svæðinu. Þegar leið fram að lokum 18. aldar batt Danakonungur miklar vonir við vöxt og viðgang þorpsins og í kjölfar afnáms einokunarverslunar árið 1787 hlaut Akureyri kaupstaðarréttindi þó svo að þar byggju aðeins 12 manns. Frekari þéttbýlismyndun á svæðinu var lítil og fór svo að réttindin voru dregin til baka árið 1836 og þau ekki endurheimt fyrr en árið 1862.
Árið 1886 bundust nokkrir eyfirskir bændur samtökum um að stofna sjálfstætt pöntunarfélag í því skyni að styrkja stöðu sína gagnvart dönskum kaupmönnum sem þeir álitu ósanngjarna. Ári eftir þetta var nafni samtakanna breytt í Kaupfélag Eyfirðinga eða KEA en tilkoma þess átti eftir að verða eitt mesta framfaraskrefið í mótun Akureyrar sem bæjarfélags. KEA stýrði fjölþættri atvinnustarfsemi sem átti eftir að setja sterkan svip á bæjarlífið. Á vegum þess voru t.d. reknar fjölmargar kjörbúðir ásamt ýmsum iðnfyrirtækjum sem sérhæfðu sig í vinnslu landbúnaðarafurða. Fram eftir 20. öld miðuðust nyrðri bæjar-mörk Akureyrar við Glerá en svæðið þar fyrir utan tilheyrði Glæsibæjarhreppi. Þéttbýli tók að myndast við ána á seinni hluta 19. aldar og um miðja 20. öld var risið þar svonefnt Glerárþorp þar sem efnaminna fólk stundaði sjálfsþurftarbúskap á litlum landskikum. Árið 1955 rann Glerárþorp saman við Akureyri og gekk upp frá því undir opinbera heitinu Glerárhverfi en svæðið átti eftir að njóta hraðrar uppbyggingar á seinni hluta 20. aldar. Í dag skiptist bærinn í fimm önnur hverfi sem eru Oddeyri, Brekka, Naustahverfi, Innbær og Miðbær, auk Hríseyjar og Grímseyjar sem heyra til Akureyrar. Á nýju árþúsundi hefur ásýnd athafnalífsins á Akureyri tekið miklum breytingum. Framleiðsluiðnaðurinn hefur látið undan síga auk þess sem KEA hefur dregið mikið úr umsvifum sínum. Á sama tíma hefur mikill uppgangur átt sér stað í verslun, þjónustu, ferðamennsku og sjávarútvegi, auk þess sem rekstur Háskólans á Akureyri hefur skapað mörg bein og afleidd störf. Þegar á heildina er litið er menntunarstig á Akureyri mjög hátt. Þar eru einnig starfræktir tveir framhaldsskólar, Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri. Vefsíða Akureyrarbæjar er www.akureyri.is.

Opinber þjónusta
Akureyrarbær leggur ríka áherslu á að opinber þjónusta fari ávallt fram með faglegum hætti og að fjölskyldum og einstaklingum séu tryggðar traustar búsetuaðstæður. Mikill metnaður er til að byggja upp framúrskarandi skóla-, heilbrigðis- og félagsþjónustu og að þeir sem eru komnir á efri ár geti átt áhyggjulaust ævikvöld. Markmiðið er einnig að í bænum þrífist frjótt og öflugt menningarlíf og að allir hafi jöfn tækifæri til að iðka hvers kyns íþrótta- og tómstundastörf. Í framtíðarsýn er gert ráð fyrir sterkri grunngerð allrar opinberrar þjónustu. Bæjarstjórn Akureyrar vinnur markvisst að því að gera bæinn að eftirsóknarverðum búsetukosti.

Menningin og mannlífið
Akureyri er í senn vinsæll ferðamannastaður og mikill menningarbær sem iðar af fjölbreyttu mannlífi allan ársins hring. Bærinn er kjörinn áfangastaður fyrir alla þá sem vilja sjá, skoða og njóta og má einu gilda á hvaða tíma ársins það er. Í bænum má finna fjölbreytta flóru veitingahúsa með mismunandi áherslum en öll eiga þau það þó sammerkt að kitla bragðlaukana svo um munar og þá ekki síst með staðbundnu hráefni. Einnig má heimsækja mörg vinsæl og vinaleg kaffihús sem sum hver eru orðin að þekktum kennileitum. Hið sama má segja um annálaða skemmtistaðina sem spanna allt litrófið. Stærstan hluta allra þessara staða er að finna í miðbæjarkjarnanum við nyrsta hluta Hafnarstrætis. Miðbærinn var gerður að göngugötu á níunda áratugnum en er nú opinn fyrir bílaumferð flesta daga ársins. Akureyri býr að annáluðu menningar- og listalífi sem hefur haft mikið aðdráttarafl. Þar eru söfn, gallerí og listasmiðjur ásamt ótal fallegum byggingum og mannvirkjum óþrjótandi uppspretta fróðleiks, fegurðar og skemmtunar. Ein helsta skrautfjöðurin að því leyti er Listasafnið á Akureyri en þar var Mjólkursamlag KEA áður til húsa. Gatan sem liggur um Grófargil í miðbænum er í daglegu tali nefnd Listagil. Önnur merkileg starfsemi fer fram á Minjasafninu við Aðalstræti en þar eru varðveittar menningarsögulegar minjar sem eru lýsandi fyrir þróun byggðar í Eyjafirði, frá Landnámi og fram á okkar daga. Loks er Akureyri bær hinna miklu skálda og rithöfunda, þeirra: Davíðs Stefánssonar, Jóns Sveinssonar og Matthíasar Jochumssonar en í þeirra nafni eru rekin söfn og fræðasetur; Davíðshús, Nonnahús og Sigurhæðir. Önnur söfn sem má nefna eru t.d. Flugsafn og Iðnaðarsafn. Hvað menningarlíf snertir má ekki láta hjá líða að minnast á sjálft Leikfélag Akureyrar sem er eina atvinnuleikhúsið utan höfuðborgarsvæðisins en þar eru settar upp 3-4 sýningar á hverju ári. Í bænum er starfrækt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sem heldur að jafnaði 5-7 tónleika á hverju ári. Opnun Menningarhússins Hofs í ágúst 2010 markaði mikil tímamót en þar var skapaður verðugur rammi utan um menningar- og tónlistarlíf Norðlendinga með sérstakri áherslu á tónlist, leikhús, danslist og ráðstefnuhald.

Afþreying og útivist
Eyjarfjörðurinn í heild sinni er kjörinn staður til að upplifa afþreyingu og útivist auk þess sem þaðan er stutt í margar af helstu náttúruperlum landsins eins og Mývatn, Ásbyrgi, Goðafoss og Dettifoss. Bærinn geymir mikið af áhugaverðum og fjölskylduvænum útvistarsvæðum en þar er Kjarnaskógur stærstur. Lystigarðurinn er ein af perlum Akureyrar þar sem finna má allar þær plöntur sem þrífast í flóru Íslands, auk 7.000 erlendra afbrigða. Sundlaug Akureyrar er nýuppgerð með fullkominni aðstöðu og skemmtilegum vatnsrennibrautum. Þangað koma um 400.000 gestir á hverju ári og er hún ein vinsælasta laug landsins. Þá er einnig á Akureyri skautahöll sem er opin yfir vetrartímann. Auðveldlega er hægt að koma sér á milli staða með strætisvögnum Akureyrar sem frá árinu 2007 hafa boðið upp á endurgjaldslausar ferðir um bæinn. Þeim sem vilja upplifa Akureyri á tveimur jafnfljótum skal bent á að bærinn geymir fjölda göngustíga sem liggja um forvitnileg og falleg útivistarsvæði. Hvað varðar lengri ferðir um náttúru Eyjafjarðar og nágrenni skal bent á reglulega dagskrá Ferðafélags Akureyrar þar sem t.d. er boðið upp á sérstakar gönguvikur. Hægt er að komast í mislangar jeppa- og fjallatrukkaferðir undir leiðsögn ásamt hefðbundnum skoðunarferðum í langferðabifreiðum og skemmtisiglingum um Eyjafjörð. Einnig má leigja sér hesta, reiðhjól og fjórhjól eða panta útsýnisflug og upplifa náttúrufegurðina með góðri yfirsýn. Fyrir þá ferðamenn sem vilja slappa af og njóta þess að dunda sér yfir sínu uppáhalds áhugamáli þá gefast ýmsir möguleikar í því skyni eins og að spila golf á Jaðarsvelli, stunda fuglaskoðun, skella sér á skíði í Hlíðarfjalli eða renna fyrir fisk í ám, vötnum og á sjó.

Samgöngur og gistimöguleikar
Samgöngur við Akureyri hafa ávallt verið mjög greiðar, hvort heldur menn kjósa að halda þangað landleiðina eða fljúga. Icelandair heldur uppi reglulegri áætlun frá Reykjavík og er flugtíminn um 40 mínútur. Vegalengdin frá höfuðborgarsvæðinu eftir þjóðvegi 1 er um 380 km. Með rútu tekur ferðin um sex tíma en tæpa fimm á einkabíl. Á Akureyri bjóðast gistimöguleikar af ýmsu tagi og eru flest hótel og gistiheimili í námunda við miðbæinn. Í raun býðst allt frá fyrsta flokks hótelum til svefnpokapláss og tjaldstæða. Allar nánari upplýsingar má nálgast á www.visitakureyri.is.

Akureyrarkirkja
Akureyrarkirkja er eitt þekktasta kennileiti Akureyrarbæjar. Hún var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins og vígð árið 1940. Í kirkjunni er meðal annars steindur gluggi sem lengi var talinn vera úr kirkju á Coventry á Englandi sem var eyðilögð í síðari heimsstyrjöldinni. Á svölum kirkjuskipsins má finna lágmyndir eftir Ásmund Sveinsson. Skírnarfontur kirkjunnar er mótaður að fyrirmynd Bertels Thorvaldsen.

Hlíðarfjall
Í Hlíðarfjalli er að finna sannkalla skíðaparadís í túnfæti Akureyrar. Þar bjóðast frábærar aðstæður til iðkunar hvers kyns vetraríþrótta. Lyfturnar á svæðinu geta samanlagt flutt um 7.000 manns á klst.

Grímsey
Grímseyjarhreppur sameinaðist Akureyrarbæ árið 2009. Grímsey er um 40 km norðan við Eyjafjörð og er hún 5,3 ferkílómetrar að stærð og nær hæst um 105 m yfir sjávarmál. Á eyjunni hefur byggst upp lítið þorp þar sem innan við 100 manns byggja afkomu sína á sjávarútvegi og þjónustu við ferðamenn. Þetta er nyrsta byggð á Íslandi og liggur sjálfur Norðurheimskautsbaugurinn þvert í gegnum eyjuna. Grímsey er græn og grösug eyja sem nýtur auðugra fiskimiða og litríks fuglalífs. Vinsælt er að heimsækja eyjuna til að skoða lundann á sumrin. Í Grímsey er falleg kirkja, lítil innisundlaug, verslun, tvö gistiheimili og veitingahús sem er opið yfir sumartímann. Samgöngur til Grímseyjar byggjast á reglulegum ferjusiglingum frá Dalvík og flugi frá Akureyri. www.grimsey.is.

Hrísey
Hríseyjarhreppur sameinaðist Akureyrarbæ árið 2004. Hrísey liggur í norðanverðum Eyjafirði, austur af Dalvík og norðaustan frá Árskógssandi og er iðulega nefnd „Perla Eyjafjarðar”. Hún er um 8 ferkílómetrar að flatarmáli og er því næststærsta eyjan við Íslandsstrendur á eftir Heimaey. Íbúarnir eru um 150 en þeir eru flestir búsettir í litlu þorpi á suðurhluta eyjunnar. Grunnatvinnuvegurinn hefur verið sjávarútvegur en ferðaþjónustu vex smám saman fiskur um hrygg enda er eyjan mikil náttúruperla. Þar er t.d. boðið upp á góða sundlaug, Hús Hákarla Jörundar, Ölduhús og rómaðar útsýnisferðir með traktor, gönguleiðir og góð tækifæri til fuglaskoðunar. Til að komast til Hríseyjar er best að taka ferjuna Sævar sem siglir frá frá Árskógssandi á tveggja klst. fresti og tekur siglingin um 15 mínútur. www.hrisey.is.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2025 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd