Aldan stéttarfélag

2022

Aldan stéttarfélag tók til starfa í ársbyrjun 2001. Það má þó halda því fram með góðum rökum að félagið sé næstum hundrað árum eldra. Heimildir herma, að um áramótin 1901-1902 hafi verið stofnað verkamannafélag á Sauðárkróki, fyrir forgöngu Jóhanns Jóhannessonar skósmiðs. Fyrsti formaður var kjörinn Hinrik Árnason, trésmiður. Litið hefur verið á þetta félag sem upphaf Verkamannafélagsins Fram, sem síðan sameinaðist Verkakvennafélaginu Öldunni sem var stofnað 9. janúar 1930. Um svipað leyti voru stofnuð tvö félög í Hofsósi: Verkamannafélagið Farsæll og Verkakvennafélagið Báran. Þau sameinuðust árið 1970 í Verkalýðsfélagið Ársæl, sem síðar sameinaðist Fram. Vitað er um a.m.k. tvö önnur félög sem störfuðu tímabundið á félagssvæðinu: Verkamannafélag Lýtingsstaðahrepps og Verkamannafélagið Flóka í Haganesvík.

Sagan

Framan af var skrifstofuhald að mestu á heimili formanna, eða þar til fyrir um 50 árum þegar Fram kom sér upp skrifstofu í litlu herbergi á Gamla spítalanum. Verkakvennafélagið Aldan kom sér upp skrifstofu um 1978. Skrifstofur félaganna voru fluttar nokkrum sinnum en í dag er skrifstofa Öldunnar stéttarfélags til húsa í Borgarmýri 1 á Sauðárkróki.

Félagið

Alls greiða um 1.500 einstaklingar til félagsins en fullgildir félagsmenn eru um 1.100. Um síðustu aldamót voru þeir ríflega 800. Þetta þýðir að félagsmönnum hefur fjölgað um nærri 35% á þessum tíma. Helstu ástæður fjölgunar er vöxtur í ferðaþjónustu undanfarin ár, öflug fyrirtæki, t.d. í jarðvinnu, hafa aukið umsvif á svæðinu og í sláturtíð kemur að jafnaði allstór hópur erlends farandverkafólks til landsins, en svo var ekki áður. Félagssvæðið er Skagafjörður.

Fólkið

Þó hægt sé að halda því fram að félagið og forverar þess séu orðin næstum 120 ára er félagið kornungt sé tekið mið af aldurssamsetningu félagsmannanna því um 60% félagsmanna eru yngri en 35 ára. Tæplega 60% félagsmanna eru karlar og rúm 40% konur.
Á aðalfundi ár hvert eru kjörnir 4 stjórnarmenn til tveggja ára, alls 8 einstaklingar. Í stjórninni eiga jafnframt sæti formenn þeirra þriggja deilda sem eru í félaginu: sjómannadeild, matvæladeild og deild starfsfólks ríkis og sveitarfélaga. Þeir eru kjörnir til eins árs í senn á aðalfundum deildanna. Alls eiga því 11 einstaklingar sæti í stjórn félagsins. Nú eru 6 konur í stjórninni og 5 karlar.

Samstarf

Félagið á aðild að Starfsgreinasambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands og Alþýðusambandi Íslands. Jafnframt á félagið í margvíslegu samstarfi við önnur félög á svæðinu um námskeiðahald og fleira. Aldan stéttarfélag sér auk þess um utanumhald sjóða og afgreiðslu fyrir Verslunarmannafélag Skagafjarðar. Á skrifstofu félagsins eru fjórir starfsmenn að meðtöldum formanni, þar af er einn Virk-ráðgjafi.

Verkefni

Verkefni verkalýðsfélags taka stöðugum breytingum í takt við breytt samfélag, þótt viðfangsefnin séu þau sömu og þau voru fyrir 120 árum: Að sækja fram í kjörum og réttindum félagsmanna og verja áunnin réttindi. Hvort það verður gert um ókomna framtíð með núverandi félagseiningum eða hvort af frekari sameiningum verður skal ósagt látið. Hvaða leiðir verða ofan á í þeim efnum mun ráðast af hagsmunum og viðhorfum félagsmanna.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd