Alma er eitt af stærstu fasteignafélögum landins og hefur frá stofnun verið leiðandi í uppbyggingu á heilbrigðum og skilvirkum leigumarkaði á Íslandi. Meginstarfsemi félagsins er langtímaleiga íbúðarhúsnæðis til einstaklinga, en félagið rekur einnig skammtímaleigustarfsemi í gegnum dótturfélag sitt, Ylmu. Jafnframt býður félagið stærri fjárfestum á íbúðamarkaði alhliða þjónustu við umsjón og rekstur leiguíbúða.
Sagan
Félagið Alma var stofnað í nóvember 2014 undir nafninu Almenna leigufélagið. Upphaflega fólst starfsemi félagsins helst í leigumiðlun, leigu- og eignaumsýslu fyrir fasteignasjóði í rekstri fjármálafyrirtækisins GAMMA en á árinu 2016 hóf félagið að fjárfesta í fasteignum og fasteignafélögum og stækkaði hratt í kjölfarið.
Á haustmánuðum 2017 flutti félagið skrifstofur sínar að Suðurlandsbraut 30 í Reykjavík, en félagið hafði frá stofnun haft aðsetur í Garðastræti 37. Í mars 2019 kynnti félagið nýtt vörumerki undir nafninu Alma.
Starfsemin
Alma leggur mikla áherslu á að viðskiptavinir félagsins njóti húsnæðisöryggis, góðrar þjónustu og sveigjanleika. Félagið vill vera fyrsti kostur fyrir fjölskyldufólk og einstaklinga sem leitast eftir því að leigja til lengri tíma, og vera til fyrirmyndar þegar kemur að því að ástunda fagleg vinnubrögð. Meðal þess sem stendur viðskiptavinum Ölmu til boða eru leigusamningar sem tryggja húsnæðisöryggi og fast leiguverð til allt að sjö ára og greitt aðgengi að stóru og öflugu teymi starfsfólks og iðnaðarmanna sem sinna þjónustu við viðskiptavini og viðhaldi íbúða. Alma býður einnig viðskiptavinum sínum að flytja sig milli íbúða, til dæmis ef fjölskylduaðstæður þeirra breytast og þeir vilja stækka eða minnka við sig. Þökk sé góðu samstarfi við Securitas getur Alma tryggt aðgang að þjónustu allan sólarhringinn og geta viðskiptavinir því haft samband hvenær sem er, ef eitthvað kemur upp á sem krefst tafarlausra aðgerða.
Eignasafn Ölmu samanstefndur í dag af um 1.000 íbúðum. Stærstan hluta eignanna er að finna á höfuðborgarsvæðinu en félagið á einnig fasteignir í stærri þéttbýlisstöðum á suðvesturhorninu og annars staðar á landinu. Uppistaðan í eignasafninu eru hagkvæmar íbúðir í fjölbýlishúsum. Félagið vinnur stöðugt að því að bæta eignasafn sitt með því að selja eignir sem henta síður til útleigu og bæta ákjósanlegum eignum við.
Til viðbótar við að bjóða uppá langtímaleigu starfrækir Alma jafnframt skammtímaleigu, þ.e. útleigu til styttri tíma en eins mánaðar í senn, einkum til ferðamanna. Ylma, dótturfélag Ölmu, sér alfarið um rekstur skammtímaleigunnar. Um er að ræða u.þ.b. 70 hótelíbúðir sem allar eru staðsettar í miðborg Reykjavíkur.
Mannauður
Starfsemi félagins skiptist í tvö meginsvið: fjármálasvið og þjónustusvið. Meðal verkefna þjónustusviðs er útleiga íbúða og þjónusta við viðskiptavini félagsins. Innan þjónustusviðs starfar jafnframt sérhæft teymi sem sér um viðhald og umsjón fasteigna félagsins og fylgist með ástandi eignasafnsins. María Björk Einarsdóttir er framkvæmdastjóri Ölmu og hefur gegnt því starfi frá því árið 2014. Fjármálastjóri félagsins er Sigurður Rúnar Pálsson, en hann hóf störf á árinu 2017.
Á síðustu þremur árum hefur starfsmönnum Ölmu fjölgað hratt. Þar starfa nú sextán starfsmenn í jafnmörgum stöðugildum, en til samanburðar voru starfsmenn í byrjun árs 2017 aðeins sex. Þessi aukning kemur bæði til vegna örs vaxtar síðustu ár og verkefna sem var áður útvistað en félagið sinnir sjálft í dag. Öflugur mannauður styður við markmið félagsins um góðan og heilbrigðan rekstur og hátt þjónustustig gagnvart viðskiptavinuum. Áhersla er lögð á að skapa gott starfsumhverfi með því að bjóða upp á sveigjanleika og tækifæri til að þróast í starfi. Hjá félaginu starfar vel menntað starfsfólk með fjölbreytta reynslu sem nýtist í starfi.
Samfélagsleg ábyrgð
Alma hefur frá upphafi viljað stuðla að því að gera leigumarkaðinn á Íslandi faglegri, fjölskylduvænni og traustari. Í því skyni hefur félagið m.a. lagt áherslu á að stuðla að betri vitund meðal almennings um réttindi leigjenda og inntak þeirra laga og reglna sem gilda um leigu íbúðarhúsnæðis.
Frá árinu 2017 hefu Alma, í samstarfi við Orator, félag laganema við Háskóla Íslands, haldið úti Leigjendalínunni. Leigjendalínan er endurgjaldslaus lögfræðiráðgjöf í síma fyrir alla leigjendur á Íslandi. Þar svara laganemar spurningum er varða réttindi og skyldur leigjenda undir handleiðslu lögfræðings. Viðtökur verkefnisins hafa verið mjög góðar og augljóst að mikil þörf var fyrir slíka þjónustu.
Það er von Ölmu að með því að stuðla að fræðslu meðal leigjenda og leigusala verði leigumarkaðurinn faglegri og traustari. Þá býður Alma viðskiptavinum sínum upp á öruggt leiguhúsnæði, hátt þjónustustig og sveigjanleika og leggur mikið upp úr því að vera til fyrirmyndar þegar kemur að faglegum vinnubrögðum.
Framtíðarsýn
Á vormánuðum 2019 kynnti Alma nýja tegund leigusamninga, sem ekki höfðu áður þekkst á leigumarkaði hérlendis. Um er að ræða samninga sem tryggja langtímaleiguöryggi til allt að sjö ára með föstu leiguverði sem aðeins er tengt við vísitölu neysluverðs. Það er trú félagsins að þar hafi verið tekið stórt skref í átt að því að gera hinn almenna leigumarkað að raunhæfum langtímavalkosti að norrænni fyrirmynd, með stórauknu húsnæðisöryggi og verðstöðugleika leigjendum til hagsbóta.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd