Þeir Gunnar Pétursson, Sveinn Magnússon og Smári Örn Baldursson stofnuðu vélsmiðjuna Altak árið 2001. Fyrirtækið var fyrst um sinn til húsa á Ægisgarði en er nú í eigin húsnæði að Drangahrauni 1 í Hafnarfirði.
Starfsemin
Vélsmiðjan Altak hefur í gegnum árin unnið að mestu fyrir orkufyrirtæki eins og Orku Náttúrunnar og HS Orku auk almennrar stálsmíði. Mikil samkeppni ríkir á orkumarkaði og því margir um þau verkefni sem til falla, þannig að flest verkefnin fást með þátttöku í útboðum. Altak hefur komið að stórum verkefnum við gerð flestra virkjana landsins. Einn þátturinn hefur falist í að reisa kæliturna fyrir HS Orku, Orku Náttúrunnar og Landsvirkjun, sem nú eru orðnir 12 talsins. Altak annaðist þjónustu við varðskip Landhelgisgæslunnar í mörg ár. Lagnirnar sem margir koma auga á þegar þeir leggja leið sína yfir Hellisheiði eru eitt dæmi um verkefni sem Altak hefur haft með höndum. Fyrirtækið telur sig samfélagslega ábyrgt og styður við starf ýmissa góðgerðarfélaga.
Mannauður
Sem stendur starfa 18 manns hjá Altaki en flestir hafa starfsmenn orðið 120. Það var á árunum 2006 til 2008 þegar álagið var með mesta móti vegna stórra og mannfrekra verkefna.
Erfiðlega gengur að fá Íslendinga til starfa í stáliðnaði og er því hlutfall erlndra verkamanna, einkum Pólverja, með hæsta móti hjá Altaki. Mannaflaþörfin fer þannig eftir verkefnastöðu hverju sinni. Verkefnastaðan er ágæt eins og staðan er í dag en erfitt er að spá um hvað framtíðin ber í skauti sér. Það er hins vegar umhugsunarefni hversu lítil nýliðun er í stáliðnaðargreinum í seinni tíð. Það er einsýnt að leita verður til erlendra starfsmanna í framtíðinni miðað við það áhugaleysi sem virðist ríkjandi hvað varðar nám íslenskra ungmenna í þeim greinum.
Ekki hefur þurft að grípa til sérstakra ráðstafana vegna heimsfaraldursins en þess þó gætt að virða reglur Almannavarna hverju sinni.
© 2025 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd