Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands skiptist ríkisvaldið í þrjá hluta, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, sem takmarka völd hver annars. Alþingi er löggjafarþing Íslendinga. Þar eru sett lög sem öllum sem á Íslandi eru ber að fara eftir, m.a. um skattlagningu og ráðstöfun opinberra fjármuna. Í því síðarnefnda felst fjárstjórnarvald Alþingis. Alþingi er einnig skylt að hafa eftirlit með starfsemi framkvæmdarvaldsins og samkvæmt þingræðisskipulaginu sem hefur verið við lýði á Íslandi frá 1904 getur engin ríkisstjórn eða ráðherra setið nema með stuðningi eða hlutleysi þingsins.
Þingmenn, kosningar og kjördæmi
Alþingi starfar í umboði kjósenda sem velja fulltrúa sína til starfa á þinginu í almennum leynilegum kosningum. Þessi tilhögun nefnist fulltrúalýðræði. Að jafnaði fara þingkosningar fram á fjögurra ára fresti og tímabilið sem kjósendur veita hinum kjörnu fulltrúum – þingmönnunum – umboð til starfa á löggjafarþinginu kallast kjörtímabil.
Allir íslenskir ríkisborgarar sem hafa náð 18 ára aldri á kjördegi og eru búsettir á Íslandi, eða hafa verið það, hafa rétt til að greiða atkvæði í alþingiskosningum. Kosningarrétturinn er þannig undirstaða lýðræðis á Íslandi. Alþingismenn eru 63 og frá árinu 2003 hafa þeir verið kosnir í sex kjördæmum, Suðvesturkjördæmi, Reykjavíkurkjördæmi suður, Reykjavíkurkjördæmi norður, Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Lágmarksfjöldi þingmanna í hverju kjördæmi er sex en heildarfjöldinn er misjafn og ræðst af fjölda kjósenda í kjördæminu.
Í þingkosningum sem fóru fram 25. september 2021 var kosið um 54 kjördæmasæti og níu þingsæti voru jöfnunarþingsæti sem úthlutað var til að vinna gegn misræmi á milli fylgis stjórnmálaflokks á landsvísu og fjölda kjördæmissæta. Fulltrúar úr átta stjórnmálahreyfingum náðu kjöri á Alþingi í þessum kosningum.
Forseti Alþingis og forsætisnefnd
Á fyrsta þingfundi að afloknum alþingiskosningum kjósa þingmenn forseta Alþingis úr hópi þingmanna og einnig varaforseta, allt að sex talsins. Forseti Alþingis kemur jafnan úr stjórnmálaflokki sem á aðild að ríkisstjórn. Forseti og varaforsetar skipa forsætisnefnd þingsins sem tekur ákvarðanir um margvísleg málefni sem varða þingið og þinghaldið.
Forseti Alþingis stjórnar þinghaldinu, ákveður dagskrá þingfunda og hefur frumkvæði að því að semja starfsáætlun Alþingis og áætlun um fundi þess. Þingforseti hefur samstarf við formenn þingflokka um framvindu þinghalds og heldur með þeim vikulega fundi um tilhögun dagskrár þingsins og fyrirkomulag umræðna.
Forseti hefur umsjón með starfi þingnefnda og alþjóðanefnda og fyrirspurnir til ráðherra eru háðar leyfi hans. Forseti sker úr ágreiningi um túlkun þingskapa og sérstakar umræður fara ekki fram nema með samþykki hans.
Forseti kemur fram fyrir hönd Alþingis á opinberum vettvangi og tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi forseta þjóðþinga. Forseti Alþingis er einn þriggja handhafa forsetavalds í fjarveru eða forföllum forseta Íslands.
Þingflokkar
Þingmenn sem kjörnir voru til þingsetu af framboðslistum sama stjórnmálaflokksins mynda þingflokk. Engum þingmanni er þó skylt að tilheyra þingflokki og þingmenn geta gengið í aðra þingflokka eða staðið utan þeirra ef þeim sýnist svo.
Þingflokkur kýs sér stjórn og kemur formaður hans fram fyrir hönd þingflokksins gagnvart forseta þingsins, öðrum þingflokkum og þingmönnum. Þingflokkarnir taka ákvarðanir um val á mönnum til trúnaðarstarfa á vegum Alþingis og þá sem veljast til að gegna ráðherraembættum.
Í þingflokkum eru teknar ákvarðanir um skiptingu nefndasetu milli þingmanna og á fundum þingflokks er m.a. fjallað um þingmál sem lögð eru fyrir Alþingi, stöðu mála í þingnefndum, afstöðu til einstakra mála og breytingartillagna við þau.
Þingflokkar koma vanalega saman til fundar tvisvar í viku á þingtímanum.
Suðvesturkjördæmi – 13 þingsæti
Reykjavíkurkjördæmi suður – 11 þingsæti
Reykjavíkurkjördæmi norður – 11 þingsæti
Norðvesturkjördæmi – 8 þingsæti
Norðausturkjördæmi – 10 þingsæti
Suðurkjördæmi – 10 þingsæti
Þingstörf
Löggjöf og stefnumörkun
Við venjulegar kringumstæður kemur Alþingi saman eftir sumarhlé annan þriðjudag í september og hefst þá nýtt löggjafarþing. Frumvarp til fjárlaga er að jafnaði fyrsta málið sem lagt er fyrir þingið og jafnframt það viðamesta og er lögð áhersla á að ljúka afgreiðslu þess fyrir áramót. Fjárlagafrumvarp og fjárlög eru helstu tæki þingmanna til stefnumótunar og til að beita því fjárstjórnarvaldi sem þingið hefur. Ekki má verja fé úr ríkissjóði nema fyrir því sé heimild í lögum og ekki má innheimta skatt nema með lagaheimild. Því gegna fjárlögin ásamt skattalögum lykilhlutverki í allri starfsemi hins opinbera.
Auk fjárlaga fjallar Alþingi um fjölda ólíkra lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna á hverju reglulegu löggjafarþingi. Frumkvæði að nýjum lögum eða lagabreytingum getur komið úr ýmsum áttum en meginþorri þeirra frumvarpa sem lagður er fyrir Alþingi á þó uppruna sinn í ráðuneytunum. Hagsmunaaðilar og samtök þeirra reyna gjarnan að hafa áhrif á undirbúning lagasetningar, oft í gegnum fjölmiðla, og sama er að segja um einstaklinga sem láta sig tiltekin mál varða.
Allir þingmenn og ráðherrar geta lagt mál fyrir Alþingi en stjórnarfrumvörp eru yfirleitt sýnu fleiri en þingmannafrumvörp og einungis fá þingmannafrumvörp verða að lögum.
Í stjórnarskránni segir að ekkert frumvarp megi samþykkja nema það hafi verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. Samkvæmt þingsköpum Alþingis fá þingmenn ráðrúm til að kynna sér mál sem lögð eru fyrir þingið og oftast er þeim vísað til umfjöllunar í þingnefnd milli fyrstu og annarrar umræðu. Þetta skipulag kemur í veg fyrir að unnt sé að bera mál fyrirvaralítið undir atkvæði og hindrar að málum verði þröngvað í gegnum þingið án nægilegrar rýni og umfjöllunar.
Á sérhverju löggjafarþingi eru lagðar fyrir Alþingi nokkrar tillögur til þingsályktunar og hljóta sumar þeirra samþykki og verða ályktanir Alþingis. Með þessum hætti lýsir Alþingi stefnu sinni í þeim málum sem þingsályktunin tekur til en oft felast í slíkum ályktunum áskoranir til ráðherra eða ríkisstjórnar í heild um að koma tilteknum verkefnum til leiðar eða heimild til að gera ákveðnar ráðstafanir.
Eftirlitshlutverk Alþingis og almennar umræður
Alþingi ber að veita framkvæmdarvaldinu aðhald, bæði ríkisstjórninni og allri stjórnsýslunni. Þessar skyldur rækja þingmenn m.a. með því að bera fram fyrirspurnir til ráðherra sem svarað er munnlega eða skriflega.
Óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra eru reglulega á dagskrá þingsins. Þar bera þingmenn upp fyrirspurnir til ráðherra um málefni á verkefnasviði þeirra ráðuneyta sem þeir stýra sem ráðherrar svara þá þegar. Þingmenn geta einnig beðið ráðherra um skýrslur um málefni á verkefnasviði ráðuneyta þeirra og ráðherrar leggja fram á þinginu greinargerðir að eigin frumkvæði eða í samræmi við ákvæði laga.
Tvær eftirlitsstofnanir sem heyra undir Alþingi, Ríkisendurskoðun og embætti umboðsmanns Alþingis, gegna veigamiklu hlutverki í eftirliti Alþingis með framkvæmdarvaldinu og enn fremur getur Alþingi sett á stofn rannsóknarnefndir til að kanna einstök mál og gera grein fyrir þeim. Þekktust slíkra rannsóknarnefnda er nefnd sem kannaði aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008.
Þegar þinghald stendur yfir eru yfirleitt fundir í þingsal fjóra daga vikunnar. Þingmenn ræða þar mál sem liggja fyrir þinginu en auk þess gefst þeim kostur á að reifa ýmis álitamál stjórnmálanna og vekja athygli á málefnum sem þingmenn telja mikilvægt að fjallað sé um á opinberum vettvangi. Þingsalur Alþingis er því mikilvæg málstofa fyrir stjórnmálaumræðu í landinu. Tveir dagskrárliðir sem eru reglulega á dagskrá þingfunda, sérstakar umræður og störf þingsins, eru vettvangur fjölbreyttrar umræðu um þjóðmál og geta einnig haft þýðingu fyrir eftirlitshlutverk þingsins.
Nefndir Alþingis
Átta fastanefndir starfa á Alþingi og sinnir hver þeirra afmörkuðu málefnasviði. Þessar nefndir eru allsherjar- og menntamálanefnd, atvinnuveganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, fjárlaganefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, utanríkismálanefnd og velferðarnefnd. Enn fremur er framtíðarnefnd starfrækt og þingið skipar auk þess ýmsar nefndir sem starfa tímabundið að úrlausn ýmissa viðfangsefna. Meginhlutverk fastanefndanna er að fjalla um þingmál sem vísað er til þeirra en einnig geta þær tekið mál til umfjöllunar að eigin frumkvæði. Að jafnaði er lagafrumvörpum og þingsályktunartillögum vísað til nefndar að lokinni fyrstu umræðu í þingsal en heimilt er þó að vísa máli í nefnd á öllum stigum þess. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjallar eins og aðrar þingnefndir um málefni sem falla undir verksvið hennar en hefur auk þess ríka frumkvæðisskyldu hvað varðar eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu.
Hver þingmaður á rétt á setu í einni fastanefnd en enginn þingmaður má sitja í fleiri fastanefndum en tveimur. Níu þingmenn sitja í hverri fastanefnd. Þingflokkur sem á ekki fulltrúa í nefnd getur óskað eftir því að fá þar áheyrnarfulltrúa og það á einnig við um þingmenn utan flokka. Vinnufundir fastanefnda eru að jafnaði lokaðir öðrum en nefndarmönnum en nefnd getur ákveðið að fundur sé opinn og er hann þá sendur út á vef þingsins og í sjónvarpi. Nefndum er einnig heimilt að veita fréttamönnum aðgang að fundum án þess að þeir séu sendir út á vef og í sjónvarpi.
Í tengslum við umfjöllun nefndar um þingmál er óskað eftir umsögnum ýmissa aðila um efni þingmálsins sem ýmist eru skriflegar eða munnlegar þegar gestir koma á nefndarfundi. Skrifleg álit eru gerð aðgengileg á vef Alþingis og tengd þar því máli sem þau lúta að.
Þegar nefnd hefur lokið umfjöllun sinni um þingmál skilar hún skriflegu áliti þar sem fram kemur tillaga nefndarinnar um það hvernig Alþingi eigi að afgreiða málið. Ef nefndin er ekki einhuga í afstöðu sinni geta nefndarálit orðið tvö eða fleiri. Í nefndaráliti er, auk afstöðu þingmanna, lýst vinnu nefndarinnar að málinu, upplýsingaöflun, viðræðum við álitsgjafa o.fl. og því geta fylgt ýmis fylgiskjöl sem varða málið.
Nefnd getur lagt til breytingar á þingmáli og er það þá ávallt gert með skriflegri breytingartillögu. Taki nefnd frumvarp aftur til meðferðar að lokinni annarri umræðu getur hún skilað framhaldsnefndaráliti.
Nefndarmenn geta tekið sig saman um að leggja fram frumvarp í nafni nefndarinnar um málefni sem eru á verksviði hennar.
Alþjóðastarf á vegum Alþingis
Alþingi tekur þátt í margs konar alþjóðlegu samstarfi. Eru alþjóðanefndirnar kallaðar Íslandsdeildir þeirra fjölþjóðasamtaka sem Alþingi á aðild að. Á Alþingi starfa átta Íslandsdeildir alþjóðlegra þingmannasamtaka. Þær eru Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins (Inter-Parliamentary Union), Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES (EFTA Parliamentary Committee og EEA Joint Parliamentary Committee), Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins (Parliamentary Assembly of the Council of Europe), Íslandsdeild NATO-þingsins (NATO Parliamentary Assembly), Íslandsdeild Norðurlandaráðs (Nordisk Råd), Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins (Vestnordisk Råd), Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál (Conference of Parliamentarians of the Arctic Region) og Íslandsdeild ÖSE-þingsins (ÖSE = Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, OSCE Parliamentary Assembly).
Starfsemi alþjóðanefnda Alþingis er mismunandi og fer eftir verkefnum og starfsgrundvelli þeirra alþjóðlegu þingmannasamtaka sem Alþingi á aðild að. Alþjóðanefndir Alþingis sækja fundi og ráðstefnur hjá alþjóðlegum þingmannasamtökum og nýta tækifærið til að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri þegar við á.
Skrifstofa Alþingis
Starfslið skrifstofu Alþingis annast margvíslega þjónustu við þingmenn og þá sem leita upplýsinga um starfsemi Alþingis eða þurfa að koma á framfæri erindum við þingið.
Skrifstofustjóri stjórnar skrifstofu Alþingis, framkvæmdum á vegum þingsins og hefur umsjón með fjárreiðum þess og eignum í umboði forseta. Þingfundasvið, nefndasvið og mannauðs- og gæðaskrifstofa þingsins heyra beint undir skrifstofustjóra. Skrifstofustjóri situr fundi forsætisnefndar og er forseta og nefndinni til aðstoðar í öllu er varðar stjórn þingsins.
Varaskrifstofustjóri er staðgengill skrifstofustjóra. Hann hefur umsjón með þremur starfseiningum: forsetaskrifstofu, lagaskrifstofu og rannsókna- og upplýsingaskrifstofu. Varaskrifstofustjóri er ritari forsætisnefndar Alþingis og undirbýr fundi hennar.
Fjármála- og rekstrarstjóri annast fjármálastjórn og rekstur þingsins ásamt því að hafa umsjón með þremur starfseiningum: rekstrar- og þjónustusviði, fjármálaskrifstofu og upplýsingatækniskrifstofu.
Starfsemi skrifstofu Alþingis er skipt í níu einingar sem sinna afmörkuðu verksviði. Þessar einingar eru þingfundasvið, nefndasvið, mannauðs- og gæðaskrifstofa, forsetaskrifstofa, lagaskrifstofa, rannsókna- og upplýsingaskrifstofa, fjármálaskrifstofa, rekstrar- og þjónustusvið og upplýsingatæknisvið. Í heild telur starfslið skrifstofunnar um 150 manns, þar af eru um 30 pólitískir starfsmenn þingflokka og aðstoðarmenn formanna flokka í stjórnarandstöðu.
Hlutverk þingfundasviðs er þríþætt: þjónusta við þingfundi, útgáfa á umræðum í þingsal og skjalavinnsla. Í því felst m.a. undirbúningur þingfunda, gerð dagskrár, skráning þingskjala, upptaka og útsending umræðna á þingfundum, útgáfa þingræðna á vef Alþingis og umsjón með mælendaskrá, atkvæðagreiðslum og lagaskráningu. Starfsfólk sviðsins annast einnig upplýsingaþjónustu við þingmenn á þingfundum, ráðgjöf og aðstoð við gerð og frágang fyrirspurna og útgáfu á vikulegu yfirliti yfir stöðu þingmála, ásamt því að sinna yfirlestri, frágangi og útgáfu á þingskjölum á prenti og á vef. Sviðið sér jafnframt um uppfærslu og útgáfu lagasafnsins á vef Alþingis.
Hlutverk nefndasviðs er að tryggja vandaða lagasetningu og fagleg vinnubrögð og veita þingnefndum og þingmönnum sérfræðiaðstoð og ráðgjöf til að þeir geti sinnt skyldum sínum. Starfsfólk sviðsins starfar í þremur deildum, nefndadeild, fjárlaga- og greiningardeild og alþjóðadeild.
Hlutverk mannauðs- og gæðaskrifstofu er að hafa umsjón með kjara- og mannauðsmálum, skjalastjórnun og gæðamálum skrifstofu Alþingis í samráði við yfirstjórn og aðra stjórnendur. Skrifstofan er starfsfólki og stjórnendum til stuðnings og ráðgjafar og gætir hagsmuna þeirra og öryggis. Þá hefur skrifstofan umsjón með mönnun og ráðningum í samráði við stjórnendur ásamt því að sinna jafnréttis-, starfsþróunar- og velferðarmálum starfsfólks.
Hlutverk forsetaskrifstofu er að vera forseta Alþingis og skrifstofustjóra til aðstoðar. Skrifstofan hefur á hendi úrlausn ýmissa verkefna er varða embættisstörf forseta, umsjón með alþjóðastarfi forseta ásamt því að sinna sameiginlegu skrifstofuhaldi fyrir forseta og skrifstofustjóra.
Lagaskrifstofa hefur á hendi úrlausn sérhæfðra verkefna á sviði lögfræði fyrir forseta, forsætisnefnd og yfirstjórn skrifstofu þingsins. Starfsfólk skrifstofunnar er til ráðgjafar um lagasetningu sem varðar starfsemi Alþingis, m.a. þingsköp, alþingiskosningar, birtingu laga og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Skrifstofan er ráðgefandi við lagasetningu um stofnanir Alþingis, ríkisendurskoðanda og umboðsmann Alþingis.
Rannsókna- og upplýsingaskrifstofa sinnir gagna- og upplýsingaöflun fyrir þingmenn og starfsmenn skrifstofu Alþingis og annast gerð fræðslu- og kynningarefnis fyrir Alþingi, ritstjórn vefsvæða Alþingis, móttöku gesta í Skólaþingi og Alþingishúsinu og upplýsingagjöf til almennings og fjölmiðla. Starfsmenn skrifstofunnar taka saman minnisblöð, gera úttektir úr gögnum, rita samantektir um þingmál og svara margháttuðum fyrirspurnum. Veitt er fagleg þjónusta þar sem gætt er að hlutleysi og áreiðanleika. Trúnaðar er gætt við öflun gagna og vinnslu fyrirspurna. Samdar eru stuttar úttektir eða minnisblöð um mál er varða þingstörfin samkvæmt óskum þingmanna, starfsfólks eða að eigin frumkvæði.
Hlutverk fjármálaskrifstofu er að hafa umsjón með bókhaldi Alþingis, launavinnslu þingmanna, ferðabókunum og uppgjöri á ferðakostnaði innan lands og utan. Þá annast skrifstofan greiðslu annars kostnaðar í tengslum við störf þingmanna og móttöku ásamt greiðslu reikninga og umsjón með eignaskrá. Skrifstofan veitir þingmönnum upplýsingar um starfskjör og önnur réttindamál.
Rekstrar- og þjónustusvið skiptist í fjórar deildir: þingvörslu, mötuneyti, ræstingu og umsjón húseigna. Hlutverk rekstrar- og þjónustusviðs er rekstur húsnæðis og umsjón öryggismála, ásamt almennri þjónustu við þingmenn og starfsmenn. Starfsfólk þingvörslu hefur á hendi öryggisgæslu, móttöku og leiðsögn gesta í húsnæði Alþingis. Þingvarslan annast jafnframt akstur og rekstur bifreiða Alþingis, sendiferðir á svæðinu og magnljósritun auk fleiri þjónustuverkefna. Starfsfólk mötuneytis annast alla veitingaþjónustu á starfssvæði þingsins, svo sem rekstur mötuneytis í Skála, kaffiveitingar á nefndafundum og veitingaþjónustu á fundum á vegum þingsins. Rekstur, viðhald og þrif á húsnæði Alþingis eru jafnframt á ábyrgð sviðsins.
Upplýsingatæknisvið annast þróun og öryggi tölvumála og rekstur staðarnets og alls tölvubúnaðar Alþingis. Sviðið sér um alla almenna tölvu- og notendaþjónustu fyrir þingmenn og starfsfólk, svo sem tölvukennslu, tæknilega umsjón með vef Alþingis og umsjón með símkerfum.
Vefur Alþingis – upplýsingaveita
Miðlun upplýsinga um þinghald og starfsemi skrifstofu Alþingis fer að langmestu leyti fram á vef Alþingis: https://www.althingi.is/. Þar er m.a. að finna lagasafn, þingræður, þingskjöl, umsagnir um þingmál, alþingismannatal og upplýsingar um nefndir og nefndastörf auk upplýsinga um starfshætti þingsins, sögu þess og hlutverk.
Þingfundir eru ávallt sendir út á vef þingsins og þegar þing er að störfum birtist dagskrá þingfunda á forsíðu vefsins auk tilkynninga sem varða þinghaldið og störf þingmanna.
Heimsóknir í Alþingishúsið
Þegar ekki eru þingfundir í Alþingishúsinu eiga gestir þess kost að skoða húsið með leiðsögn. Unnt er að senda beiðni um sýningu á húsinu á netfangið [email protected] eða hringja í síma 563 0500.
Þegar þingfundir standa yfir er almenningi heimilt að koma á þingpalla og fylgjast með því sem fram fer. Inngangur að þingpöllum er við Templarasund.
Skólaþing
Skólaþing, kennsluver Alþingis, er ætlað nemendum í efstu bekkjum grunnskóla. Á Skólaþingi er farið í hlutverkaleik þar sem fjallað er um lagafrumvörp og starfsháttum og reglum Alþingis fylgt í stórum dráttum. Með þessu er ætlunin að veita innsýn í sambandið milli atburða og viðhorfa í samfélaginu, skoðanamyndunar, pólitískra ákvarðana og löggjafarstarfs Alþingis.
Nánari upplýsingar um Skólaþing eru á Skólaþingsvefnum: https://www.skolathing.is/.
Húsakostur Alþingis
Aðsetur Alþingis er í Alþingishúsinu við Austurvöll og hefur svo verið frá 1881. Þar fara þingfundir ávallt fram nema þegar örsjaldan eru haldnir hátíðarfundir á Þingvöllum, hinum forna þingstað, vegna sérstakra tímamóta.
Til hliðar við Alþingishúsið stendur Skáli, þjónustuhús sem tekið var í notkun árið 2002. Þar er nú aðalinngangur í Alþingishúsið.
Alþingi á húsin nr. 4-12 við Kirkjustræti og er í þeim vinnuaðstaða starfsfólks skrifstofu Alþingis. Umboðsmaður Alþingis er til húsa í Þórshamri við Templarasund 5. Á lóðinni við Tjarnargötu 9 rís nú skrifstofubygging Alþingis sem ætlunin er að verði fullgerð árið 2023 og mun hýsa þingmenn og starfslið skrifstofu Alþingis.
Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er á því byggt að uppspretta valds sé hjá fólkinu sem felur kjörnum fulltrúum meðferð þess valds. Slíkt fyrirkomulag kallast fulltrúalýðræði. Kjósendur velja fjórða hvert ár í almennum leynilegum kosningum þingmenn til setu á Alþingi. Frá alþingiskosningunum 1987 hefur Alþingi verið skipað 63 þingmönnum. Alþingismenn fara sameiginlega með vald til að setja þegnum landsins lög auk þess sem þeir fara með fjárstjórnarvald. Mikilvægt er að fólk viti hvaða ákvarðanir eru teknar á Alþingi og hvernig þær eru teknar því að kjósendur og fulltrúar þeirra bera ábyrgð á að varðveita virkt lýðræði. Segja má að kosningarrétturinn sé undirstaða lýðræðis á Íslandi og að Alþingi sé hornsteinn þess lýðræðis.
Kosningar og kjördæmaskipan
Kosningarrétt við alþingiskosningar eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem eru 18 ára eða eldri þegar kosning fer fram og eiga eða hafa átt lögheimili hér á landi. Framboð til Alþingis er háð skilyrðum kosningalaga.
Íslandi hefur verið skipt í sex kjördæmi síðan 2003. Þessi kjördæmi eru Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi, Suðurkjördæmi, Suðvesturkjördæmi, Reykjavíkurkjördæmi norður og Reykjavíkurkjördæmi suður. Mörk kjördæmanna eru ákveðin í lögum, en þó ákveður landskjörstjórn kjördæmamörk milli Reykjavíkurkjördæmanna.
Í hverju kjördæmi eru að lágmarki sex kjördæmissæti. Níu jöfnunarsætum er ráðstafað til þeirra stjórnmálasamtaka, sem hlotið hafa minnst 5% af gildum atkvæðum, þannig að hver samtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína á öllu landinu. Eftir alþingiskosningarnar 2009 eru 11 ellefu þingsæti í Suðvesturkjördæmi, sjö í Norðvesturkjördæmi en níu í öðrum kjördæmum.
Hlutverk Alþingis
Starfshættir Alþingis eru ákvarðaðir í stjórnarskrá og þingsköpum. Frá og með árinu 2012 er samkomudagur Alþingis annar þriðjudagur í september ár hvert og hefst þá nýtt löggjafarþing.
Af þingræðinu leiðir að eitt af hlutverkum Alþingis er að ráða skipun ríkisstjórnarinnar og getur hún aðeins setið með stuðningi löggjafarþingsins.
Meginverkefni Alþingis er lagasetning en þingið fer einnig með viðamikið eftirlitshlutverk. Alþingi getur enn fremur með þingsályktun lýst stefnu sinni án þess að setja lög. Stjórnin undirbýr löggjöfina, sendir á frumvarpsformi til Alþingis sem fjallar um málið, synjar því eða samþykkir staðfestingu þess sem laga. Oft er í lögum heimild til handa ráðherra að útfæra lögin nánar með reglugerðum.
Lagasetning
Hugmyndir um lagasetningu geta komið víða að. Hagsmunaaðilar reyna að hafa áhrif á undirbúning lagasetningar, oft í gegnum fjölmiðla. Einstaklingar geta einnig látið skoðun sína í ljós, t.d. með greinaskrifum og með því að hafa samband við stjórnmálamenn. Þingmenn hafa allir rétt til að leggja fram lagafrumvörp en stjórnarfrumvörp eru að jafnaði fleiri en þingmannafrumvörp á hverju þingi enda frumkvæði að lagasetningu fyrst og fremst á hendi ríkisstjórnarinnar.
Stjórnarfrumvörpin eru unnin af nefndum á vegum ráðherra eða af starfsmönnum ráðuneytis. Með því að skipa nefnd til að annast frumvarpssmíð tryggir ráðherra að hagsmunaaðilar og sérfræðingar nái að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Í stjórnarskránni segir að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja fyrr en það hafi verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. Þingsköp Alþingis áskilja þingmönnum tíma til að kynna sér frumvarp eftir að það hefur verið lagt fram og gengur það oftast til nefndar milli 1. og 2. umræðu. Með þessu fyrirkomulagi má koma í veg fyrir að hægt sé að bera frumvörp fyrirvaralítið undir atkvæði. Frumvörp skulu lögð fram innan sex mánaða frá þingsetningu, þ.e. fyrir 1. apríl, en meiri hluti þings getur samþykkt að mál sem er of seint fram komið verði tekið til umræðu og afgreiðslu. Enn fremur er áskilið að frumvörp sem afgreiða á fyrir jólahlé séu komin fram fyrir lok óvembermánaðar.
Eftirlitshlutverk Alþingis
Alþingi á að veita framkvæmdarvaldinu aðhald, bæði ríkisstjórninni (t.d. með fyrirspurnum til ráðherra) og allri stjórnsýslunni. Á þingi eru bornar fram fyrirspurnir til ráðherra sem þeir svara munnlega eða skriflega. Óundirbúinn fyrirspurnatími er reglulega á dagskrá þingfunda. Ráðherrar gefa þinginu skýrslur um opinber málefni, ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni þingsins. Alláberandi liður í þingstörfunum er sérstakar umræður um mál sem talið er knýjandi að ræða án mikils fyrirvara.
Miklu varðar um stöðu og störf Alþingis að það fer með fjárstjórnina því að ekkert gjald má greiða úr ríkissjóði nema samkvæmt lögum og engan skatt leggja á nema Alþingi hafi samþykkt lög um það.
Tvær stofnanir á vegum Alþingis gegna mikilvægu hlutverki á þessu sviði, Ríkisendurskoðun og embætti umboðsmanns Alþingis. Alþingi hefur komið á fót rannsóknarnefndum til að afla upplýsinga og gera grein fyrir málsatvikum í tilteknum málum. Þekktust þeirra er rannsóknarnefnd til að kanna aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008.
Aðalhlutverk Ríkisendurskoðunar er að annast endurskoðun ríkisreiknings og reikninga stofnana, sjóða og annarra aðila sem kostaðir eru af ríkissjóði samkvæmt fjárlögum eða samkvæmt sérstökum lögum. Enn fremur skal Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga fyrirtækja og stofnana sem rekin eru á ábyrgð ríkissjóðs. Þá getur hún gert stjórnsýsluúttektir. Að lokum hefur stofnunin eftirlit með framkvæmd fjárlaga og er þingnefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhagsmálefni ríkisins. Forsætisnefnd Alþingis ræður ríkisendurskoðanda til sex ára í senn.
Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Umboðsmaður getur tekið mál til meðferðar eftir umkvörtun eða að eigin frumkvæði. Umboðsmaður Alþingis er kjörinn óbundinni kosningu á þingfundi til fjögurra ára í senn.
Forseti Alþingis
Á fyrsta þingfundi að afloknum alþingiskosningum er forseti Alþingis kjörinn. Einnig eru kjörnir varaforsetar, allt að sex talsins. Forseti og varaforsetar skipa forsætisnefnd sem tekur ákvarðanir um margvísleg málefni er varða Alþingi. Enn fremur á forseti samstarf við þingflokksformenn og heldur með þeim vikulega fundi um tilhögun dagskrár þingsins og fyrirkomulag umræðna.
Forseti Alþingis stjórnar þinghaldinu, ákveður dagskrá þingfunda og hefur frumkvæði að því að semja starfsáætlun Alþingis og áætlun um fundarhöld. Forseti hefur enn fremur umsjón með starfi þingnefnda og alþjóðanefnda og fyrirspurnir til ráðherra eru háðar leyfi hans. Forseti sker úr ágreiningi um túlkun þingskapa og sérstakar umræður eru bundnar samþykki hans. Forseti ber ábyrgð á rekstri Alþingis og er æðsta vald í stjórnsýslu þess. Forseti kemur fram fyrir hönd Alþingis á opinberum vettvangi og tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi forseta þjóðþinga. Forseti Alþingis er einn þriggja handhafa forsetavalds í fjarveru eða forföllum forseta lýðveldisins.
Þingflokkar
Þingmenn skipa sér í þingflokka og velja sér formann sem kemur fram fyrir þeirra hönd gagnvart forseta þingsins, öðrum þingflokkum og þingmönnum. Þingflokkarnir taka ákvarðanir um val á mönnum til trúnaðarstarfa á vegum Alþingis og þá sem gegna ráðherraembættum. Í þingflokkunum ákveða þingmenn hvernig þeir skipa sér til setu í þingnefndum og skipta með sér málefnaflokkum. Á þingflokksfundum er fjallað um ný þingmál sem þingmenn og ráðherrar hyggjast leggja fram og stöðu mála í þingnefndum og afstaða er tekin til einstakra mála og breytingartillagna við þau. Þingflokkar koma vanalega saman til fundar tvisvar í viku á þingtímanum.
Fastanefndir Alþingis
Með breytingum sem gerðar voru á nefndaskipan Alþingis og tóku gildi 1. október 2011 starfa á Alþingi eftirtaldar átta fastanefndir: Allsherjar- og menntamálanefnd, atvinnuveganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, fjárlaganefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, utanríkismálanefnd og velferðarnefnd. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndin skal í senn fjalla um þingmál sem falla undir málefnasvið hennar og einnig hafa ríka frumkvæðisskyldu um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Níu þingmenn sitja í hverri fastanefnd. Bæði stjórnarfrumvörp og þingmannafrumvörp ganga til nefndar eftir 1. umræðu. Máli má þó vísa til nefndar á hverju stigi þess. Þingsályktunartillögur ganga einnig til nefndar eftir fyrri umræðu.
Hefðbundnir vinnufundir fastanefnda eru lokaðir öðrum en nefndarmönnum. Opnir fundir eru sendir út í sjónvarpi og á vef. Nefndum er einnig heimilt að opna fundi fyrir fréttamönnum án þess að sent sé beint út frá fundunum. Fastanefndir hafa þá starfsvenju að kalla eftir áliti hagsmunaaðila og sérfræðinga á þingmálum, annaðhvort skriflega eða með því að kalla gesti á fundi sína.
Þegar nefnd hefur lokið athugun máls skilar hún skriflegu áliti um hvernig hún telur að þingið eigi að afgreiða málið og fleiri en einu áliti ef nefnd klofnar. Í nefndaráliti er lýst vinnu nefndarinnar að málinu auk þess sem þar koma fram viðhorf nefndarmanna. Einnig getur nefndin birt með álitinu ýmis fylgiskjöl, svo sem bréf frá hagsmunaaðilum eða ráðuneytum. Breytingartillögur, ef einhverjar eru, eru einnig lagðar fram skriflega. Taki nefnd frumvarp aftur til meðferðar eftir 2. umræðu getur hún skilað framhaldsnefndaráliti. Nefndarmenn geta sameinast um að leggja fram frumvarp í nafni nefndarinnar um málefni sem eru á verksviði hennar. Þingnefndir geta enn fremur að eigin frumkvæði tekið til umfjöllunar önnur mál en þau sem þingið vísar til þeirra og gefið þinginu skýrslu um þau.
Alþjóðastarf Alþingis
Alþingi tekur þátt í margs konar alþjóðlegu samstarfi. Eru alþjóðanefndirnar kallaðar Íslandsdeildir þessara samtaka. Á Alþingi starfa átta Íslandsdeildir alþjóðlegra þingmannasamtaka, þær eru: Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins (Inter-Parliamentary Union), Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES (EFTA Parliamentary Committee og EEA Joint Parliamentary Committee), Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins (Parliamentary Assembly of the Council of Europe), Íslandsdeild NATO-þingsins (NATO Parliamentary Assembly), Íslandsdeild Norðurlandaráðs (Nordisk Råd), Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins (Vestnordisk Råd), Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál (Conference of Parliamentarians of the Arctic Region) og Íslandsdeild ÖSE-þingsins (ÖSE = Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, OSCE Parliamentary Assembly).
Starfsemi alþjóðanefnda Alþingis er mismunandi og fer eftir stöðu og starfsgrundvelli þeirra alþjóðlegu þingmannasamtaka sem Alþingi á aðild að. Alþjóðanefndir Alþingis sækja fundi og ráðstefnur hjá alþjóðlegum þingmannasamtökum og nýta tækifærið til að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri þegar við á.
Skrifstofa Alþingis
Skrifstofa Alþingis annast margvíslega þjónustu við þingmenn og þá sem leita þurfa upplýsinga eða með erindi sín til þingsins. Skrifstofustjóri Alþingis er yfirmaður skrifstofunnar og sér um að framfylgja ákvörðunum forseta og forsætisnefndar. Skrifstofustjóra til aðstoðar eru þrír aðstoðarskrifstofustjórar (rekstur, stjórnsýsla, þingstörf) sem ásamt honum mynda yfirstjórn skrifstofunnar. Aðstoðarskrifstofustjóri sem hefur umsjón með almennum rekstri þingsins er jafnframt staðgengill skrifstofustjóra. Hann hefur umsjón með fjármálum, framkvæmdum, rekstri og starfsmannamálum.
Aðstoðarskrifstofustjóri sem annast skipulag þingstarfanna hefur umsjón með þeirri starfsemi skrifstofunnar sem snýr að hinu eiginlega þingstarfi. Í því felst m.a. skipulagning þinghaldsins og afgreiðsla þingmála. Aðstoðarskrifstofustjóri sem hefur með stjórnsýslu skrifstofunnar að gera hefur umsjón með þjónustu við forseta og alþjóðasamstarfi Alþingis ásamt upplýsinga- og útgáfumálum þingsins. Undir aðstoðarskrifstofustjóra heyra þrjár skrifstofur, forsetaskrifstofa, fjármálaskrifstofa og þingfundaskrifstofa, sem stýrt er af forstöðumönnum. Skrifstofa Alþingis skiptist að öðru leyti í þrjú kjarnasvið og heyra forstöðumenn þeirra beint undir skrifstofustjóra. Verkefni nefndasviðs eru aðstoð við fastanefndir og alþjóðanefndir, þingmálagerð og skjalavinnsla. Verkefni rekstrar- og þjónustusviðs eru þingvarsla, tölvuþjónusta og ýmis almenn þjónusta. Upplýsinga- og útgáfusvið sinnir ræðuvinnslu, upplýsinga- og rannsóknaþjónustu og almannatengslum.
Upplýsingar um Alþingi
Á vef Alþingis eru lög, þingmál, þingræður og aðrar opinberar upplýsingar um starfsemi þingsins aðgengilegar. Þá má fylgjast með beinum útsendingum frá þingfundum á vef Alþingis. Einnig er þar að finna upplýsingar um þingið, þingmenn, þjónustu skrifstofunnar, sögu þingsins, hlutverk þess og starfshætti. Ársskýrslur Alþingis eru birtar á vef þingsins og þar er að finna margvísleg yfirlit og tölfræðilegar upplýsingar um störf þingsins á liðnum árum. Þegar þing er að störfum birtast dagskrár þingfunda á forsíðu vefsins og tilkynningar um fundi þingnefnda, slóðin er www.althingi.is.
Heimsóknir í Alþingishúsið
Upplýsingafulltrúar skipuleggja heimsóknir gesta sem skoða vilja Alþingishúsið og fræðast um störf þingsins. Öllum beiðnum um sýningar á húsinu skal beint á netfangið [email protected] eða hringja í símanúmer 563 0500. Almenningi er heimilt að koma í Alþingishúsið til að hlýða á umræður á þingpöllum.
Skólaþing
Skólaþing, kennsluver Alþingis, er hugsað fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskóla. Á Skólaþingi fara nemendur í hlutverkaleik og fylgja í stórum dráttum reglum um starfshætti Alþingis. Er ætlunin að veita innsýn í sambandið milli atburða í samfélaginu, skoðanamyndunar, pólitískra ákvarðana og starfa Alþingis og sýna áhrif almennings, sérfræðinga, fjölmiðla og hagsmunaaðila á löggjafarstarf. Nánari upplýsingar um Skólaþing eru á vefnum www.skolathing.is.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd