Álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði er stærsta álver landsins og hljóðar starfsleyfi þess upp á 360.000 tonna ársframleiðslu. Helstu framleiðsluvörur fyrirtækisins eru álhleifar, melmisstangir og álvírar sem eru meðal annars notaðir í háspennustrengi. Árið 2019 nam verðmæti útflutnings frá Fjarðaáli 81,4 milljörðum króna. Rúmlega 38% af útflutningstekjum fyrirtækisins urðu eftir í landinu, eða um 30,6 milljarðar króna, í formi opinberra gjalda, launa og innkaupa frá innlendum birgjum á vöru og þjónustu. Árið 2020 voru starfsmenn fyrirtækisins um 540 og þar af voru konur um 25% sem er hæsta hlutfall sem vitað er um í álveri. Til viðbótar störfuðu að jafnaði um 250 manns á vegum verktaka á álverssvæðinu. Því hafa um 800 manns beina atvinnu af álverinu og þá eru ótalin afleidd störf.
Aðdragandi og uppbygging álversins
Alþingi samþykkti lög um heimild til samninga um álverksmiðju á Reyðarfirði með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða vorið 2003. Samningar um byggingu álversins voru undirritaðir í mars árið 2003. Alcoa Fjarðaál og Landsvirkjun gerðu raforkusamning til allt að 40 ára. Meðal þess fyrsta sem Alcoa beitti sér fyrir var að setja í gang ásamt Landsvirkjun, svokallað sjálfbærniverkefni sem fólst í því að safna saman stórum hópi fólks með mismunandi sjónarmið og fá hann til að taka þátt í að móta mælikvarða til að mæla langtímaáhrif framkvæmdanna á umhverfi, samfélag og efnahag. Verkefnið stendur enn yfir og er aðgengilegt á www.sjalfbaerni.is.
Ráðning starfsmanna hófst af fullum krafti árið 2006. Mikil áhersla var lögð á að ráða konur til starfa og haldnir voru fundir til að kynna störfin í álverinu fyrir konum á Austurlandi. Upphaflega stóð til að ráða 420 starfsmenn en árið 2020 var fjöldi starfsmanna kominn í 540. Gangsetning álversins hófst í apríl árið 2007 og ári síðar var framleiðslan komin á fullt skrið. Raforkan til álversins er flutt frá Fljótsdalsstöð eftir tveimur 220kV háspennulínum sem eru hvor um sig rúmlega 50 kílómetra langar.
Álframleiðsla Fjarðaáls
Framleiðsla áls hjá Fjarðaáli byggir á samstarfi þriggja eininga: skautsmiðju, kerskála og steypuskála. Í skautsmiðju eru framleidd forskaut sem kerskáli nýtir í rafgreiningu til þess að bræða súrál og umbreyta í hreint ál. Hreint ál er síðan flutt úr kerskála yfir í steypuskála þar sem álið er steypt í mót, annað hvort hreint eða blandað samkvæmt óskum viðskiptavina. Álið verður til með rafgreiningu í 336 kerum í tveimur 1.100 metra löngum kerskálum Fjarðaáls. Kerin eru úr stáli en fóðruð með eldföstum einangrunarefnum. Í kerunum eru bakskaut úr kolefni. Yfirbygging hvers kers heldur uppi forbökuðum forskautum, sjálfvirkum skurnbrjótum og möturum fyrir súrál og álflúoríð.
Kerin eru höfð lokuð til að lágmarka hættuna á að gastegundir komist út í kerskálana. Gasið er sogað burtu með afsogskerfi og leitt til þurrhreinsivirkja þar sem hreint súrál er notað til þess að hreinsa flúor úr gasinu áður það fer út í andrúmsloftið um reykháf. Þurrhreinsivirkið hreinsar meira en 99,8% af heildarflúor úr afsogslofti keranna. Flúorinn er endurnýttur í rafgreiningarferlinu þegar hann fer með súrálinu aftur ofan í kerin. Þegar ker eru opnuð er afsog aukið til að lágmarka það afgas sem sleppur út í kerskála og andrúmsloft en sérstakar verklagsreglur gilda um umgengni við ker. Fljótandi ál er flutt úr kerskála til steypuskála í sérstökum deiglum. Þar er álið blandað íblöndunarefnum eftir pöntun kaupenda og mótað í endanlega afurð sem flutt er á markað í Evrópu. Steypuskálinn er hannaður með sveigjanleika í huga svo hægt sé að bregðast skjótt við breytingum á markaði.
Til þess að framleiða ál með rafgreiningu þarf súrál, kolefni, raflausn og rafstraum. Súrál er efnasamband súrefnis og áls (Al2O3). Til að framleiða eitt tonn af áli þarf tvö tonn af súráli. Kolefnið kemur úr forskautum sem eru látin síga niður í raflausnina. Uppistaðan í raflausninni er kríólít eða natríumálflúoríð (Na3AlF6). Þegar sterkum rafstraumi er hleypt í gegnum skautin verður raflausnin um 960 gráðu heit og bræðir upp súrál sem skammtað er sjálfkrafa jafnt og þétt í kerið. Undir botni forskautanna gengur súrefni úr súrálinu í samband við kolefni úr skautunum og myndar loftkenndan koltvísýring (CO2) sem fer út í andrúmsloftið. Eftir verður hreint ál sem tekur til sín rafeindir úr rafstraumnum og fellur til botns sem bráðinn málmur.
Álið er svo sogið reglulega upp úr kerunum og flutt í deiglum yfir í steypuskálann. Fjarðaál framleiðir álvíra í rafmagnskapla, tíu kílóa melmisstangir úr sérstökum álblöndum fyrir bílaiðnað og 680 kílóa svokallaða hleifa úr hreinu áli. Afurðirnar fara allar í gáma og eru fluttar til Rotterdam í Hollandi þaðan sem þeim er dreift til viðskiptavina.
Árið 2019 notaði Fjarðaál tæplega 644.000 tonn af súráli til að framleiða um 335.000 tonn af áli. Til þess þurfti jafnframt um 4.839 gígawattstundir af raforku og 198.000 tonn af kolefnisforskautum sem voru flutt inn frá Noregi. Skautin brenna upp í kerunum að fjórum fimmtu hlutum en leifarnar af kolefninu eru hreinsaðar í skautsmiðjunni og sendar til Noregs þar sem þær verða aftur að nýjum skautum.
Umhverfi og öryggi
Alcoa Fjarðaál vinnur að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af starfseminni með markvissum aðgerðum og setur sér árlega metnaðarfull innri markmið í umhverfismálum. Fyrirtækið hefur frá því álverið hóf rekstur staðið fyrir yfirgripsmikilli umhverfisvöktun í Reyðarfirði í samræmi við vöktunaráætlun sem er samþykkt af Umhverfisstofnun. Tilgangur umhverfisvöktunarinnar er að meta áhrif starfsemi álversins á umhverfið í nágrenni þess. Viðmiðunarmörk í starfsleyfi fyrir losun eru lág og fyrirtækið hefur í öllum tilvikum verið innan þeirra marka. Í hreinsivirkjum kerskálanna tekst að fanga og endurnýta næstum allan flúor sem losnar úr raflausninni og hefði annars farið út í umhverfið.
Allt kælivatn frá iðnaðarferlum er hreinsað í vatnshreinsivirki og endurnýtt í steypuskála, en vatnsnotkun Fjarðaáls er með því lægsta sem þekkist innan Alcoa samstæðunnar. Yfirborðsvatn af iðnaðarlóð er leitt um settjarnir og þannig hreinsað áður en það rennur til sjávar. Alcoa Fjarðaál hefur þá sýn að hægt sé að endurnýta eða endurvinna allan úrgang og að urðun sé síðasti kostur. Fyrirtækið leggur áherslu á að leita leiða til að koma úrgangi og spilliefnum frá framleiðslu til endurvinnslu, en markmið móðurfélagsins eru að árið 2030 fari engar aukaafurðir til urðunar.
Mikil áhersla er lögð á öryggi og heilsu starfsfólks og verktaka hjá Alcoa Fjarðaáli og eru þessi mál í forgangi ásamt umhverfismálum. Unnið er markvisst að því að lágmarka hættu á slysum, lágmarka mengun, efla heilsu fólks og stuðla að öruggu vinnuumhverfi. Í álverinu er heilsugæsla fyrir starfsmenn þar sem hjúkrunarfræðingur er í fullu starfi og læknir kemur reglulega.
Samfélagsáhrif á Austurlandi
Alcoa Fjarðaál telur að forsenda þess að treysta hag hluthafa og hagsmunaaðila liggi í góðum stjórnarháttum þar sem hlutverk og ábyrgð stjórnenda eru skýr. Fyrirtækið leggur áherslu á opið og virkt samtal við nærsamfélagið. Stjórnendur eiga í reglulegum samskiptum við hagsmunaaðila og funda með þeim um sameiginleg hagsmunamál.
Árið 2019 vörðu Alcoa Fjarðaál og Samfélagssjóður Alcoa (Alcoa Foundation) samtals tæpum 200 milljónum króna í styrki til hinna ýmsu samfélagsverkefna, fyrst og fremst á Austurlandi. Frá árinu 2003 hefur fyrirtækið varið samtals um 1,8 milljarði króna til samfélagsstyrkja af margvíslegu tagi.
Bygging álversins á Reyðarfirði skapaði ekki einungis störf í álverinu sjálfu. Önnur fyrirtæki nutu góðs af nálægðinni við álverið. Sem dæmi má nefna, þá sameinuðust sex austfirsk fyrirtæki undir heitinu Launafl, sem er fyrirtæki sem sér um viðhald og viðgerðir í álverinu. Þar starfa nú um 100 manns. Annað dæmi er fyrirtækið Fjarðaþrif sem óx úr því að hafa einn starfsmann í tæplega fjörutíu.
Nánari upplýsingar um starfsemi Fjarðaáls er að finna í samfélagsskýrslu fyrirtækisins sem er aðgengileg á alcoa.samfelagsskyrsla.is.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd