Áman ehf.

2022

Áman ehf. er elsta og stærsta víngerðarverslun landsins. Sögu fyrirtækisins má rekja allt aftur til ársins 1969 þegar Guttormur P. Einarsson fékk fregnir af nýju ölgerðarefni í Englandi. Guttormur setti sig í samband við framleiðandann og fékk sendar prufur til landsins. Erfiðlega gekk að tollafgreiða varninginn en eftir staðfestingu á að ekkert ólöglegt væri á ferðinni og engin lagaleg forsenda væri fyrir því að stöðva sendinguna fóru vörurnar að lokum í gegn og voru tollaðar í hæsta flokk. Í sendingunni reyndust vera maltduft, humlar, ger og næring ásamt leiðbeiningum um hvernig ætti að meðhöndla þurrefnin til bjór- og víngerðar. Leiðbeiningarnar þýddi Guttormur síðan yfir á íslensku og í kjölfarið var hafist handa við að afla allra leyfa og undirbúa innflutning á víngerðarefni til smásölu. Þann 31. mars árið 1969 fékk Hafplast s.f. smásöluleyfið en fyrirtækið var í eigu Guttorms. Fyrstu þrjá mánuðina fór smásalan fram á heimili Guttorms í Hraunbæ 178. Í kjölfar aukinnar ásóknar fluttist salan yfir í verslunar- og iðnaðarhúsnæði við Hraunbæ 102 og var versluninni þá gefið nafnið Áman.
Áhugi og eftirspurn jókst á ölgerðarefninu og því var ákveðið að sækja um heildsöluleyfi, sem síðar var veitt þann 6. nóvember 1972. Í kjölfarið voru sérverslanir með ölgerðarefni settar á laggirnar bæði í Keflavík og Vestmannaeyjum, auk sérstakrar deildar innan matvöruverslunar á Akureyri. Ölgerðarefnin voru einnig fáanleg í matvöruverslunum um land allt. Iðnaður Hafplasts s.f. fluttist síðar í Ármúla 21 en verslunin Áman fór þá í kjallara á Grensásvegi 13. Í framhaldi var merki Ámunnar hannað og verslun og vörur merktar með auðkenni hennar. Keyptar voru iðnaðarvélar til að vinna ölgerðarefnin ásamt því að hafin var framleiðsla á líkjör, sýrópi og seinna meir bjórblendi. Guttormur hafði samið við byrgjann í Englandi um að senda sér ölgerðarefnið ósamsett og var það þá tollflokkað sem hrávara en ekki fullgild verslunarvara. Áman sá svo um að vinna hráefnin í einingar fyrir sölu. Ekki voru allir á eitt sáttir með þessa aðferð og eftir afskipti verðlagseftirlitsins var gripið til þess ráðs að leyfa einungis lægstu álagningu á iðnað Ámunnar. Í framhaldinu fór að þrengja að rekstri Ámunnar svo verslunin fluttist í húsnæði Hafplasts s.f. í Ármúla 21.
Árið 1992, stuttu eftir að bjórinn var leyfður á Íslandi lagði Guttormur niður reksturinn og seldi Ámuna til Werners I. Rasmussonar apótekara í Ingólfsapóteki. Síðar eignaðist sonur hans, Karl Wernersson, fyrirtækið og úr varð fyrirtækið Áman-Deiglan ehf. sem seldi bæði víngerðarefni og rannsóknarvörur.

Eigendur og stjórnendur
16. nóvember 2006 keyptu Axel Guðmundsson, Magnús Axelsson, Arna Axelsdóttir og Guðmundur Tómas Axelsson Ámuhlutann út úr fyrirtækinu Áman-Deiglan ehf. og stofnuðu fyrirtækið Áman ehf. Til varð verslun sem einungis flutti inn og seldi efni og vörur til eigin vín- og bjórgerðar, ásamt tengdri gjafavöru. Axel starfaði sem framkvæmdastjóri Ámunnar til vorsins 2016 og Magnús sem rekstrarstjóri en hann tók við sem framkvæmdastjóri haustið 2016. Guðmundur Tómas og Arna hafa setið í stjórn fyrirtækisins og Guðmundur Tómas verið stjórnarformaður þess frá stofnun. Vorið 2007 var Kristmann Þór Gunnarsson ráðinn til starfa hjá Ámunni ehf. og hefur hann starfað sem verslunarstjóri og sölumaður hjá fyrirtækinu síðan.

Aðsetur
Áman ehf. var fyrst til húsa að Háteigsvegi 1, 105 Reykjavík, í húsi sem var þekkt sem „rauða húsið“ eða Austurbæjar apótek. Húsið stendur á horni Háteigsvegar og Rauðarárstígs. Í byrjun febrúar 2016 fluttist verslunin að Tangarhöfða 2, 110 Reykjavík, en þar er hún enn til húsa í dag.

Starfsemi og sérstaða
Áman rekur verslun auk þess að selja til endursöluaðila um land allt. Engin framleiðsla á sér stað í fyrirtækinu í dag. Kjarnastarfsemi Ámunnar byggist á því að flytja inn og selja vín- og bjórgerðarefni. Stoðstarfsemin byggist síðan á því að selja ýmsa gjafavöru og búnað tengt víni og framleiðslu þess, ásamt því að selja ýmsar umbúðir til endursöluaðila. Lögð er áhersla á að styrkja starfsemina með reglulegum auglýsingum og góðum tengslum við endursöluaðila. Það er metnaður fyrirtækisins að sinna þörfum viðskiptavina, vítt og breytt um landið, á sem bestan hátt. Hjá Ámunni er viðskiptavinurinn númer eitt.
Sérstaða Ámunnar er sú að fyrirtækið er sérvöruverslun sem gerir út á lágt vöruverð, því það þarf að borga sig að gera sitt eigið gæðavín eða bjór. Það er stefna Ámunnar að vera fyrsti kostur þeirra sem stunda vín- og bjórgerð eða selja vín- og bjórgerðarefni til viðskiptavina. Áherlsa er lögð á gæðavörur og góða þjónustu.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd