Miklar sviptingar höfðu verið í umhverfi lyfsölu frá því rekstur apóteka var gefinn frjáls árið 1996. Í kjölfar frelsisins fjölgaði apótekum mikið og hringamyndun apóteka hófst. Á markaðnum urðu til tvær stórar lyfjakeðjur sem voru skilgreindar af samkeppnisyfirvöldum með markaðsráðandi stöðu á lyfjamarkaði. Í þessu reksrtarumhverfi hófst undirbúningur að stofnun Apóteks Vesturlands á vordögum árið 2006. Fyrirtækið var stofnað á Akranesi í ágústmánuði 2006. Tilgangur félagsins var að setja á stofn og reka apótek á Akranesi í samkeppni við apótek lyfsölukeðjunnar Lyfja og heilsu. Ákveðið var að staðsetja lyfja-búðina í verslunarmiðstöðinni Smiðjutorgi, sem var að rísa á Smiðjuvöllum 32 á Akranesi.
Heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þórðarson, opnaði Apótek Vesturlands með formlegum hætti laugardaginn 30. júní 2007 og hefur lyfjabúðin verið opin alla daga síðan eða í rúm 13 ár samfleytt. Árið 2020 keypti Apótek Vesturlands, Apótek Ólafsvíkur að Ólafsbraut 24 í Snæfellsbæ, af Óla Sverri Sigurjónssyni lyfsala sem rekið hafði lyfjabúðina í rúm
35 ár af miklum myndarskap og voru íbúar ánægðir með þjónustuna.
Starfsemin
Apótek Vesturlands þjónar einkum íbúum á Akranesi og í Snæfellsbæ en einnig er nokkuð um viðskiptavini á Vesturlandi, Snæfellsnesi og Dölum sem leita sér lækninga á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Apótekið sinnir allri almennri lyfsölu og lyfjatengdri þjónustu, s.s. lyfjaskömmtun, skoðun lyfjabúnaðar skipa, yfirferð og viðhaldi sjúkrakassa fyrirtækja og stofnana. Auk þess er í Apóteki Vesturlands mikið úrval af heilsuvörum, vítamínum, bætiefnum, líkamshirðuvörum og snyrtivörum. Apótek Vesturlands hefur lagt ríka áherslu á góða þjónustu og hagstætt verð allt frá upphafi auk þess sem öryrkjar og eldri borgarar njóta sérkjara. Einnig er boðið upp á fría heimsendingarþjónustu á Akranesi. Lyfjabúðir Apóteks Vesturlands eru björtu og rúmgóðu húsnæði að Smiðjuvöllum 32 á Akranesi og Ólafsbraut 24 í Snæfellsbæ.
Starfsfólk
Þegar Apótek Vesturlands tók til starfa árið 2007 unnu 5 starfsmenn hjá fyrirtækinu í rúmum þrem stöðugildum en í dag telur starfsmannahópurinn 13 manns í 8 stöðugildum, þrír karlmenn og tíu konur. Hjá fyrirtækinu starfa fjórir lyfjafræðingar í þrem stöðugildum, tveir lyfjatæknar í nær tveim stöðugildum, verslunarstjóri í fullu starfi og sjö sérþjálfaðir starfsmenn í hlutastörfum. Góður andi og samheldni einkennir starfsemina í Apóteki Vesturlands og ríkuleg þjónustulund.
Vöxtur og viðgangur
Vöxtur Apóteks Vesturlands hefur verið samfelldur frá því fyrirtækið hóf rekstur. Fyrsta hálfa árið voru afgreiddir lyfseðlar rúmir ellefu þúsund og árið 2020 eru þeir nær fimmtíu og sex þúsund. Nú eru apótekin orðin tvö, Apótek Vesturlands Akranesi og Apótek Vesturlands Snæfellsbæ og væntingar um að þriðja apótekið bætist í hópinn á næstu misserum.
© 2025 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd