Arna ehf. er vestfirskt matvælafyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu á mjólkurvörum án mjólkursykurs. Arna hóf starfsemi sína árið 2013 en þá hafði undirbúningur og vöruþróun staðið yfir í rúmlega eitt ár. Stofnandi og framkvæmdarstjóri Örnu er Hálfdán Óskarsson, mjólkurtæknifræðingur, en hann var áður framkvæmdarstjóri Mjólkursamlags Ísfirðinga á árunum 1994 til 2002.
Sagan
Hugmyndin að Örnu kviknaði við eldhúsborðið heima hjá Hálfdáni út frá umræðum fjölskyldunnar um hversu lítið framboð væri af ferskum íslenskum mjólkurvörum fyrir þann hóp af fólks sem er með mjólkuróþol. Markmiðin í byrjun voru meðal annars þau að geta boðið þessum hópi fólks sambærilegt úrval af ferskum mjólkurvörum án mjólkursykurs eins og er hægt að fá í hefðbundnum mjólkurvörum. Afurðir fyrirtækisins eru allar mjólkursykurslausar og því geta neytendur með mjólkursykursóþol neytt afurðanna áhyggjulaust. Framleiðsluvörum Örnu hefur frá upphafi verið dreift um allt land en fyrstu afurðirnar sem Arna framleiddi voru léttmjólk, rjómi, jógúrt, skyr og ab mjólk. Með tíð og tíma hafa fleiri vörur bæst í hópinn og vöruúrvalið aukist. Í dag framleiðir Arna einnig osta auk þess að hafa sett á markað árstíðarbundnar vörur undanfarin ár, en á meðal þeirra eru jólajógúrt með bökuðum eplum og kanil, sumarjógúrt með vestfirskum rabarbara og haustjógúrt með íslenskum aðalbláberjum. Þar að auki tók fyrirtækið sín fyrstu skref í ísframleiðslu árið 2016 og framleiðir nú á milli tuttugu og þrjátíu ístegundir sem eru að mestu seldar á Örnu ís- og kaffibar á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi. Í upphafi voru einstakar vörutegundir tíu talsins en við lok árs 2020 framleiddi Arna yfir 70 einstakar vörutegundir.
Aðsetur og mannauður
Höfuðstöðvar Örnu eru við Hafnargötu 80 í Bolungarvík, í því húsi sem áður hýsti frystihús Einars Guðfinnssonar, en þar fer öll framleiðsla fyrirtækisins fram. Vöxtur Örnu hefur verið umtalsverður í gegnum árin og til merkis um það var starfsemin í upphafi öll í hluta húsnæðisins við Hafnargötu 80, eða í um 600 fermetra rými sem fyrirtækið leigði undir framleiðsluna. Árið 2020 festi Arna hins vegar kaup á húsnæðinu í heild sinni og hefur því nú um 7000 fermetra til umráða fyrir starfsemina. Starfsmönnum hefur einnig fjölgað töluvert með árunum. Haustið 2013 störfuðu fjórir starfsmenn hjá fyrirtækinu og á fyrstu þremur árum þess var starfsmannafjöldinn að jafnaði á bilinu fjórir til sjö starfsmenn. Árið 2016 tók vöxturinn mikinn kipp og í lok árs 2020 störfuðu um 30 manns hjá fyrirtækinu. Flestir starfsmenn fyrirtækisins starfa í höfuðstöðvum þess í Bolungarvík og þá eru einnig þrír starfsmenn á höfuðborgarsvæðinu. Bakgrunnur starfsmanna er margvíslegur en á meðal þeirra eru fjórir mjólkurfræðingar og einn mjólkurverkfræðingur.
Sérstaða
Arna er eina mjólkurvinnslan á Íslandi sem sérhæfir sig í framleiðslu á mjólkurvörum án mjólkursykurs. Vöruþróun hefur frá upphafi skipað veigamikinn sess innan veggja fyrirtækisins og mikið hefur verið lagt upp úr því að koma með nýjungar á markað. Þá hefur verið lögð aukin áhersla á umhverfismál á öllum sviðum framleiðslunnar, til dæmis með því að draga umtalsvert úr plastnotkun og með því fullnýta aukafurðir.
Markmið
Arna leggur mikinn metnað í að framleiða hollar, bragðgóðar og ferskar vörur fyrir neytendur. Markmið fyrirtækisins er að sækja enn frekar fram á komandi árum og vera áfram leiðandi í vöruþróun á íslenskum mjólkurvöruumarkaði.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd