Fiskeldisfyrirtækið Arnarlax var stofnað á Bíldudal árið 2010 eftir undirbúningsvinnu sem hófst árið 2008. Það var hópur heimamanna og brottfluttir Bílddælingar sem komu hugmyndinni í framkvæmd í viðleitni sinni til að skapa atvinnutækifæri á svæðinu en Bíldudalur var á þessum tíma skilgreindur sem brothætt byggð. Meðal stofnenda var Matthías Garðarsson sem hafði kynnst fiskeldi þegar hann bjó í Noregi en hann er fæddur og uppalinn á Bíldudal og varð snemma kjölfestufjárfestir í verkefninu ásamt syni sínum Kristian B. Matthíassyni. Árið 2013 kom Kjartan Ólafsson inn sem stjórnarformaður félagsins og hefur hann fylgt því síðan.
Arnarlax fór ágætlega af stað og árið 2013 hafði Arnarlax leyfi til að ala rúm 3.000 tonn af fiski og sama ár var seiðaframleiðsla sett af stað að Gileyri í Tálknafirði. Fyrstu seiðin voru sett í sjó árið 2014 í Arnarfirði og ævintýrið þar með formlega hafið. Fyrsti framkvæmdastjóri Arnarlax á upphafsárum félagsins var Bílddælingurinn Víkingur Gunnarsson en Kristian B. Matthíasson tók við stöðunni árið 2014.
Það var gríðarlegt átak að koma verkefninu af stað og að mörgu að hyggja. Fjármögnunar-ferlið var mikið áhersluatriði á upphafsárum félagsins enda fjármagnsfrekt að byggja upp fyrirtæki upp frá grunni samhliða uppbyggingu greinarinnar á Íslandi. Árin 2014-2015 kom inn breiður hópur fjárfesta m.a. Tryggingamiðstöðin, Pactum AS og SalMar AS. Aðkoma SalMar tryggði félaginu jafnframt þolinmótt fjármagn en jafnframt komu þeir inn með mikla þekkingu og reynslu á eldisrekstri sem styrkti stoðir Arnarlax enn frekar. Arnarlax keypti fyrirtækið Fjarðalax árið 2016 sem styrkti uppbyggingu virðiskeðjunnar, en Fjarðalax var þá með starfsemi í Arnarfirði, Patreksfirði og Tálknafirði. Þeir áttu einnig 50% hlut í seiðaeldisstöðinni Ísþór í Þorlákshöfn.
Árið 2018 var SalMar orðinn stærsti eigandi Arnarlax og árið 2019 tók Björn Hembre við sem forstjóri félagsins af Kristian B. Matthíassyni. Björn hefur áralanga reynslu af fiskeldi og frá upphafi lagt áherslu á að styrkja verkferla og innviði Arnarlax til að tryggja farsæla áframhaldandi uppbyggingu þess og greinarinnar á Íslandi.
Arnarlax hefur frá frá upphafi lagt áherslu á að fjárfesta í allri virðiskeðjunni, allt frá eigin seiðaframleiðslu, sjóeldi, vinnslu, sölu og markaðsmálum.
Vottanir
Árið 2018 fékk Arnarlax fyrstu ASC-vottun félagsins en árinu 2021 hafði öll framleiðsla Arnarlax hlotið ASC-vottun (Aquaculture Stewardship Council). ASC vottunin staðfestir að Arnarlax vinnur með það að leiðarljósi að lágmarka áhrif á umhverfi í sjó og landi, að fiskurinn sé heilbrigður og að samstarf við starfsmenn og samfélag sé í góðum farvegi.
Árið 2021 hlaut Arnarlax BRC Global Standard matvælaöryggisvottun fyrir vinnslu sem vottar það að allir verkferlar í vinnslu standast kröfur um gæði og matvælaöryggi á alþjóðlegum vettvangi. Viðskiptavinir geta þannig treyst því að laxinn er unnin á sem bestan og öruggastan hátt frá vinnslu og þar til að hann kemur til þeirra.
Framleiðslan
Helstu útflutningsmarkaðir eru í Evrópu en sala til Norður-Ameríku fer vaxandi. Ísland er í kjöraðstöðu er kemur að flutningi til Norður-Ameríku og hafa skipaflutningar með ferskan lax til Bandaríkjanna tekist vonum framar. Viðtökur á markaði hafa verið góðar og umsagnir frá þeim sem leggja mat á afurðirnar eru á sama máli.
Laxinn frá Arnarlaxi er í góðum gæðum og er aðal uppistaðan í næringarinnihaldi hans prótein og hollar fitusýrur. Einnig er laxinn í sterkri stöðu er kemur að kolefnisfótspori í samanburði við aðra próteingjafa eins og t.d. nautakjöt.
Árið 2021 voru framleidd 11.500 tonn en félagið gerir ráð fyrir töluverðri aukningu á framleiðslu á næstu árum. Nú árið 2022 samanstendur Arnarlax teymið af rúmlega 180 manns á öllum stigum virðiskeðjunnar og nær til fimm mismunandi sveitarfélaga þar sem Arnarlax er með starfsemi á Bíldudal , Patreksfirði og Reykjavík ásamt seiðaframleiðslu í Tálknafirði, Þorlákshöfn og að Hallkelshólum. Þessu til viðbótar hafa fjölmörg afleidd störf skapast í bæði þjónustu við greinina sem og öðrum afleiddum störfum tilkomnum vegna aukinna umsvifa á starfssvæðum félagsins.
Í upphafi var lagt af stað með þá hugsjón að styrkja byggðir á Vestfjörðum og það má nú með sanni segja að með fiskeldinu hafi það gengið eftir. Úttekt KPMG frá febrúar 2021 sýnir að fólksfjölgun á Vestfjörðum hefur orðið um 3,7% frá árunum 2016 til lok árs 2020 og samkvæmt mati sömu úttektar kemur fram að 1.850 manns gætu byggt lífsafkomu sína á fiskeldi beint eða óbeint miðað við 64.500tonna hámarkslífmassa á svæðinu.
Hugsjón framsýnna og framtakssamra manna á Bíldudal er nú orðin að stóru og framsæknu fyrirtæki sem skapar atvinnu og tekjur á Vestfjörðum og víðar en á árinu 2021 skilaði fiskeldi tæpum 5% af heildar útflutningsverðmætum þjóðarinnar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd