Árneshreppur á Ströndum

2022

Árneshreppur er eitt fámennasta og afskekktasta sveitarfélag á Íslandi. Sveitin er útvörður Stranda og íbúar eru nú 40 talsins. Hreppamörk Árneshrepps eru í norðri við Geirólfsgnúp sem einnig eru sýslumörk Strandasýslu og Norður-Ísafjarðarsýslu. Að sunnan eru hreppamörkin við svokallaðan Spena sem skilur á milli Árneshrepps og Kaldrananeshrepps.

Sveitarfélagið
Í hreppsnefnd Árneshrepps sitja; Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti/hóteleigandi, Guðlaugur A. Ágústsson varaoddviti, starfsmaður Isavia og fjárbóndi, Arinbjörn Bernharðsson verktaki og ferðaþjónustubóndi, Bjarnheiður Júlía Fossdal fjárbóndi, Björn Guðmundur Torfason fjárbóndi. Þrátt fyrir fámenni hefur atvinnulífið verið gott, framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins hafa verið miklar á síðustu kjörtímabilum. Hús í eigu hreppsins voru gerð upp og breytt í kaffihús og fiskmóttöku og eru leigð út til einstaklinga, íbúðum hreppsins fjölgað um eina, grjótgarður gerður til mikilla bóta við Norðurfjarðarhöfn og malbik sett á verslunarplan að mestu leiti á kostnað sveitarfélagsins. Miklar endurbætur standa yfir á grunnskólanum og kennaraíbúð og verður þeim lokið 2021.
Bændum hefur því miður fækkað, en árið 2021 mun þó fjölga í þeirri stétt. Einstaklingar hafa einnig byggt upp ferðaþjónustufyrirtæki, söfn og sýningar og stofnað ný fyrirtæki í ferðaþjónustu, bæði hvað varðar afþreyingu og aukið gistirými. Sundlaugin í Krossnesi gengur í gegnum miklar endurbætur sem Ungmennafélagið Leifur heppni stendur fyrir (2020 -2021), en á sínum tíma árið 1954, byggði ungmennafélagið laugina í Krossnesi með hjálp sjálfboðaliða.
Sveitarfélagið Árneshreppur sinnir flestum verkefnum sem sveitarfélögum ber að gera, en vegna fámennis er það gert í samstarfi við mörg samlög og sambönd með öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum og yfir í Dali og Reykhólahrepp. Þau eru: Sorpsamlag Strandasýslu, Félagsþjónusta Stranda og Reykhólahrepps, Fjórðungssamband Vestfirðinga/Vestfjarðastofa/Markaðsstofa Vestfjarða, Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða, Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna og Byggðasamlag um þjónustu við fatlað fólk. Ennfremur tekur Árneshreppur þátt í samstarfi um skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa í félagi við Dalabyggð, Reykhólahrepp, Kaldrananeshrepp og Strandabyggð.

Náttúran
Árneshreppur nýtur þess að náttúran er stórbrotin og fögur. Hægt væri að nefna hvert fjallið á fætur öðru sem standa vörð um firði og víkur, klettaborgir, frábæra strandlengju með ýmist malarfjörum eða hömrum í sjó fram. Þar sem dreifbýlið er mikið er nánast alls staðar hægt að finna kyrrð og ró og verða eitt með náttúrinni. Það verður þó að segjast einmitt hérna, að Árneshreppur á við það vandamál að etja að geta eingöngu tekið á móti gestum sínum helming ársins, þar sem vegurinn inn í sveitina býður ekki upp á vetrarferðir. Samfélagið lokast sem sagt af að mestu leiti vetrarlangt. En samt sem áður hefur ferðamönnum fjölgað með hverju ári og árið 2020 var þar engin undantekning þrátt fyrir að vera mjög sérstakt og fordæmalaust ár eins og sagt hefur verið ótal sinnum. Straumur Íslendinga lagði leið sína í sveitina og var ótrúlega gaman fyrir ferðaþjóna að taka nánast eingöngu á móti löndum sínum sem virkilega nutu þess að koma og skoða sig um. Margir voru að koma í fyrsta sinn og urðu alveg bit á sjálfum sér að vera ekki löngu búin að sækja Árneshrepp heim. Þegar haustaði tók við kvikmyndaævintýri sem lengdi sumarvertíðina fram eftir hausti og unnu heimamenn að því í góðu samstarfi, hver á sínu sviði, að leysa öll mál sem leysa þurfti. Þar má meðal annars nefna að bændurnir í sveitinni kenndu leikurunum að slá með orfi og ljá, snúa heyi með hrífum og að skera hrút sem auðvitað var bara í plati.

Atvinnutækifæri
Árneshreppur stendur nú á þeim tímamótum að fyrir dyrum stendur að þrífösun og ljósleiðaravæðing ná hingað í sveitina. Þá skapast auknir möguleikar til nýbreytni í atvinnulífi sem ekki hefur verið hægt að sinna fram að þessu. Þar má nefna alls kyns tölvuvinnslu, svörunarþjónustu og að möguleikar bænda til sölu beint frá býli myndu loksins rætast með betri raforku.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd