Ás fasteignasala ehf

2022

Ás fasteignasala var stofnuð þann 10. desember árið 1988 af hjónunum Ingvari Guðmundssyni og Rut Brynjarsdóttur og hefur reksturinn staðið óslitið frá þeim tíma. Skrifstofa fasteignasölunnar var upphaflega á 2. hæð við Strandgötu 28 í Hafnarfirði (gamla Hús Kaupfélags Hafnarfjarðar). Árið 1991 var skrifstofan flutt á Strandgötu 31-33 í Hafnarfirði (gamla Landsbankahúsið). Árið 1995  var reksturinn svo færður í núverandi húsnæði við Fjarðargötu 17 í Hafnarfirði. Þess má til gamans geta að allt frá stofnun fasteignasölunnar, árið 1988, hefur starfið mest megnis verið unnið í tölvu og árið 1992 hóf fasteignasalan svo að nýta sér Internetið. Fullyrða má, með nokkurri vissu, að Ás fasteignasala hafi verið með fyrstu fasteignasölum til að nýta tölvuna og Internetið í starfsemi sinni. Haustið 1999 hætti Ingvar og eignuðust þá Kári Halldórsson og Jónas Hólmgeirsson fasteignasöluna. Árið 2018 urðu svo aftur eigendaskipti þegar núverandi eigendur, feðgarnir Eiríkur Svanur Sigfússon og Aron Freyr Eiríksson, keyptu þá Kára og Jónas út úr rekstrinum (Eiríkur hafði þó verið meðeigandi Kára og Jónasar frá árinu 2005).  

Mannauður og metnaður
Hjá Ás fasteignasölu starfa nú sjö manns. Það sem einkennir og sameinar þessa starfsmenn er sú staðreynd þeir hafa allir brennandi áhuga á fasteignaviðskiptum ásamt mjög ríkri þjónustulund. Megináhersla Ás fasteignasölu er að veita framúrskarandi og trausta þjónustu með það að markmiði að viðskiptavinir gangi sáttir frá borði að viðskiptum loknum. Þessu tengdu má nefna að Ás fasteignasala er ein af fáum fasteignasölum sem hefur verið á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki samfleytt frá árinu 2015 og er það mikilvægur þáttur í að efla traust viðskiptavina fyrirtækisins. 

Starfsemin
Fyrirtækinu er skipt upp í tvær deildir, þ.e. söludeild og samningadeild, þar sem hvor deild er með sínar áherslur. Deildirnar starfa þó mjög náið saman og er það forsenda þess að reksturinn gangi sem best. Viðskiptavinir Ás fasteignasölu koma úr öllum áttum en þar má helst nefna einstaklinga, fyrirtæki, stofnanir, banka, lífeyrissjóði, hið opinbera og sveitarfélög.
Allt frá stofnun hefur Ás fasteignasala reynt að fylgja þeim tækninýjungum sem átt hafa sér stað í gegnum árin og aðlagað starfsemi sína að þeim, en það er mikilvægur þáttur í að viðhalda góðum rekstri. Líkt og nefnt var hér fyrr hóf fyrirtækið t.a.m. að nýta tölvur strax við stofnun og Internetið fljótlega síðar. Samfélagsmiðlarnir eru orðnir gífurlega stór þáttur í markaðssetningu margra fyrirtækja, ekki síst hjá fasteignasölum, og eru þeir líklegir til að verða enn fyrirferðameiri eftir því sem fram líða stundir. Ás fasteignasala leggur mjög mikið upp úr því að vera sýnileg á samfélagsmiðlum en fyrirtækið heldur uppi bæði Instagram- og Fésbókarsíðu og nýtur þar aðstoðar aðila sem sérhæfa sig í að hámarka virkni þessara miðla. Á samfélagsmiðlum Ás fastegnasölu er að finna ýmsar upplýsingar en miðlarnir eru þó fyrst og fremst nýttir til að auglýsa þær fasteignir sem eru  til sölu á hverjum tíma. Eftir að fasteignasalan hóf að nýta samfélagsmiðlana í auknum mæli hafa þeir sannað notagildi sitt og eru í dag orðnir einn stærsti þáttur í markaðssetningu fasteignasölunnar, bæði hvað varðar markaðssetningu á fasteignasölunni sjálfri sem og á þeim eignum sem fasteignasalan auglýsir til sölu. 

COVID-19 og reksturinn
Árið 2020 hefur verið sérstakt í rekstri flestra fyrirtækja sökum COVID-19. Við upphaf faraldursins hér á landi, í febrúar/mars árið 2020, höfðu aðilar miklar áhyggjur af því að fasteignamarkaðurinn myndi hrynja. Eftir á að hyggja voru þessar áhyggjur óþarfar þar sem raunin varð sú að markaðurinn hefur blómstrað nánast alveg frá því að faraldurinn skall á hér á landi. Þessu má líklega fyrst og fremst þakka tveimur stórum áföngum sem urðu á árinu 2020. Í fyrsta lagi lækkaði Seðlabanki Íslands stýrivexti sína markvisst sem hefur örvað fjárfestingu fyrirtækja og heimila, þ.á.m. á fasteignamarkaði. Í framhaldi af því brugðust flestar lánastofnanir við með því að lækka vexti á fasteignalánum sínum. Í öðru lagi hóf Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að úthluta hlutdeildarlánum á árinu 2020 en það er úrræði fyrir fyrstu kaupendur og tekju- og eignaminni einstaklinga. Saman hafa þessir tveir áfangar haft mikil áhrif á fasteignamarkaðinn enda gerir þetta aðilum mun auðveldara með að komast inná fasteignamarkaðinn sem og að fjárfesta í stærri og dýrari fasteignum. 
Nefndar voru tækninýjungar hér fyrr en Ás fasteignasala tók upp eina slíka fyrr á árinu 2020 sem kom sér einkar vel þegar COVID-19 faraldurinn skall á. Um er að ræða rafrænar undirritanir á tilboð og ýmis önnur skjöl. Þetta hefur gert það að verkum að mun auðveldara er fyrir viðskiptavini fasteignasölunnar að undirrita skjöl og hefur einnig lágmarkað samkomur á skrifstofu fasteignasölunnar. Viðskiptavinir Ás hafa tekið þessari nýjung mjög vel og mikill meirihluti tilboða og annarra skjala, sem rafrænar undirritanir ná til, hafa verið undirrituð með slíkum hætti. Á næstu mánuðum binda aðilar svo vonir við að hægt verði að undirrita og þinglýsa kaupsamningum og afsölum með rafrænum hætti en það verður stórt skref í átt að pappírslausum viðskiptum.
Allar nánari upplýsingar um Ás fasteignasölu, eignir, verðskrá, starfsfólk o.fl. er að finna á vefsíðunni: www.as.is. 

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd