Átak ehf. var stofnað á Blönduósi árið 1974 af Árna Jóhannssyni, Kristófer Kristjánssyni, Þormóði Péturssyni, Hilmari Kristjánssyni, Guðmundi Lárussyni og Einari Evensen. Upphaflega var fyrirtækið stofnað um kaup á krana sem hugsaður var til að þjónusta sveitarfélögin og fyrirtæki í Austur-Húnavatnssýslu .
Starfsemin í dag
Átak ehf. er rafmagnstæknifyrirtæki sem býður bæði upp á ráðgjöf og uppsetningu á rafmagnsbúnaði. Tæknideild Átaks ehf. leggur aðaláherslu á að veita ráðgjöf og þjónustu innan háspennukerfisins, bæði við flutning og framleiðslu raforku. Verkefnin hafa verið í uppsetningu og tengingum á háspennubúnaði og hjálparkerfum síðustu árin.
Við erum með A löggildingu og getum því tekið að okkur öll verk á sviði háspennu, bæði verklega sem og fræðilega. Verkfræðingar okkar hafa aðgang að nýjustu mælitækjunum sem og að öflugum reikniforritum til útreikninga á rafmangskerfum.
Við höfum á ferilskránni vinnu við allt frá 0,4kV upp í 400kV. Við höfum unnið við hönnun og verkeftirlit á vatnsaflsvirkjunum af mörgum stærðum, tengingu á jarðstrengjum, hönnun og verkeftirlit á vindmyllugörðum upp að 580MW og margt fleira.
Reynsla og þekking hjá Átak
Dreifikerfi:
Starfsmenn Átaks hafa flest allir unnið við dreifikerfi RARIK á norðurlandi, bæði við háspennu og lágspennu. Mikil reynsla er bæði í uppsetningu á nýjum búnaði (strengir, loftlínur, spennistöðvar o.fl.) og viðhaldi á sama búnaði. Átak ehf. hefur einnig verið að vinna mikið í lagningu og tengingu á háspennubúnaði hjá rafveitum sem og hjá gagnaverum Advania og Etix. Átak ehf. er með réttindi til að tengja strengi upp að 66kV.
Lágspenna:
Átak ehf. er með mikla reynslu við að vinna við lágspennukerfi, við höfum hannað og sett upp allt frá almennum heimilisraflögnum, til flókinna stýrikerfa. Sem dæmi má nefna alla stýriskápasmíði, uppsetningu og tengingar fyrir stækkun hitaveitunnar á Reykjum, Austur- Húnavatnssýslu. Nokkrar dælustöðvar eru í kerfinu sem krefst mikillar reglu og nákvæmni í stýringum.
Varnarliðar:
Rafmagnsverkfræðingur Átaks ehf. er sérfræðingur í varnarliðum. Hann hefur unnið við hönnun og prófanir á varnarliðabúnað frá helstu framleiðendum í Evrópu, svo sem Siemens, ABB og MiCOM (Schneider og GE). Átak býður upp á stillingu og eftirliti á varnarliðum, til þess höfum við OMICRON CMC 356 sem er af mörgum talið besta tækið til prófunar á varnarliðum.
Vatnsaflsvirkjanir:
Reynsla Átaks við vatnsaflsvirkjanirer löng, einn af okkar starfsmönnum tók þátt í uppsetningu og prófunum á öllum raf-, varnar- og stjórnbúnaði Blönduvirkjunar. Einnig tóku starfsmenn okkar þátt í uppbyggingu 15MW vatnsaflsvirkjunar í Sisimuit á Grænlandi. Þar voru helstu verkefni, verkeftirlit, uppsetning og gangsetning á virkjuninni og rekstur hennar fyrstu 2 árin. Verkfræðingur Átaks ehf. tók einnig þátt í hönnun stjórnbúnaðar vatnsaflsvirkjunarinnar við Ilulissat á Grænlandi. Starfsmenn Átaks ehf. hafa því víðtæka reynslu á vinnu við vatns-aflsvirkjanir, bæði á Íslandi og Grænlandi.
Vindorka:
Notkun vindorku hefur ekki enn haslað sér völl á Íslandi svo neinu nemur, en starfsmaður Átaks ehf .hefur starfað við hönnun og uppsetningu á vindorkugörðum (Wind Farms). Þar hefur hann tekið þátt í frumhönnun á vindorkugörðum sem og fylgt eftir upp- og gangsetningu á 580MW vindorkugarði í Norðursjónum. Starfsmaður Átaks var þar verkefnastjóri yfir varnar- og stjórnbúnaði sem og verkefnastjóri yfir öllum gangsetningumum og prófunum á háspennubúnaði.
Reynsla og þekking
Einn af þeim kostum sem Átak býr yfir, er sú fjölbreytta reynsla sem er innan fyrirtækisins. Þar er átt við að við getum tekið að okkur að annast allt frá hönnun til uppsetningar á búnaði, einnig getum við boðið upp á verkefnastjórn á öllum stigum verksins, bæði fyrir háspennu og lágspennu.
Starfsmenn
Starfsmenn Átaks eru um 13 talsins en stöðugildin voru 22 þegar mest var. Starfsmenn Átaks hafa mikla þekkingu á öllu sem viðkemur rekstri og uppbyggingu orkuvera, bæði innanlands sem utan. Átak ehf. hefur yfir að ráða öflugum verk- og tæknifræðingum sem einnig eru með sveinspróf í rafvirkjun. Átak hefur A löggildingu og getur því verið ábyrgðarmaður rafveitu. Rafvirkjar Átaks ehf. hafa mikla þekkingu á stýriskápasmíðum og prufunum á stjórn og varnarbúnaði.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd