Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf

2022

Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga var stofnað sem hlutafélag 6. febrúar 1991 á grunni
Iðnþróunafélags Húsavíkur sem hafði verið stofnað fyrri hluta árs 1984. Eigendur atvinnu-þróunarfélagsins voru að stærstum hlut sveitarfélögin í Þingeyjarsýslu auk stéttarfélaga og einstaka fyrirtækja. Árið 2018 var félaginu breytt í sjálfseignarstofnun. Starfsemi þess var svo hætt í ársbyrjun 2020 og sameinuð undir merkjum Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) ásamt starfsemi Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Eyþings. Félagið starfar þó áfram sem eignarhaldsfélag undir nafninu Fjárfestingarfélag Þingeyinga ehf.

Starfsemin
Frá upphafi var tilgangur félagsins að stuðla að atvinnuuppbyggingu á starfssvæði sínu með ráðgjöf til fyrirtækja og frumkvöðla. Rauður þráður í starfseminni var einnig alla tíð að stuðla að rannsóknum á auðlindum svæðisins, ekki síst jarðhitaauðlindinni, með það að markmiði að hún, í samspili annarra svæðisbundinna styrkleika, gæti orðið undirstaða öflugrar atvinnusköpunar á svæðinu. Þá sögu má raunar rekja allt aftur til 1776 þegar hreinsun á brennisteini hófst á Húsavík en áður hafði hann verið fluttur út óhreinsaður allt frá árinu 1500. Brennisteinsvinnslu líkur svo 1939 en allar götur síðan hefur verið unnið að sama marki og þau verkefni sem orðið hafa að veruleika eru t.d. Léttsteypan í Mývatnssveit, og síðast kísilmálmverksmiðja PCC á Bakka ásamt raforkuvinnslu bæði í Mývatnssveit og svo á Þeistareykjum. Hitaveitur á Húsavík og víða á svæðinu og nýting jarðhitaauðlindarinnar í Jarðböðunum við Mývatn og Sjóböðunum á Húsavík eru svo af sama meiði. Öflug ylrækt Garðaræktarfélags Reykhverfinga hefur nýtt auðlindina allar götur frá 1933.
Með tímanum hafði hlutverk atvinnuþróunarfélagsins víkkað og í raun má segja að það hafi um árabil verið virkasti samstarfsvettvangur samfélaganna á starfssvæðinu í atvinnu- og samfélagsþróun. Þetta hlutverk endurspeglaðist vel í samþykktum þess þegar því var breytt í sjálfseignarstofnun 2018 en þar segir: „Tilgangur Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga ses. er að vinna að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja á starfssvæði sínu, sem eru sveitarfélögin Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Norðurþing, Tjörneshreppur, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð, og veita samræmda og þverfaglega ráðgjöf og þjónustu tengda atvinnulífi og samfélags- og byggðaþróun.“ Jafnframt segir að markmið stofnunarinnar séu að „ … stuðla að jákvæðri þróun atvinnulífs og bæta almenn búsetuskilyrði á starfssvæði sínu. Að markmiðum sínum skal stofnunin vinna í samstarfi við sveitarfélögin, samtök þeirra, ríkisvaldið og aðra þá aðila sem láta sig þessi markmið varða. Hún skal skipuleggja og standa fyrir fjölbreyttum stuðningsaðgerðum í þágu þeirra sem eru í atvinnurekstri, hyggja á atvinnurekstur eða tengjast atvinnurekstri. Þá skal stofnunin vinna að því að auka nýsköpun og arðsemi í atvinnulífinu með verkefnum og þjónustu sem fela í sér hagnýt gildi og eru hvetjandi til athafna á sviði atvinnusköpunar.“
Með tilkomu iðnaðarsvæðisins á Bakka við Húsavík og þeirrar uppbyggingar sem átt hefur sér stað í tengslum við það, annars vegar uppbygging orkuvinnslu á Þeistareykjum og tilheyrandi uppbyggingu orkuflutningsmannvirkja, og hins vegar iðnaðaruppbyggingu á Bakka, má segja að komið hafi að ákveðnum vatnaskilum. Traustir innviðir og öflug grunnstarfsemi er orðin að veruleika sem unnt er að byggja frekari þróun á.
Mikil þróun og uppbygging hefur átt sér stað í ferðaþjónustunni á svæðinu undanfarin ár þó vissulega sé hún mislangt á veg komin. Hlutar svæðisins búa að öflugri starfsemi til áratuga á meðan önnur eru að stíga sín fyrstu skref í þessari mikilvægu atvinnugrein. Félagið hefur í gegnum tíðina staðið fyrir greiningar- og stefnumótunarvinnu með hagsmunaaðilum og sveitarfélögum vegna uppbyggingar greinarinnar, en einnig varðandi aðrar atvinnugreinar og þjónustumálaflokka sveitarfélaganna.

Starfsfólk og verkefni
Lengst af voru starfsmenn félagsins einn til tveir en upp úr aldamótunum fór þeim að fjölga og síðustu árin hafa þeir verið á bilinu fjórir til sex. Fjölgunina má rekja til fjölbreyttari verkefna sem fylgdu þeirri breikkun á hlutverkinu sem endurspeglaðist í samþykktum þess og vitnað var til hér að framan en einnig vegna ýmissa samningsbundinna verkefna sem félagið tók að sér. Má þar m.a. nefna daglegan rekstur Héraðsnefndar Þingeyinga og verkefnisstjórn í ýmsum þróunarverkefnum í samstarfi fleiri aðila, s.s. í byggðaeflingarverkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir, en þrjú byggðarlög á starfssvæði félagsins hafa verið þátttakendur í því.
Þá sá félagið um rekstur Vaxtarsamnings Norðausturlands og síðar umsýslu með starfsemi Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra á starfssvæði sínu í umboði Eyþings. Frá stofnun atvinnuþróunarfélagsins 1991 og þar til starfsemi þess var hætt gengdu fimm einstaklingar stöðu framkvæmdastjóra, síðast Reinhard Reynisson frá 2008-2019. Daglegur rekstur félagsins eftir að því var breytt í eignarhaldsfélag er í höndum stjórnarformanns Péturs Snæbjörnssonar.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2025 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd