Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu mætast ólíkir málaflokkar, hagsmunir neytenda og atvinnulífsins. Í ráðuneytinu er unnið að því að móta skilvirkt, samkeppnishæft og ábyrgt starfsumhverfi atvinnuvega þar sem verðmætasköpun og sjálfbærni er í fyrirrúmi. Starfsfólk er í góðu samtali við almenning og hagaðila, og veitir skilvirka þjónustu og upplýsingagjöf. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fylgist vel með breytingum í atvinnulífi og samfélagi. Ráðuneytið sækir markvisst fram með nýsköpun, framþróun og hagsýni að leiðarljósi. Með það að markmiði hafa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kynnt stefnumótun á sviði matvæla, orkumála, landbúnaðar, nýsköpunar og einföldun regluverks neytendum og atvinnulífinu til hagsbóta. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið tók formlega til starfa 4. september 2012 við sameiningu þriggja ráðuneyta. Ráðuneytin þrjú voru efnahags- og viðskiptaráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneyti.
Tveir ráðherrar fara með málaflokka ráðuneytisins; sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Árið 2020 voru þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Ráðuneytisstjóri, Kristján Skarphéðinsson, stýrir ráðuneytinu undir yfirstjórn ráðherranna. Alls eru starfræktar fimm fagskrifstofur: Skrifstofa matvælaöryggis og fiskeldis, skrifstofa landbúnaðarmála, skrifstofa sjávarútvegsmála, skrifstofa ferðamála og nýsköpunar og skrifstofa orku, iðnaðar og viðskipta. Auk þess eru skrifstofur fjárlaga, rekstrar og innri þjónustu og skrifstofa ráðuneytisstjóra. Alls starfa um 65 starfsmenn í ráðuneytinu.
Skrifstofa ráðuneytisstjóra
Skrifstofunni er stýrt af ráðuneytisstjóra. Hlutverk hennar er m.a. að samræma stjórnsýslu ráðuneytisins og fara með forsvar gagnvart alþjóðasamstarfi og réttindamálum á málefnasviðum þess. Miðlun upplýsinga heyrir undir skrifstofuna sem og dagleg umsýsla verkefna er tengjast ráðherrum.
Skrifstofa landbúnaðarmála
Hlutverk skrifstofunnar er að skapa skilvirka umgjörð um landbúnaðarframleiðslu og viðskipti með landbúnaðarafurðir. Á skrifstofunni er unnið að greiningum og stefnumótun með það að markmiði að bæta samkeppnishæfni. Nýsköpun, þróun og sjálfbærni er í forgrunni. Verkefnin skrifstofunnar varða meðal annars framleiðslu landbúnaðarafurða, framkvæmd búvörusamninga, málefni jarða og landbúnaðarlands, tollamál, verðlagningu og sölu á búvörum og viðskipti með landbúnaðarafurðir. Auk þess fer skrifstofan með málefni lax- og silungsveiði.
Skrifstofa matvælaöryggis og fiskeldis
Hlutverk skrifstofunnar er að skapa skilvirka umgjörð um með málefni matvælaöryggis, fiskeldis og dýravelferðar. Á skrifstofunni er unnið að greiningum og stefnumótun með það að markmiði að bæta samkeppnishæfni. Nýsköpun, þróun og sjálfbærni er í forgrunni. Verkefnin skrifstofunnar varða auk þessa dýra og plöntusjúkdóma, eftirlit með inn og útflutningi afurða o.fl.
Skrifstofa sjávarútvegsmála
Hlutverk skrifstofunnar er að skapa sjávarútvegi skilvirkt og ábyrgt starfsumhverfi. Á skrifstofunni er unnið að greiningum og stefnumótun með það að markmiði að bæta samkeppnishæfni. Nýsköpun, þróun og sjálfbærni er í forgrunni. Verkefni skrifstofunnar varða auk þess fiskvinnslu, markaðssetningu sjávarafurða, veiðigjöld, rannsóknir og eftirlit með nýtingu og verndun lifandi auðlinda hafsins auk þess að hún annast gerð og framkvæmd fiskveiðisamninga við önnur ríki.
Skrifstofa orku, iðnaðar og viðskipta
Hlutverk skrifstofunnar er að skapa orku-, viðskipta-, iðnaðar-, og nýfjárfestingamálum hagkvæma og skilvirka umgjörð, skýrar leikreglur og vinna að stefnumótun á þessum sviðum.
Skrifstofan fer með málefni er varða orkumál, iðnaðarmál, félagarétt, neytendamál, almenn viðskiptamál, samkeppnismál, ársreikninga, endurskoðendur og bókhald, hitaveitur, hugverkaréttindi á sviði iðnaðar (einkaleyfi o.fl.), faggildingu, staðlamál, nýfjárfestingar, traustþjónustu, fasteignasala, löggiltar starfsgreinar og endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og tónlistar.
Skrifstofa ferðamála og nýsköpunar
Hlutverk skrifstofunnar er að skapa ferðaþjónustu og málefnum nýsköpunar hagkvæma og skilvirka umgjörð og treysta grundvöll þeirra með skýrum leikreglum og stefnumótun. Með hliðsjón af því fer skrifstofan með stefnumótun ferðamála-, nýsköpunar- og klasastefnu. Á skrifstofunni fer fram leiðandi faglegt starf þar sem unnið er að greiningum og aðgerðum með það að markmiði að bæta samkeppnishæfni. Nýsköpun, þróun og sjálfbærni er í forgrunni. Meginhlutverk skrifstofunnar snúa að skilgreiningu stefnumarkandi verkefna og forgangsröðun þeirra byggða á áherslum í framtíðarsýn atvinnugreinanna.
Skrifstofa fjárlaga, rekstrar og innri þjónustu
Hlutverk skrifstofu fjárlaga, rekstrar og innri þjónustu er að styðja við innra starf ráðuneytisins og þróun þess í nánu samstarfi við yfirstjórn. Skrifstofan annast rekstur ráðuneytisins, innkaup, skiptingu á fjárhagsramma ásamt framkvæmd og eftirfylgni fjárlaga. Skrifstofan annast einnig mannauðsmál, innra eftirlit, stoðþjónustu og áætlanagerð. Skrifstofan samræmir framsetningu stefnumörkunar ráðuneytisins á þeim málefnasviðum og í þeim málaflokkum sem hún ber ábyrgð á. Hún hefur umsjón með fjárveitingum til málaflokka sem ráðuneytið ber ábyrgð á og fer með rekstrarlegt eftirlit með stofnunum ráðuneytisins ásamt stefnumótun og árangursstjórnun er þeim við kemur. Skrifstofan leiðir mannauðsmál og aðstoðar við ráðningar, annast launamál, fræðslu og starfsþróun. Skrifstofan ber ábyrgð á gæðamálum, jafnlaunakerfi, skjalavistun og málaskrá ráðuneytisins ásamt öryggismálum og móttöku gesta. Kostnaðarmat frumvarpa ásamt eftirliti með samningagerð ráðuneytisins heyrir einnig undir skrifstofuna. Skrifstofa fjárlaga, rekstrar og innri þjónustu vinnur náið með yfirstjórn ráðuneytisins að framgangi verkefna sem varða ráðuneytið í heild eða að hluta og styður við starf verkefnahópa sem settir eru á fót og starfa þvert á ráðuneytið.
Sjávarútvegshúsið við Skúlagötu: Glitur hafsins
Ráðuneytið hefur frá upphafi verið í Sjávarútvegshúsinu við Skúlagötu. Undir lok árs 2020 var hafist handa við nokkrar endurbætur á húsinu til að færa það í nútímalegra form fyrir vinnustað framtíðarinnar en umbæturnar munu taka nokkur ár. Hafrannsóknarstofnun deildi húsnæði með ráðuneytinu til ársins 2020 en flutti þá í nýja og betri aðstöðu á hafnarbakkanum í Hafnarfirði. Á austurgafli hússins má sjá listaverk Söru Riel frá árinu 2018, en hún vann samkeppni um útilistaverk sem ráðuneytið efndi til í samstarfi við Samband íslenskra myndlistamanna. Listaverkið, Glitur hafsins, hefur skírskotun í sögu sjávarútvegs á Íslandi.
Helstu verkefni ársins 2020
Árið 2020 mótuðust verkefni ráðuneytisins óhjákvæmilega af heimsfaraldri kórónuveiru. Í viðspyrnunni kynntu stjórnvöld ýmsar aðgerðir sem nýtast einstaklingum og fyrirtækjum með beinum hætti. Til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stóð frammi fyrir voru lögð fram fjölmörg frumvörp, reglugerðabreytingar, aðgerðaráætlanir og verkefni til að styðja við atvinnulífið og almenning.
Málefni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Íslendingar eru matvælaþjóð og sem byggja afkomu öflugs samfélags að stórum hluta á því að nýta auðlindir með sjálfbærum hætti, bæði til sjós og lands. Einföldun regluverks, fyrir neytendur og framleiðendur var í forgrunni á árinu 2020 auk þess hélt endurskoðun búvörusamninga áfram, unnið var að aðgerðaráætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna, Matvælasjóður var stofnaður sem og Sýklalyfja- og súnusjóður. Allt kapp var lagt á að efla Matvælalandið Ísland. Til að mæta áhrifum heimsfaraldurs lagði sjávarútvegs- og landbúnaðraráðherra fram aðgerðaráætlun fyrir sjávarútveg, fiskeldi, landbúnað og matvælaframleiðslu. Auknir fjármunir voru lagðir til í Matvælasjóð, drög voru lögð að fiskeldissjóði og ákveðið var að marka landbúnaðarstefnu. Ráðherra dró m.a. til baka gjaldskrárhækkanir Matvælastofnunar, flýtti greiðslum til sauðfjárbænda og jók fjárveitingar til garðykrjunnar. Þá var svigrúm til að flytja aflaheimildir milli fiskveiðiára aukið, komið var til móts við grásleppusjómenn vegna lengdar tímabilsins, stjórnsýsla fiskeldis aukin til muna og aukið fjármagn var lagt í hafrannsóknir.
Málefni ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar
Stórir og mikilvægir áfangar á sviði ferðamála, nýsköpunar, orku, iðnaðar, viðskipta, samkeppnis- og neytendamála raungerðust á árinu 2020. Málaflokkarnir eiga það sameiginlegt að skipta sköpum fyrir samkeppnishæfni íslensks efnahagslífs og þar með verðmætasköpun í landinu og lífskjör þjóðarinnar. Það sótti vissulega að ferðaþjónustunni og með þeim breytingum sem urðu á ferðahögum fólks árið 2020 var fótunum kippt undan atvinnugreininni. Fyrir vikið var mikil áhersla lögð á að standa vörð um ferðaþjónustuna í aðgerðarpökkum ríkisstjórnarinnar. Má þar t.d. nefna ferðagjöf stjórnvalda sem unnin var í samvinnu við Stafrænt Ísland, ferðaábyrgðasjóð, tekjufallsstyrki. Þar að auki voru auknir fjármunir settir í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og áhersla lögð á að styðja við lífvænleg ferðaþjónustufyrirtæki. Önnur verkefni voru t.a.m. Stuðnings-Kría, verkefnið Saman í tónlistarsókn, auknir styrkir til Hönnunar-sjóðs, fjárfestingarátök og samkeppnir í nýsköpun o.s.frv.
Stefnumótun til framtíðar
Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu var einnig unnið að umtalsverðri stefnumótun til framtíðar. Þar má nefna:
Nýsköpunarstefnu fyrir Ísland
Orkustefnu fyrir Ísland
Kríu- sprota- og nýsköpunarsjóð
Samkeppnismat á regluverki ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi
Einföldun regluverks
Matvælastefnu fyrir Ísland
Matvælasjóð
Matvælastefna
Eftirspurn eftir matvælum á heimsvísu mun aukast og taka breytingum, því mannfólkinu fjölgar, neyslumynstur breytist og auðlindir jarðar eru takmarkaðar. Undirstaða heilbrigðis og velferðar er tryggur aðgangur að matvælum. Verkefni þjóða er því að tryggja fæðuöryggi allra íbúa. Með það fyrir augum var Matvælastefnu fyrir Ísland hleypt af stokkunum árið 2020 og stefnan mörkuð til næstu tíu ára. Matvælastefnu Íslands er ætlað að vera leiðbeinandi við ákvarðanatöku til að stuðla að aukinni verðmætasköpun í matvælaframleiðslu hér á landi, tryggja matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru.
Matvælastefna fyrir Ísland er byggð á sterkum grunni, skrifuð með aðkomu ólíkra aðila sem hafa mikla og breiða þekkingu á málaflokknum, hagsmunaaðila og samtaka þeirra. Tilgangur stefnunnar er að vera leiðarljós sem dregur fram áherslur stjórnvalda, ásamt því að móta framtíðarsýn, markmið og aðgerðaráætlun til að innleiða í íslenskt atvinnulíf og stjórnkerfi.
Nánar á www.matvælastefna.is
Matvælasjóður
Matvælasjóður var stofnaður árið 2020 og hlutu 62 verkefni styrk að fjárhæð allt að 480 milljónir á fyrsta starfsári sjóðsins. Hlutverk Matvælasjóðs er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Áhersla er á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu um land allt. Horft er til að stuðningur við matvælaframleiðslu verði sem næst uppruna hennar. Sjóðnum er einnig heimilt að styðja við vöruþróun og markaðssókn á erlendum mörkuðum. Sjóðurinn fylgir eftir heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í sjóðnum eru fjórar deildir:
Kelda styrkir rannsóknaverkefni sem miða að því að skapa nýja þekkingu.
Afurð styrkir verkefni sem komin eru af hugmyndastigi en eru þó ekki tilbúin til markaðs-setningar, en leiða af sér afurð. Bára styrkir verkefni á hugmyndastigi. Fjársjóður styrkir sókn á markað. Nánar um matvælasjóð á www.matvælasjodur.is
Orkustefna: Sjálfbær orkuframtíð
Árið 2020 markaði þau tímamót að fyrsta langtíma orkustefna fyrir Ísland var kynnt: Orkustefna til ársins 2050: Sjálfbær orkuframtíð. Stefnunni fylgir skýr framtíðarsýn og leiðarljós. Stefnan var unnin í þverpólitísku samstarfi og í samráði við hagsmunaaðila. Fulltrúar allra þingflokka auk fjögurra ráðuneyta áttu sæti í starfshópnum sem vann stefnuna. Einhugur var um niðurstöðuna. Gætt var að því að fá fram sjónarmið hagsmunaaðila og almennings. Kallað var eftir hugmyndum frá almenningi, hagsmunaaðilum og félagasamtökum með opnu samráði í samráðsgátt stjórnvalda og umsagnaraðilar fengu tækifæri til að kynna hugmyndir sínar fyrir starfshópnum.
Stefnan og framtíðarsýn hennar kveður m.a. á um að öll orkuframleiðsla sé af endurnýjanlegum uppruna. Orkan sé nýtt með sjálfbærum hætti samfélagi og almenningi til hagsbóta. Allri orkuþörf sé mætt með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma, Ísland sé leiðandi í sjálfbærri orkuvinnslu og orkuskiptum og sátt ríki um vernd náttúru og nýtingu orkuauðlinda.
Nánar um orkustefnu á www.orkustefna.is
Nýsköpunarstefna: Nýsköpun er ekki lúxus, heldur nauðsyn
Árið 2020 var unnið samkvæmt Nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, sem var kynnt rétt fyrir áramótin. Henni er ætlað að að gera Ísland betur í stakk búið að mæta áskorunum framtíðarinnar með því að byggja upp traustan grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum. Hún byggir á þeirri hugmyndafræði að nýsköpun sé ekki aðeins grundvöllur efnahagslegrar velgengni heldur lykillinn að úrlausn stærstu viðfangsefna komandi áratuga. Stefnan er mörkuð til ársins 2030, eða tíu ár fram í tímann. Í henni er sett fram það markmið að árið 2030 sé Ísland fjölbreytt samfélag velferðar, öryggis og jafnra tækifæra. Ísland verði í fremstu röð þegar borin eru saman lífsgæði og hamingja í löndum heims. Samfélag þar sem nýsköpun er inngróin í menningu og efnahagslíf og kjörlendi til að setja á fót og starfrækja alþjóðlega samkeppnishæf fyrirtæki. Samfélag þar sem virðing er borin fyrir frumkvöðlum og skapandi einstaklingum í efnahagslífi og menningu og er fyrirmynd annarra ríkja hvað varðar sjálfbæra þróun.
Nánar um nýsköpunarstefnu á vefnum www.nyskopunarstefna.is
Kría
Markmið Kríu er að efla vöxt og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að stuðla að virku fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. Sjóðurinn, sem varð að lögum árið 2020, er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins en heyrir undir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Hlutverk Kríu er að fjárfesta í sérhæfðum fjárfestingarsjóðum svokölluðum vísisjóðum (e. venture capital funds) sem sjálfir fjárfesta í nýskapandi sprotafyrirtækjum. Tilgangur með stofnun Kríu er að efla fjárfestingarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi og er liður í stefnumótun stjórnvalda í málefnum nýsköpunar og í samræmi við Nýsköpunarstefnu. Í fjármálaáætlun næstu 5 ára er samtals gert ráð fyrir um 8 milljörðum til fjárfestinga Kríu. Stofnun Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs má rekja til Nýsköpunarstefnu til ársins 2030 sem gefin var út árið 2019. Þar kemur fram að stefnt skuli að því markmiði að hér á landi verði þroskað umhverfi nýsköpunarfjárfestinga og að sprota- og nýsköpunarfyrirtæki hafi aðgang að sérhæfðum fjárfestingarsjóðum fyrir nýsköpun á sprotastigi og fyrstu stigum vaxtar.
Nafna sjóðsins, Stuðnings – Kría, var tímabundið úrræði stjórnvalda til að bregðast við heimsfaraldri COVID-19, þar sem stjórnvöld buðu tímabundið mótframlag til fjárfestinga í lífvænlegum sprotafyrirtækjum.
Samkeppnismat ferðaþjónustu og byggingariðnaðar
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fer með framkvæmd samkeppnismála í Stjórnarráði Íslands og hafði frumkvæði og umsjóð með því að OECD, Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, framkvæmdi samkeppnismat á ferðaþjónustu- og byggingariðnaði á Íslandi.
Í heild voru 632 gildandi lög og reglugerðir yfirfarin sem leiddu í ljós 676 mögulegar samkeppnishindranir í regluverkinu og af þeim gerir OECD 438 tillögur til breytinga á regluverkinu sem eru til þess fallnar að einfalda og gera það sveigjanlegra fyrir fyrirtæki starfandi í þessum tveimur greinum og stuðla að aukinni framleiðni, öflugri viðspyrnu í kjölfar kórónuveirufaraldursins og fjölda nýrra starfa. Ef öllum tillögunum sem fram koma í skýrslunni verður hrint í framkvæmt er það mat OECD að það geti skilað auknum efnahagslegum umsvifum sem nemi um 1% af vergri landsframleiðslu Íslands eða yfir 30 milljörðum króna árlega. Ráðuneytið vinnur nú að því í samvinnu við önnur ráðuneyti, stofnanir og hagsmunaaðila að leita leiða til þess að bæta regluverkið, skýra það og draga úr óþarfa reglubyrgði til að stuðla að aukinni samkeppni neytendum og atvinnulífinu til góða.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd