Auðbert og Vigfús Páll ehf

2022

Auðbert Vigfússon fæddur að Brekkum 2. september 1940 og Anna Sigríður Pálsdóttir fædd 12. september1946, eiginkona hans keyptu vörubíl af Halldóru Sigurjónsdóttur þann 2. mars 1972 þá hafði Auðbert unnið aðeins á þessum bíl fyrir Halldóru eftir að Sigurður Kjartansson eiginmaður hennar lést langt fyrir aldur fram.
Þetta markaði upphaf af þeirri starfsemi sem Auðbert hefur haldið úti allar götur síðan.Með kaupunum á bílnum fylgdi nokkur vinna við vöruflutninga fyrir ýmsa bændur í Mýrdal sem haldist hafa nær alla tíð síðan og er að vissu leyti enn grunnur að starfseminni í dag.

50 ár í flutningum
Fyrstu árinn var Auðbert mest með bílinn í vinnu fyrir Vegagerðina og var það meginstoðin undir rekstrinum, þó var alltaf farið að sækja vörur fyrir bændurna, a.m.k. einu sinni í mánuði til Reykjavíkur og þá helst til Mjólkurfélags Reykjavíkur en við það félag gerði Auðbert samning um að þjónusta viðskipavini félagsins í Mýrdal. Þetta samstarf hefur haldist allt til ársins í ár (2020) er Lífland (áður Mjólkurfélag Reykjavíkur) sleit þessu tæplega 50 ára samstafi. Uppúr 1980 fór Vegagerðin í auknum mæli að bjóða út vinnu við vegagerð og þá dró smá saman úr vinnunni sem í boði var þar.
Árið 1990 hóf Vigfús Páll sonur þeirra hjóna að starfa með þeim við flutningastarfsemina sem nú var orðin meginstoðin undir rekstrinum. Vigfús keypti á þessum árum bíl og rekstur af Sigurði Hallgrímssyni sem hafði verið í svipuðum rekstri og Auðbert og var það ágætis viðbót við reksturinn.
Nokkrum árum áður hafði Auðbert leigt aðstöðu hjá Vöruleiðum í Reykjavík, var það fyrsta vörumóttakan okkar í Reykjavík, seinna var svo flutt yfir á Vöruflutningamiðstöðina þar sem við vorum þangað til Eimskip keypti stöðina (VM) og erum við þar enn í dag.
Í upphafi var þetta mest smátt í sniðum, til vörudreifingar á Klaustur var notaður Toyota Hilux pallbíll og með yfirbyggðri kerru sem við smíðuðum til verksins, þetta hefur allt breyst í tímans rás og nú er einn starfsmaður búsettur á Kirkjubæjarklaustri sem sér um vördreifinguna þar.

Aðsetur
Fljótlega eftir 1990 festum við kaup á húsnæði undir starfsemina í Vík á Smiðjuvegi 15, sem notað var sem vörugeymsla og aðstaða til að sinna viðhaldi á bílum og vögnum þar smíðum við, t.d. flutningakassa á bíl sem við vorum að breyta í flutninga bíl, árið 2000 keyptum við svo 840 fm húsnæði við Sunnubraut 15 í Vík sem áður hýsti smiðjur Kaupfélags Vestur Skaftfellinga. Þar er í dag vöruafgreiðsla félagsins.

Starfsmenn
Árið 2000 réðum við fyrsta starfsmanninn til okkar í heilsársstarf, Jóhann Pálmason sem stafaði með okkur í 12 ár. Árið 2020 eru starfsmenn AVP orðnir níu, tveir búsettir í Reykjavík, einn búsettur á Selfossi, einn á Kirkjubæjarklaustri og fimm búsettir í Vík. Síðastliðin fimm ár hefur fyrirtækið vaxið mjög í takt við fjölda ferðamanna á svæðinu, þar af leiðir að nú árið 2020 er tekjufallið rúmlega 50 % milli ára þar sem engir ferðamenn eru á landinu vegna heimsfaraldurs COVID-19. Allir starfsmenn hafa verið og eru á hlutabótaleið stjórnvalda árið 2020.

Árið 2001 var stofnað einkahlutafélag, Auðbert og Vigfús Páll ehf.
Framkvæmdastjóri var Vigfús Páll Auðbertsson, í stjórn eru Auðbert Vigfússon, Anna S. Pálsdóttir og Vigfús Páll Auðbertsson. Þessi hlutverk hafa haldist óbreytt allt til dagsins í dag.
Í gegnum tíðina höfum við tekið þátt í vinnuuppbyggingu á svæðinu með einum eða öðrum hætti. Auðbert var einn af stofnendum og stjórnarformaður Víkurprjóns sem um árabil var einn stærsti vinnustaðurinn í Vík. Vigfús var einn af stofnendum og stjórnarmaður í Undafara sem er rekstraraðili Halldórskaffi. Einnig eigandi að Grand Guesthouse Garðakot ásamt eiginkonu sinni Evu Dögg Þorsteinsdóttur. AVP er einn af stofnendum að Smiðjunni Brugghúsi, sem rekið er í húsnæði félagssins í Vík, einnig á félagið hárgreiðslustofu sem rekin er í húsi félagsins við Sunnubraut 15 í Vík.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd