Frumkvöðlar í innviðauppbyggingu á Austurlandi í meira en 50 ár
Rekja má sögu Austfirskra Verktaka hf. allt aftur til ársins 1967 er frumkvöðullinn Guðjón Sveinsson (1950-2006) fjárfesti í traktorsgröfu og hóf að starfa fyrir Rarik á Egilsstöðum við línubyggingar og rafvæðingu á Austurlandi. Smám saman jókst starfsemin sem var fyrstu árin rekin í nafni Guðjóns og snerist aðallega um að rafvæða sveitir á Héraði. Árið 1977 tók fyrirtækið að sér fyrsta stóra verkefnið sem var að byggja undirstöður undir 132 kW háspennulínu yfir Hallormsstaðaháls. Síðan var farið í að reisa 66 kW háspennulínu yfir Hellisheiði eystri, frá Héraði austur til Vopnafjarðar 1979. Bygging aðveitustöðvar fyrir Rarik við Eyvindará var síðan næsta stóra verkefnið. Árin 1980 til 1982 var unnið við forsteyptar undirstöður og niðurrekstur á tréstaurum í suðurlínu. Árið 1983 tóku við smærri verk hér og þar. Kópaskerslína var reist í samstarfi við línuflokka Rarik 1984 og á árunum 1985 til 1988 var mest unnið í vegagerð fyrir Vegagerð Ríkisins. Stækkun Egilsstaðaflugvallar hófst 1988 og var unnið þar fram til ársins 1992.
Árið 1990 tók fyrirtækið að sér fyrsta strenglagningarverkefnið en það var plæging ljósleiðara frá Egilsstöðum til Vopnafjarðar fyrir Póst og síma. Á þeim tíma tíðkaðist að nota tvær jarðýtur við strenglagnir. Önnur bar strenginn og hin plægði hann í jörðina. Þessi aðferð var bæði dýr og áhættusöm því strengir slitnuðu auðveldlega ef eitthvað bar út af. Guðjón sá fljótt að þetta var óhentugt verklag. Hann hannaði því og smíðaði búnað sem gerði plægingarýtunni kleift að bera strengkeflið líka. Með þessari hönnun jókst öryggið við strenglagninguna um leið og umtalsverð hagræðing átti sér stað þar sem hægt var að fækka um eina jarðýtu í hverju verki. Vakti hönnun Guðjóns mikla athygli bæði hérlendis og hjá framleiðendum ýtunar erlendis. Aðferð hans hefur verið allsráðandi við strenglagnir síðan.
Eigendur, starfsfólk og tækjabúnaður
Árið 2006 urðu kaflaskil hjá fyrirtækinu en þá féll stofnandinn Guðjón Sveinsson frá um aldur fram eftir erfið veikindi. Sonur hans, Sveinn Guðjónsson, tók þá við rekstrinum og hefur stýrt honum síðan. Sveinn er lærður vélvirki og hefur einnig sótt námskeið í jarðlagnatækni. Hann hefur áratuga reynslu á öllum sviðum starfseminnar enda má segja að hann hafi alist upp í rekstrinum með föður sínum. Meðeigandi Sveins er Jón Örn Valsson sem sér um bókhald og fjármál. Hann kom að rekstrinum árið 1999 og starfaði með Guðjóni síðustu árin.
Starfsmannafjöldi Austfirskra verktaka hefur verið breytilegur eftir stærð og umfangi verkefna. Þegar fjöldinn var mestur voru þrjátíu starfsmenn á launaskrá. Á undanförnum árum hafa fjórir til tólf starfsmenn starfað hjá fyrirtækinu.
Austfirskir verktakar hf. eru vel tækjum búnir til flestra verka. Fyrirtækið er með starfsstöð í eigin húsnæði að Kauptúni 1 í Fellabæ. Þar er fyrsta flokks verkstæði fyrir vinnuvélarnar ásamt skrifstofu- og íbúðaraðstöðu fyrir starfsfólk.
Helstu verkkaupar
Meðal helstu verkkaupa Austfirskra vertaka hafa verið Fjarski, Landgræðslan, Landsnet, Isavia, Landsvirkjun, Lína Net, Míla, Orkubú Vestfjarða, Orkufjarskipti, Orkuveita Reykjavíkur, Póstur og sími, Rarik og fjölmörg sveitarfélög.
Verkefni og framtíðarsýn
Fjölbreytt verkefni, úrlausnir og framþróun varða sögu Austfirskar verktaka. Verkefnin hafa verið af ýmsum toga, s.s. flugvallagerð, fráveitur, gatnagerð, hafnargerð, háspennulínubyggingar, hitaveituframkvæmdir, húsbyggingar, niðurrekstur stálþilja, niðurrif húsa, sprengingar, strenglagnir, vegagerð og margt fleira. Hin síðari ár hafa Austfirskir verktakar sérhæft sig meir og meir í strenglögnum og er verkefnastaðan góð, enda hafa stjórnvöld sett sér metnaðarfull markmið um að koma sem mestu af strengjum í jörð á komandi árum. Árið 2018 fjárfesti fyrirtækið í öflugum línubor sem borað getur allt að 60 cm gat í jarðveginn og hefur borlengd upp á allt að 450 metra. Línuborinn gerir það t.d. að verkum að óþarft er að rjúfa vegi við strenglagnir og jarðrask í þéttbýli verður í lágmarki þegar leggja þarf lagnir eða strengi. Nýjasta sérhæfing fyrirtækisins snýr að niðurrifi húsa en slík verkefni krefjast sérhæfðs tækjabúnaðar og þekkingar vélamanna. Ljóst er að á komandi árum verður sífellt meiri þörf á að rífa niður gömul hús og byggja ný í staðinn. Stjórnendur Austfirskra verktaka líta því björtum augum til framtíðar og með tilhlökkun til þeirra fjölbreyttu verka sem unnin verða á komandi árum, viðskiptavinum og landsmönnum til heilla.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd