Áveitan ehf

2022

Fyrirtækið Áveitan ehf. var stofnað í Sandgerði þann 23. desember 1997 og hóf sitt fyrsta starfsár í janúar 1998. Áveitan er einkahlutafélag í eigu Haraldar Pálssonar og fjölskyldu og hefur í dag aðsetur að Njarðarnesi 4 á Akureyri. 
Fyrirtækið hefur sérhæft sig í alhliða pípulögnum ásamt ýmsu öðru er við kemur verkefnum í iðnaði. Fyrirtækið hefur frá stofnun aflað sér mikillar reynslu og sinnir þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki um allt land. Gildi fyrirtækisins eru framsækni, fagmennska og heiðarleiki.

Sagan
Í upphafi voru hjónin Haraldur Pálsson og Jóhanna Sólrún Norðfjörð einu starfsmenn fyrirtækisins.  Fljótlega fjölgaði starfsmönnum Áveitunnar og meðal fyrstu verkefna fyrirtækisins voru fyrir Hitaveitu Suðurnesja við orkuverið í Svartsengi, öll lagnavinna við nýbyggingu Heiðarskóla í Keflavík, öll lagnavinna við Schengenbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli, ásamt öðrum stórum og smærri verkum.
Á miðju ári 2002 flutti Áveitan starfstöð sína frá Sandgerði til Akureyrar, þar sem hún er nú og er megin starfsemin á Norðurlandi eystra. Starfsemin teygir sig þó víðar, þ.e. allt frá Norðurlandi- eystra til Búrkína Fasó í vestur Afríku. Frá árinu 2015 hefur Áveitan tekið þátt í þróunarstarfi á vegum ABC barnahjálpar í Búrkína Fasó í Vestur Afríku. Þar hefur verið borað eftir vatni og hafa starfsmenn Áveitunnar komið fyrir vatnsdælum, sólarsellum og vatnstönkum við stóran skóla sem ABC samtökin reka þar auk landbúnaðarskóla, ásamt því að kenna og skilja eftir þekkingu á svæðinu. Einnig hafa starfsmenn fyrirtækisins lagt þar allar nauðsynlegar áveitu- og neysluvatnslagnir. Fyrirtækið hefur einnig tekið að sér verkefni í Þýskalandi og Hollandi.
Gæðakerfi Samtaka iðnaðarins hefur verið innleitt hjá fyrirtækinu. Viðurkenningu Credit Info, fyrir það að vera framúrskarandi fyrirtæki, fékk Áveitan fyrst árið 2018 og síðan einnig 2019 og 2020.  Árið 2019 var fyrirtækinu boðið að vera með kynningu á þróunarstarfi sínu í Búrkína Fasó á málstofunni „Þátttaka fyrirtækja í þróunarsamvinnu“ og kynnti Jóhanna Sólrún Norðfjörð verkefnið þar fyrir hönd Áveitunnar.  Hjónin Haraldur og Jóhanna eru stjórnendur fyrirtækisins og er Haraldur framkvæmdastjóri og Jóhanna fjármálastjóri.

Starfsemin
Áveitan hefur tengsl við ýmsa stóra birgja, bæði innanlands og erlendis og getur þannig tryggt sem besta þjónustu og skjótan afgreiðslutíma þar sem það á við. Fyrirtækið er í tengslum við fjölda verktakafyrirtækja og hefur þar af leiðandi getað boðið upp á heildarlausnir við framkvæmdir, megin starfsemin var í upphafi og fyrstu árin, almennar pípulagnir, stór sem smá verk, sem enn er ein af grunnstoðum í rekstrinum. Með árunum hefur starfssviðið stækkað. Í dag er Áveitan þjónustuaðili fyrir slökkvikerfi hjá ýmsum fyrirtækjum og stofnunum, sér um viðhald og þjónustu  álþynnuverksmiðjunar TDK ásamt því að þjónusta hin ýmsu fyrirtæki, m.a. tryggingafélög, Fasteignir Akureyrarbæjar, Félagsbústaði Reykjavíkurborgar, PCC á Bakka, Norðurorku, Landsnet, Landsvirkjun, Slippinn á Akureyri ásamt útgerðarfélögum og fiskvinnslum um allt land, þar sem um er að ræða mjög sérhæfð verkefni. Einnig sér Áveitan um uppsetningu á þvottakerfum í samstarfi við Sani-Mist í Hollandi. Þvottakerfin eru hönnuð fyrir matvælaiðnaðinn og allan iðnað þar sem kröfur eru gerðar um mikinn þrifnað.

Aðstaða
Á síðast liðnum 22 árum hafa umsvifin oft verið mikil og verkefnin fjölbreytt. Fyrirtækið hefur vaxið jafnt og þétt og ávallt sniðið sér stakk eftir vexti. Verkstæði og aðstaða fyrir starfsmenn hefur verið allt frá því að komast fyrir í einum flutningabíl upp í núverandi staðsetningu sem er að Njarðarnesi 4 á Akureyri. Nú á haustmánuðum árið 2020 opnaði fyrirtækið starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirtækið er vel tækjum búið og starfsfólkið er framsækið og duglegt að kynna sér allar nýjungar.

Mannauður og framtíðarhorfur
Verkefnastaða Áveitunnar er góð og starfsandinn er einnig mjög góður. Á hverjum vinnustað eru það starfsmennirnir sem láta verkin ganga og hefur það alla tíð verið markmið hjá Áveitunni að skapa starfsmönnum gott fjölskylduvænt umhverfi. Ef ekki væri fyrir gott starfsfólk, væri engin starfsemi. Í dag eru starfsmenn fyrirtækisins 20 talsins, fyrir utan þá undirverktaka sem fengnir hafa verið til starfa, þegar stór verk eru í gangi.  
Menntun starfsmanna er mismunandi og hjá fyrirtækinu starfa pípulagningameistarar, pípulagningasveinar, pípulagninganemar, smiðir og stálsmíðameistarar ásamt öflugu starfsfólki sem heldur utan um reksturinn. Í dag er fyrirtækið eitt stærsta sinnar tegundar á Norðurlandi.  
Margir starfsmenn Áveitunnar hafa starfað lengi hjá fyrirtækinu og hafa áratuga reynslu sem nýtist vel í að bjóða viðskiptavinum góða þjónustu, þekkingu og fagleg vinnubrögð sem er ávallt markmið fyrirtækisins, ásamt gæðamálum.

Einkunnarorð starfsmanna eru:

,,Besta mál og fínar græjur“.

www.aveitan.is

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd