B Sturluson ehf – sala og flutningar

2022

Sagan
Í fyrstu snérist reksturinn um sölu á notuðum tækjum. Löndin sem tækin fóru til voru meginland Evrópu, Rússland, Afríka og Mið Austurlönd. Einnig voru keypt tæki erlendis, t.d. í Finnlandi og seld til annarra landa og þá helst til Rússlands. Eftir að hagkerfið fór að lagast eftir bankahrunið snérist reksturinn fyrst og fremst um innflutning tækja. B. Sturluson flutti inn tæki og þá mest frá Evrópu. Styrkur fyrirtækisins lág í yfirgripsmikilli þekkingu starfsmanna á tækjum sem og reynslu af því að vinna á þeim við ýmsar aðstæður. Fljótlega var farið í það að flytja inn sérsmíðaða flutningavagna frá Finnlandi sem voru hannaðir fyrir íslenskar aðstæður eftir tillögum Böðvars og starfsmanna hans. Þeir voru hannaðir til flutnings á sjávarfangi og vörum og hafa reynst gríðarvel hér á landi.

Flutningar
Um áramótin 2015 tók B. Sturluson við rekstri vöruafgreiðslu í Stykkishólmi og vöruflutningum fyrir Eimskip og Samskip á milli Stykkishólms og Reykjavíkur. Þessu er sinnt með daglegum ferðum þar sem ýmsar vörur, sjávarfang og -afurðir eru fluttar. Fyrirtækið sinnir einnig löndunarþjónustu, ýmis konar lyftaravinnu, sendibílaakstri, snjómokstri og hálkueyðingu fyrir aðila í Stykkishólmi. Þá sinnir fyrirtækið flutningum á fiski milli hafna á Snæfellsnesi, auk þess sem fiskur er fluttur til vinnslu milli landshorna, svo sem frá Siglufirði og af sunnanverðum Vestfjörðum til vinnslu á Snæfellsnesi.

Eigendur, aðsetur og tækjakostur
Fyrirtækið er að fullu í eigu hjónanna Böðvars Sturlusonar og Tinnu Ólafsdóttur. Böðvar er framkvæmdastjóri og stýrir öllum daglegum rekstri. Fastir starfsmenn eru 5 til 7 eftir árstíðum.
Skrifstofa og vöruafgreiðsla fyrirtækisins er á Nesvegi 13 en þar hefur verið rekin vöruafgreiðsla frá 1990. Hólmarar og nærsveitamenn þekkja því staðsetninguna mjög vel. Vöruafgreiðslan er búin frysti- og kæliklefum og góðri aðstöðu til lestunar og losunar bíla. Bílaflotinn telur 4 stóra flutningabíla með ýmis konar vögnum og gámagrindum. Bílarnir og vagnarnir eru útbúnir með kæli-og frystibúnaði til flutnings á ferskum fiski og freðnum afurðum. Fisk- og afurðaflutningar eru megin uppistaða í rekstri fyrirtækisins auk flutninga fyrir ferðaþjónustufyrirtæki, verslanir, byggingarverktaka, opinbera aðila og einstaklinga.

Framtíðarsýn
Stykkishólmur á framtíðina fyrir sér í hinum ýmsu atvinnugreinum sem nýta auðlindir Breiðafjarðar. Atvinnuhættir og menning mun dafna í Stykkishólmi á komandi árum og það má með sanni segja að Hólmurinn heilli.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd