Bakarmeistarinn er 45 ára gamalt fyrirtæki og á sér um margt mjög áhugaverða sögu. Nafn þess er vel þekkt og eins og nafnið ber með sér þá var fyrirtækið sett á laggirnar af bakarameistara, nánar tiltekið Sigþóri Sigurjónssyni og Jóhannesi Björnssyni, kollega hans. Sigþór hafði lært bakaraiðn norður á Húsavík en tók sig upp þaðan kornungur maður og flutti til Reykjavíkur með fjölskyldu sína, með tvær hendur tómar. Hann hóf störf hjá bakaríi Sandholts en fór fljótlega út í sjálfstæðan rekstur, þegar hann opnaði Laugarásbakarí við Laugarásveg. Hann kynntist kollega sínum Jóhannesi Björnssyni og þeir félagar ákváðu að stofna bakarí saman. Sigþóri var boðið hentugt húsnæði í Suðurveri til kaups, sem er þekkt verslunarmiðstöð við Stigahlíð á móts við Kringlumýrarbraut. Bolludagshelgina 1977 opnaði svo Bakarameistarinn með pompi og prakt og alla tíð síðan hefur verið mikill erill í Bakarameistaranum við Suðurver. Það var heldur þröngt rými til athafna í þeim enda hússins sem bakaríið var staðsett. Á þessum tíma voru enn starfandi mjólkurbúðir í Reykjavík sem seldu þessi klassísku íslensku brauð sem eldri kynslóðir ólust upp við en Bakarameistarinn ruddi brautina fyrir nýjungar í brauðbakstri og sætabrauði. Hinn svokallaða þýska lína í brauðbakstri varð fljótt vinsæl og skömmu síðar komu heilhveitihorn sem urðu uppáhald mjög margra. Bakarmeistarinn varð fyrstur til að bjóða upp á smurt brauðmeti sem nýtur mikilla vinsælda og er sérstakur hópur starfsfólks sem sér um það.
Árið 1983 áhvað Jóhannes að selja sinn hlut, og frá þeirri stundu hefur fjölskylda Sigþórs verið vakin og sofin yfir velferð fyrirtækisins. Önnur og þriðja kynslóð er komin að rekstrinum með einum eða öðrum hætti og enn, 45 árum síðar er Bakarameistarinn í vexti og hvergi slegið af hvað varðar metnað hvert sem litið er. Börn Sigþórs fóru ung að vinna í bakarínu og hafa öll komið að rekstrinum um einum eða öðrum hætti. Sigurbjörg Sigþórsdóttir framkvæmdastjóri Bakarameistans byrjaði að vinna þar 12 ára gömul og hefur starfað þar síðan.
Bakarameistarinn er dæmigert fjölskyldufyrirtæki sem hefur dafnað vel í höndum dugmikilla og ósérhlífinna einstaklinga sem hafa mikinn metnað til að bjóða góða vöru og persónulega þjónustu.
Vöxtur fyrirtækisins
1995 varð mikil breyting á þegar aukið rými bauðst í húsnæðinu í Suðurveri sem gaf möguleika á aukinni tæknivæðingu sem breytti vinnulagi og vinnutíma bakara til hins betra. Sjálfvirkni í forvinnslu og bakstri brauða var mikil bylting. Nú var ekki lengur þörf á því að bakarar þyrftu að vinna á næturnar. Fljótlega eftir þessa breytingu eða 1996 opnaði Bakarameistarinn í Mjóddinni bakarí og kaffihús en sú hugmynd fór mjög að ryðja sér til rúms víða um borgina. Á árunum 2002 til 2006 varð mjög hröð stækkun á fyrirtækinu. Á 25. afmælisárinu var opnað í Glæsibæ og í kjölfarið opnaði í Húsgagnahöllinni, Smáratorgi og Austurveri. Að auki áttu eftir að bætast við Flatahraun árið 2016 og Spöngin og Holtagarðar á haustmánuðum 2020.
Að sögn Sigurbjargar hefur Bakarameistarinn haft það fyrir reglu að stækka við sig í hægum skrefum og hafa vaðið fyrir neðan sig. Stækkunin þýddi vitanlega aukna framleiðslugetu. Í viðleitni sinni var unnið í því að fá úthlutað lóð undir húsnæði fyrir framleiðsluna en þegar bankahrunið dundi á var lóðinni skilað inn og ákveðið að bíða og sjá hver framvindan yrði.
Mannauður
Árangur Bakarameistarans má fyrst og fremst þakka frábæru metnaðarfullu starsfólki sem margt hvert hefur unnið hjá fyrirtækinu árum saman. Starfsmenn eru á bilinu 150 til 160 en heil störf teljast á milli 90 og 100 sem hafa skapast hjá fyrirtækinu. Margir eru í hlutastörfum; einkum ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Litið er á það sem mikilvægt uppeldishlutverk og hefur Bakarameistarinn sýnt mikinn metnað í því tilliti að fræða, þjálfa og upplýsa ungdóminn.
Framleiðsla og nýjungar
Þeir sem standa í brúnni eru alltaf á vaktinni og sjá til þess með vökulum augum að allt sé eins hreint, snyrtilegt, faglegt og uppfylli ströngustu gæðakröfur. „Fylgjast með og vera á tánum“ eru einkunnarorð Sigurbjargar. Enda sífelldar nýjungar að skjóta upp kollinum og tískustraumar sem flæða yfir. Nú eru súrdeigsbrauð í tísku, áður voru það durumhveiti, ítölsk brauð, spelt o.s.frv. Það kemur alltaf eitthvað nýtt og þá þarf að fylgja meginstraumnum eða jafnvel finna upp á einhverju nýju sem gæti fallið að smekk neytenda.
Bakarameistarinn hefur þá sérstöðu að það er bakað á staðnum í öllum búðum fyrirtækisins, en þær eru í dag einar níu talsins.
Sókn í bakaraiðnina er talsverð og þeir sem vilja læra bakstur geta komist á samning hjá meistara. Nýtt kerfi hefur verið tekið upp en það á eftir að reyna á það. Atvinnutækifærin eru til staðar, en starf bakarans hefur aldrei verið auðvelt. Það þarf sannarlega dugnað og elju en hin þingeyskættaða fjölskylda og afkomendur Sigþórs Sigurjónssonar hafa sýnt og sannað hve langt er hægt að komast á því.
Framtíðarsýn
Framtíðarsýn Bakarameistarans er sú að fyrirtækið haldist í fjölskyldunni og haldi áfram á sömu braut. Fyrirtækið fagnar 45 ára starfsafmæli á árinu og það er búið að festa kaup á framleiðsluhúsnæði í Grafarvogi sem verður tekið í notkun innan fimm ára og þá verður öll framleiðslan og öll starfsemi flutt þangað.
Óhætt er að óska Bakarameistaranum til hamingju með áfangann sem verður þar með kominn í hóp rótgróinna fyrirtækja ef svo mætti að orði komast.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd