Barki ehf. er mörgum iðnaðarmanninum að góð kunnur og hefur frá árinu 1983 sérhæft sig í innflutning og sölu á allskyns slöngum, börkum og tengjum ásamt loft- og vökvabúnaði. Barki þjónustar fjölbreytt svið atvinnugreina og þar á meðal má nefna sjávarútveginn, landbúnaðinn og áliðnaðinn. Vöruúrvalið er mikið, eða yfir 23.000 vörunúmer. Barki er fjölskyldufyrirtæki í eigu Kristins Valdemarssonar og Erlu Gerðar Matthíasdóttur. Hjá Barka starfa 15 starfsmenn og þar á meðal tvö börn Kristins og Erlu. Margir starfsmenn Barka hafa langan starfsaldur innan fyrirtækisins og sumir hafa verið þar nánast frá upphafi.
Upphafið
Barki ehf. var stofnað snemma árs 1983 af þeim Kristni Valdemarssyni og Ólafi Þorsteinssyni ásamt konum þeirra Erlu Gerði Matthíasdóttur og Vilhelmínu Þorsteinsdóttur. Verslunin var opnuð í 200 m2 leiguhúsnæði á Nýbýlavegi 22 í Kópavogi og hefur verið þar allar götur síðan. Í upphafi var áherslan á innflutning á allskyns slöngum og tengjum. Ekki var mikið vöruúrval í byrjun og fyrstu slöngurnar seldust um leið og þær komu inn á gólf.
Kristinn og Ólafur þekktu markaðinn vel þar sem þeir störfuðu báðir hjá Landvélum. Fljótlega voru þeir búnir að auka vöruúrval með allskyns slöngum, börkum, tengjum og fleiru. Aðeins síðar fóru þeir að selja vökva og loftbúnað. Næstu árin óx starfsemi Barka jafnt og þétt en árið 1988 tóku Kristinn og Erla alfarið við rekstrinum skildu þá leiðir hjá Kristni og Ólafi eftir fimm ára samstarf.
Í kjölfar þessara breytinga var haldið áfram að auka vöruúrval og kappkostað við að veita sem besta þjónustu ásamt því að bjóða gæða vöru, t.d. Fassi krana sem margir þekkja af bílum, skipum og bryggjum víða um land. Árið 1992 kaupir Barki fyrirtækið Vélvang sem sérhæfði sig í vörubílahlutum og juku þar með vöruflóru sína talsvert.
Árið 1997 opnaði Barki útibú í Hafnafirði til að auka þjónustu. En sú verslun brann ári eftir opnun. Ákveðið var að endurbyggja ekki þá verslun heldur halda sínu striki á Nýbýlaveginum.
Upp úr aldamótum má segja að rekstur Barka hafi tekið að blómstra en þá hafði fyrirtækið bætt við sig lagerplássi og aukið vöruúrval svo um munaði. Í stað þess að leita að nýju og stærra húsnæði fyrir hinn ört stækkandi rekstur var brugðið á það ráð að fjárfesta í nærliggjandi húsnæði og halda Barka á sínum heimaslóðum.
Nútíminn
Barki er eitt stærsta fyrirtækið á sínu sviði hérlendis og veitir góða og örugga þjónustu. Samstarfs- og dreifingaraðilar um land allt telja nokkra tugi og vörur frá Barka eru notaðar í flestar stórframkvæmdir sem ráðist er í á Íslandi. Helstu verkefni eru að selja og veita ráðgjöf varðandi barka og slöngur í allan iðnað sem unnið er við hérlendis. Í Barka starfa sérfræðingar í slöngusmíði og smíða þeir slöngur fyrir loft, vatn, bremsur, eldsneyti, matvæli og margt annað í þúsunda tali árlega. Úrval vökvabúnaðar er einnig umtalsvert.
Framtíðin
Árið 2016 opnaði Barki nýja og glæsilega verslun í Dalbrekku 21 í Kópavogi og er lagerhúsnæði Barka orðið um 3160 fermetrar. Með tilkomu nýrrar verslunar og aukins lagerrýmis hefur skapast grundvöllur fyrir enn betra og fjölbreyttara vöruúrvali og mun Barki halda áfram á þeirri braut að hlusta á og þjóna þörfum viðskiptavina sinna. Barki hefur verið á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki frá upphafi og á síðast liðnum 36 árum staðið af sér allar þær lægðir og öldu dali sem íslenskt efnahagslíf hefur haft upp á að bjóða og stendur nú traustum fótum með mikið vöruúrval til þjónustu fyrir iðnað og einstaklinga um ókomin ár.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd