Um barnavernd er fjallað í barnaverndarlögum. Markmið laganna er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Leitast skal við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við.
Barnaverndarstofa er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra og annast stjórnsýslu á því sviði sem barnaverndarlög ná til. Stofan vinnur að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs í landinu og veitir barnaverndarnefndum fræðslu og ráðgjöf og hefur eftirlit með starfi þeirra. Stofan veitir einnig almenningi upplýsingar og fræðslu um starfsemi barnaverndaryfirvalda með sérstakri áherslu á að kynna þær skyldur sem hvílir á almenningi samkvæmt barnaverndarlögum.
Barnaverndarstofa hefur yfir fjölþættum úrræðum að ráða sem barnaverndarnefndir geta sótt um:
MST er meðferðarúrræði fyrir fjölskyldur barna á aldrinum 12-18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda. Meðferðin felst fyrst og fremst í að auka færni foreldra til að takast á við vanda barna sinna og fer fram á heimili fjölskyldunnar.
Meðferðarheimilið Stuðlar skiptist í tvær deildir meðferðardeild og lokaða deild. Á meðferðar-deild fer fram greining á vanda barna og meðferð. Starfsfólk barnaverndar eða lögregla í samráði við starfsfólk barnaverndar getur vistað börn á lokaðri deild í allt að 14 daga. Á lokaðri deild fer fram gæsla og mat á stöðu barns.
Meðferðarheimili Barnaverndarstofu eru tvö, staðsett á landsbyggðinni, Laugaland í Eyjafjarðarsveit og Lækjarbakki á Rangárvöllum. Á meðferðarheimilunum eru vistuð börn á aldrinum 13-18 ára og geta ástæður vistana verið hegðunarröskun, afbrotahegðun, ofbeldi og vímuefnaneysla.
SÓK-meðferð er sálfræðiþjónusta fyrir börn vegna óviðeigandi kynhegðunar.
Barnahús sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi.
Sérfræðingateymi vegna barna með alvarlegar þroska- og geðraskanir skal vera sveitarfélögum til ráðgjafar um viðeigandi þjónustu við börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir.
Þjálfun fósturforeldra fer fram hjá Barnaverndarstofu.
Á heimasíðu Barnaverndarstofu, bvs.is, má lesa nánar um úrræðin.
Skýrslur Barnaverndarstofu
Barnaverndarstofa gefur reglulega út skýrslur með tölulegum upplýsingum um barnavernd sem birtar eru á heimasíðu Barnaverndarstofu á bvs.is. Þar má nálgast upplýsingar um fjölda tilkynninga, fjölda barnaverndarmála, fjölda barna í úrræðum og fleira. Tölulegar upplýsingar um barnavernd eru afar mikilvægar til að fylgjast með þróuninni í málaflokknum á hverjum tíma og þannig að hægt sé að bregðast breytingum. Þess má geta að Barnaverndarstofa hefur fylgst vel með þróun mála hjá barnaverndarnefndum frá því covid 19 faraldurinn hófst, en tilkynningum til barnaverndarnefnda hefur fjölgað mikið á tímabilinu.
Mannauður
Við lok árs 2020 störfuðu hjá Barnaverndarstofu alls 107 starfsmenn í 99,5 stöðugildum. Framkvæmdastjórn stýrir daglegum rekstri Barnavendarstofu og ber ábyrgð á að móta og innleiða stefnu í málefnum stofunnar en forstjóri Barnaverndarstofu er Heiða Björg Pálmadóttir.
Einkunnarorð Barnaverndarstofu eru: Stöndum vörð um öll börn
Grunnþjónustan í barnaverndarstarfi fer fram hjá barnaverndarnefndum í sveitarfélögunum. Sveitarfélög eru með fjölbreytt stuðningsúrræði en geta einnig sótt um sérhæfð meðferðarúrræði til Barnaverndarstofu.
Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Það sama á við ef ástæða er til að ætla að heilsu eða lífi ófædds barns sé stefnt í hættu. Tilkynna skal til barnavendarnefndar þar sem barn býr eða hafa samband við neyðarlínuna í síma 112. Upplýsingar um allar barnaverndarnefndir má nálgast á heimasíðu Barnaverndarstofu bvs.is.
Í barnaverndarstarfi skal beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu og skal taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til. Barnaverndaryfirvöld skulu leitast við að hafa góða samvinnu við börn og foreldra. Tilteknum ákvörðunum barnaverndarnefnda má skjóta til úrskurðarnefndar velferðarmála en ákvarðanir um alvarlegar ráðstafanir í lífi barns fara fyrir dómstóla.
COVID-19
Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði um 20% á árinu 2020 síðan kórónuveiru-faraldurinn hófst. Forstjóri Barnaverndarstofu segir að það sé langtímaverkefni fyrir barnaverndarkerfið að vinda ofan af þeim áhrifum sem faraldurinn hefur haft á börn.
Í árslok 2020 sagði Heiða Björg Pálmadóttir forstjóri Barnaverndarstofu fyllstu ástæðu til að hafa áhyggjur af mikilli fjölgun tilkynninga til barnaverndarnefnda. Hún sagði kórónuveirufaraldurinn spila þar stórt hlutverk og að bætt hafi verið við starfsfólki barnaverndanefnda undanfarna mánuði og starfsemi þeirra styrkt.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd