Basalt arkitektar ehf

2022

Árið 2009 stofnuðu Sigríður Sigþórsdóttir, Haraldur Sigurðsson og Ene Cordt Andersen Basalt arkitekta, að Mýrargötu 12 í Reykjavík. Í dag eru eigendur auk Sigríðar, þeir Hrólfur Karl Cela og Marcos Zotes og er stofan nú til húsa að Grandagarði 14. Starfsemi Basalt arkitekta hefur vaxið jafnt og þétt frá því að vera fimm starfsmenn í upphafi til þess að vera mest 20 og starfa nú 17 manns á stofunni.  Gríðarlegur mannauður býr í fjölbreyttum og samhentum hóp arkitekta, byggingafræðinga, innanhússhönnuða og starfsnema.
Basalt arkitektar eru meðlimir í Samtökum arkitektastofa, Samark, og stofnaðilar Grænni byggðar. Eigendur Basalt arkitekta hafa gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum í þágu stéttar sinnar. Má þar nefna stjórnarsetu í Arkitektafélagi Íslands, Samark, Grænni byggð, Listskreytingasjóði Íslands og Hönnunarsjóði Íslands. Þeir hafa jafnframt setið í dómnefndum samkeppna og unnið við stefnumótun á sviði mannvirkjagerðar á Íslandi.
Starfsumhverfi arkitekta, ekki síst á Íslandi, kallar á þverfaglega samvinnu. Í hverju verkefni er leitast við að stilla upp teymi sem uppfyllir best þarfir þess. Basalt arkitektar eiga í góðu samstarfi við hönnuði og framkvæmdaaðila, bæði á Íslandi og erlendis, þ.m.t. við aðra arkitekta, verkfræðinga, ljósvistarhönnuði, hljóðvistarhönnuði, landslagsarkitekta, innanhússarkitekta, margmiðlunarhönnuði, listamenn o.fl.
Frá upphafi hafa Basalt arkitektar lagt áherslu á umhverfismál í hönnun sinni. Stofan vinnur að fjölda umhverfisvottaðra bygginga, bæði með Breeamvottun og Svansvottun. Umhverfisváin er mesta ógn er steðjar að heiminum í dag og vistvæn nálgun því gríðarlega mikilvæg í öllum þáttum hönnunar, umhverfislegum, félagslegum og hagrænum.
Vinna Basalt arkitekta einkennist af metnaði, fagmennsku og næmni gagnvart viðfangs-efninu. Áhersla er lögð á að uppfylla þarfir og væntingar verkkaupa og notenda. Hvert verkefni hefur sínar einstöku áskoranir. Hönnunarnálgunin felst í að draga fram hið einstaka í hverju verki; á sviði náttúru, umhverfis, menningar, tækni og sögu, og miðla því á tungumáli byggingarlistar. Verkin hafa ríka skírskotun í samhengi sitt og upplifun notenda er í fyrirrúmi.

Verkefni
Verkefni Basalt arkitekta eru fjölbreytt og ná til hönnunar skipulags, bygginga, innréttinga, sýninga og vöruhönnunar og er að finna í öllum landshlutum.
Sigríður Sigþórsdóttir er aðalhönnuður Bláa Lónsins frá upphafi og í kjölfarið hafa Basalt arkitektar unnið að fjölmörgum baðstöðum. Má þar nefna alla áfanga Bláa lónsins, nú síðast Retreat við Bláa lónið, sundlaugina á Hofsósi, Sjóböðin Geosea á Húsavík, Jaðarsbakkalaug og Guðlaugu á Akranesi og Vök Baths í nágrenni við Egilstaði. Í bígerð eru fleiri baðverkefni, t.a.m. Fjallaböð í Þjórsárdal, Skógarböð í Eyjafirði og endurgerð Jarðbaðanna á Mývatni.
Síðan 2015 hafa Basalt arkitektar, sem hluti af hönnunarhópnum Corpus 3, með Hornsteinum, VSÓ, Lotu og erlendum ráðgjöfum, unnið að hönnun nýs meðferðarkjarna Landspítalans og rannsóknarhúss. Þar er um að ræða eina stærstu og flóknustu framkvæmd Íslandssögunar en framkvæmdir við meðferðarkjarnann eru nú hafnar. Af öðrum verkefnum í heilbrigðis-geiranum má nefna hjúkrunarheimili á Höfn í Hornafirði sem framkvæmdir hefjast við 2021.
Basalt hafa unnið að verkefnum tengdum ferðamannaiðnaðinum á Íslandi. Utan baðstaðanna má nefna hótelbyggingar, þ.m.t. þrjú hótel Fosshótela, við Vatnajökul, Mývatn og Reykholt.
Fyrstu áfangar Waldorf skólans í Sóltúni hafa risið og hönnun fyrir Listaháskóla Íslands í Laugarnesi hefur staðið yfir jafnt og þétt. Vinna við húsnæði Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri hefur jafnframt staðið yfir um árabil. Snemma árs 2021 fer af stöð hönnun nýs leikskóla og fjölskyldumiðstöðvar miðborgar við Njálsgötu í Reykjavík.
Af menningartengdum verkefnum má nefna sýningu um Jón Sigurðsson á Hrafnseyri við Arnarfjörð, sem var eitt af fyrstu verkum stofunnar. Lava Centre á Hvolsvelli hýsir sýningu um jarðfræði og eldvirkni Íslands en þar voru Basalt arkitektar bæði arkitektar hússins og hönnunarstjórar sýningar. Sumarið 2020 lauk framkvæmdum við Óðinstorg í Þingholtunum. Hönnun á viðbyggingu við Árbæjarkirkju stendur yfir sem hýsa mun nýtt safnaðarheimili.
Basalt arkitektar hafa unnið að fjölda verkefna fyrir verslanir, þjónustu og skrifstofur. Viðamesta verkefni Basalt af þeim toga er húsnæði fyrir Reginn við Lágmúla en sú bygging mun marka spor í sögu húsagerðar á Íslandi sem hæsta timburbygging landsins.
Allmörg einbýlishús og sumarhús hafa verið hönnuð og byggð frá stofnun Basalt en stærsta verkefni á sviði íbúðahúsnæðis er í byggingu á Nónhæð í Kópavogi, alls 140 íbúðir.

Verðlaun
Basalt arkitektar hafa unnið til fjölmargra innlendra og erlendra verðlauna og viðurkenninga frá stofnun, þ.m.t. Hönnunarverðlaun Íslands fyrir framlag sitt til baðmenningar á Íslandi, aðalverðlaun Architecture Masterprize, Red Dot Best of the Best og tilnefningar til Mies van der Rohe Evrópuverðlaunanna í byggingarlist. Verk Basalt hafa verið birt á alþjóðlegum vettvangi og fjallað hefur verið um þau í fjölmörgum fyrirlestrum utan landsteinanna og innan.

Grandagarði 14
101 Reykjavík
5151400
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd