Bergur ehf.

2022

Bergur ehf. var stofnað árið 1954 af Magnúsi Bergssyni og Kristni Pálssyni. Árið 1966 keypti Sævald Pálsson bróðir Kristins, Magnús Bergsson út úr fyrirtækinu. Á fyrstu árum útgerðarinnar var Kristinn Pálsson skipstjóri á Berg VE 44 og Sævald stýrimaður. Eftir að Kristinn fór í land tók Sævald alfarið við skipstjórn á skipinu. Árið 1972 var útgerðarfélagið Bergur-Huginn stofnað en að því stóðu útgerðarfélögin Bergur hf. og Huginn hf. og var megin tilgangur hins sameinaða félags að festa kaup á skuttogara og hefja útgerð hans. Þeir bræður Kristinn og Sævald Pálssynir, útgerðarmenn frá Þingholti í Vestmannaeyjum, renndu hýru auga til skuttogaraútgerðar og fengu mág sinn, Guðmund Inga Guðmundsson útgerðarmann Hugins Ve 55, til liðs við sig og saman stofnuðu þeir útgerðarfélagið Berg-Hugin ehf. sem síðan festi kaup á skuttogaranum Vestmannaey VE 54. Árið 1983 keyptu Sævald og kona hans Svava Friðgeirsdóttir útgerð Bergs af Kristni. Þeir bræður höfðu átt farsælt samstarf í mörg ár þar til Sævald tók yfir útgerð Bergs. Sævald kaupir Berg þar sem á þessum tíma var verið að kaupa togskiptið Bergey frá Ólafsvík og komnar upp hugmyndir um að selja Berg VE 44 og snúa sér alfarið að togveiðum. Á þeim tímapunkti ákvað Sævald að fara út úr rekstrinum með Berg VE og stofna sína eigin útgerð. Alla tíð stóð eiginkona Sævalds, Svava Friðgeirsdóttir við hlið Sævalds og mátti segja að hún hafi verið í mörg ár útgerðarstjóri í raun þó titillinn hafi ekki verið opinber, en með árunum komu börnin meira og meira að rekstrinum bæði á sjó og á landi.

Eigendur og aðsetur
Eigendur Bergs eru Sævald Pálsson og Svava ásamt börnum þeirra: Elíasi Geir, Sigurgeiri, Grétari Þór, Ásdísi og Ernu. Elías Geir er útgerðarstjóri og Ásdís fjármálastjóri. Í stjórn Bergs sitja: Sævald, Elías, Ásdís og Sigurgeir. Bergur ehf hefur alla tíð verið til húsa í Vestmanna-eyjum og skrifstofa er nú í húsnæði við Strandveg.

Skipin sem útgerðin átti eru nokkur
Fyrsti Bergur var smíðaður í Svíþjóð 1944, keyptur til Eyja 1954, sökk á Faxaflóa haustið 1962. Mannbjörg varð en litlu mátti muna. Bergur númer tvö var smíðaður í Noregi 1963 og seldur 1979 og varð þá Katrín VE. Bergur númer þrjú var smíðaður í Þýskalandi 1964. Hann var keyptur 1977 og seldur 1989, Bergur númer fjögur var smíðaður í Noregi 1967 og keyptur til Eyja 1989, árið 2000 lauk miklum breytingum á honum. Bergur númer fimm var smíðaður 1998, var keyptur til Eyja 2005 og er enn í fullri drift. Fjórða Berg var breytt þrisvar sinnum og í hvert sinn var allt að því um nýtt skip að ræða, árið 1996-1997 fór skipið til Póllands og var skipt um skrokk á skipinu og það stækkað úr 500 tonnum í 1200 tonn. Eftir það var skipt um vél og sett ný brú og skipið var breikkað um þrjá metra. Eftir þetta gat skipið einnig stundað flottrollsveiðar með öflugri vél og nýjum togspilum en áður var það einungis gert út á nót. Á þessum árum með þetta skip, voru stundaðar uppsjávarveiðar með nót og flottrolli. Sævald var enn skipstjóri á þessum árum en tveir af sonum hans voru á Berg, allir synirnir þrír eru með skipstjóra- og stýrimannaréttindi og tóku við af föður sínum. Árið 2005 urðu kaflaskil í sögu Bergs ehf. þegar ákveðið var að selja Ísfélagi Vestmannaeyja skip og aflaheimildir í uppsjávarfiski og fara í bolfiskútgerð. Skipta út uppsjávarskipi fyrir togara, í október 2005 kom sá Bergur sem enn er í útgerð í dag, togskip sem hefur reynst mjög vel. Á því skipi voru þeir bræður Gretar og Sigurgeir skipstjórar til skiptis.
Í gegnum árin hefur útgerðin gengið upp og niður, þar hefur áhrif ástand á mörkuðum, aðstæður í samfélaginu, aflabrögð annars vegar og hins vegar afskipti stjórnmálamanna af sjávarútvegi, ekki alltaf verið fast í hendi hvernig aðstæður voru frá ári til árs. Erfiðleikar hafa komið upp í gegnum árin og eitt það erfiðasta sem útgerðin gekk í gegnum var árið 1991 þegar Bergur 4, brann við bryggju í einni landlegu og skipsmaður lést, hann hafði verið um borð í bátnum um nóttina, þetta reyndi mikið á starfsmenn Bergs á þeim tíma. Á tímabili kom upp hugmynd um að fjölga skipum útgerðarinnar og Örn VE 244, 113 tonna togveiðiskip var keypt, en stuttu áður hafði Bergur verið endurnýjaður, keypt var loðnuskip frá Grindavík sem var nýbúið að breyta með nýjum spilum, töluvert stærri vél og með útslegið afturskip. Hitt skipið var selt norður í land. Það urðu breytingar á kvótakerfinu stuttu eftir að Örn Ve var keyptur. Sóknarmark var afnumið og öll skip sett á aflamark, þannig að reksturinn gekk ekki vegna lítls kvóta og skipið var því selt til Stokkseyrarútgerðar Hásteins ÁR. Í stað hans kom frá þeirri útgerð 50 tonna trébátur sem fékk nafnið Andri VE 244, hann var gerður út í stuttan tíma, m.a. á humarveiðar. Þessi tilraun Bergs ehf. til að auka sinn flota gekk ekki. Eftir það hélt útgerðin sig við sitt eina skip Berg VE 44.

Mannauður
Mannskapur hjá útgerðinni hefur verið fjölbreyttur og mikið af góðu starfsfólki og góðum sjómönnum um borð í gegnum árin. Undanfarin ár hefur sami kjarninn verið um borð í Berg og við stjórnvölin. Bræðurnir Sigurgeir og Grétar, Ásdís á skrifstofunni, Elías útgerðarstjóri og svo hefur næsta kynslóð tekið við. Um borð hafa barnabörn Sævalds, þeir Kristgeir Orri Grétarson og Einar Ottó Hallgrímsson báðir menntaðir stýrimann, verið undanfarin ár. En þar sem skipið hefur aðeins verið gert út hluta af ári, hefur mannskapurinn aðeins verið breytilegur, en sem fyrr segir sami kjarninn haldist.

Framtíðin
Breytingar eru framundan hjá útgerðarfélaginu Bergui ehf. En þann 24. október 2020 var undirritaður samningur um kaup Bergs-Hugins ehf. á útgerðarfélaginu Bergi ehf. í Vestmannaeyjum. Saga Bergs-Hugins og Bergs sé samofin en upphaf hennar má rekja til ársins 1954 þegar vélbáturinn Bergur VE 44 var keyptur til Vestmannaeyja, en þá var Bergur hf. stofnað af þeim Kristni Pálssyni og Magnúsi Bergssyni tengdaföður hans. Sem fyrr segir fór Sævald út út rekstrinum árið 1983 og stofnaði sína eigin útgerð Berg ehf. Sævald Pálsson stundaði sjómennsku í rúma hálfa öld, var skipstjóri í rúm 40 ár og hann ásamt fjölskyldu sinni voru í útgerð í 37 ár. Hann og fjölskyldan hafa alla tíð unnið við sjávarútveginn og skilað sínu til samfélagsins í Vestmannaeyjum, en nú er komið að kaflaskilum þar sem fjölskyldan skilur sátt við eftir öll þessi ár.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd