Byggingarfélagið Bestla ehf.

2022

Bestla byggingarfélag er ungt félag sem var stofnað árið 2014. Síðan þá hefur félagið vaxið hratt og á skömmum tíma afhent um 34.000 fermetra af atvinnu-, þjónustu- og íbúðarhúsnæði auk þess að vera með ríflega 42.000 fermetra í þróun og byggingu. Hjá okkur starfar öflugt teymi fagaðila sem hefur fjölbreyttan bakgrunn á sviði hönnunar og byggingu fasteigna.

Fyrirtæki innan fjölskyldunnar
Bestla byggingarfélag var stofnað í mars 2014. Upphaflega er félagið fjölskyldufyrirtæki, stofnað af þeim feðgum Garðari Erlendssyni, verktaka og blikksmíðameistara og Jóni Ágústi Garðarssyni, blikksmíðameistara og véla- og orkutæknifræðingi og framkvæmdastjóra Bestlu. Árið 2016 bættist Guðjón Helgi Guðmundsson húsasmíðameistari, í eigandahópinn og gegnir hann stöðu stjórnarformanns. Árið 2019 fór Garðar á eftirlaun og nýtur nú efri áranna í einu af fjölbýlum Bestlu í Kópavogi.

Fólkið okkar
Bestla fylgir ströngustu gæðakröfum við framkvæmd bygginga. Við höfum á að skipa öflugu teymi sem samanstendur af tæknifræðingum, verkefnastjórum, viðskiptafræðingum, húsasmíða-, blikksmíða-, pípulagninga- og málarameisturum ásamt ráðgjöfum. Saman búum við að gríðarlegri reynslu á sviði hönnunar, þróunar, byggingar og eftirfylgni fasteigna. Fastráðnir starfsmenn hjá Bestlu eru 27 talsins en á hverju ári vinna um 80 undirverktakar hjá okkur í fullu starfi. Við veljum með okkur reynslumikið fólk og leggjum mikla áherslu á að rækta samstarf við trausta fagaðila sem stunda vönduð vinnubrögð.

Öflug uppbygging
Fyrsta eignin í eigu Bestlu var fjölbýli við Boðaþing 2-4 í Kópavogi, sem félagið keypti fullbúið að utan. Með kaupunum eignuðumst við okkar fyrstu íbúðir, 28 talsins. Fyrsta fjölbýlishúsið sem Bestla byggði frá grunni er við Álalind 10 í Kópavogi. Í framhaldinu var farið í framkvæmdir á 11 hæða fjölbýlishúsi við Bæjarlind 5 í Kópavogi með alls 45 íbúðum og síðar á 57 íbúða fjölbýlishúsi við Álalind 18-20. Í fyrsta áfanga í Glaðheimahverfi hefur Bestla því byggt þrjú fjölbýlishús með alls 113 íbúðum, eða um þriðjung íbúða í þessum fyrsta áfanga Glaðheimahverfis. Við erum mjög stolt að hafa átt svo stóran þátt í uppbyggingu á nýju og glæsilegu hverfi í Kópavogi. Á Akranesi var árið 2020 lokið við framkvæmdir á þjónustumiðstöð og 26 íbúðum fyrir aldraða við Dalbraut 4. Í dag eru framkvæmdir á Akranesi við tvö fjölbýlishús við Þjóðbraut 3 og 5, með alls 76 íbúðum. Frá stofnun Bestlu fyrir sjö árum höfum við byggt 4 eignir frá grunni, tekið við og klárað sex verkefni og afhent alls 189 íbúðir eða 30.400 fermetra af vönduðum eignum.

Byggt í heimabyggð
Höfuðstöðvar Bestlu eru við Akralind 8 í Kópavogi. Enn sem komið hefur félagið nær eingöngu byggt í Kópavogi en okkur varð snemma ljóst að bæjarfélagið stundar fagleg og nákvæm vinnubrögð sem falla vel að starfsemi Bestlu. Við leggjum mikinn metnað í að kaupendur fái íbúðirnar sínar afhentar á réttum tíma og þá vegur þungt skilvirkni allra þeirra sem að ferlinu koma. Að auki kýs Bestla að byggja hús sem eru hluti af vel skipulögðum hverfum. Vönduð íbúð í traustu húsi er enn verðmætari ef hún er staðsett í umhverfi þar sem fólk dafnar líka utan steyptra veggja heimilisins. Uppbygging Kópavogs hefur verið mikil síðustu ár og við erum afar þakklát að hafa fengið að vera þátttakendur í þeirri vegferð.

Frá Hvarfahverfi til Akraness
Bestla er í dag með tvö stór verkefni í þróun. Annað þeirra brýtur upp hefðina og færir okkur alla leið til Akraness en hitt er í heimahögunum í Hvörfunum í Kópavogi.
Árið 2018 undirritaði Bestla samning við Akraneskaupstað um byggingu 1.330 fermetra þjónustumiðstöð fyrir aldraða við Dalbraut 4. Um er að ræða fimm hæða hús með 26 íbúðum, þjónustu- og verslunarrýmum á fyrstu hæð auk bílakjallara. Afhending íbúða og þjónusturýmis fór fram sumarið 2020. Í framhaldi mun Bestla reisa til viðbótar tvö fjölbýli á samliggjandi reitum milli Dalbrautar og Þjóðbrautar. Alls verða 76 íbúðir í húsunum. Einnig er Bestla með í þróun 3.100 fermetra atvinnuhúsnæði við Tónahvarf í Kópavogi sem verður hannað fyrir rekstur stærri og smærri fyrirtækja.

Horft til framtíðar
Hluti af okkar framtíðarsýn felst í að tryggja að öll okkar verkefni séu byggð eftir sömu forskrift. Við viljum að viðskiptavinir okkar geti treyst því að við fylgjum ströngustu gæðakröfum og séum sífellt að uppfæra og betrumbæta verkferlana okkar. Með stöðugum umbótum getum við markvisst byggt traustari stoðir fyrir öfluga atvinnustarfsemi og vönduð heimili fyrir blómlega og blandaða byggð eldri og yngri kynslóða.

Bestla er styrktaraðili handknattleiksdeildar HK. Með því viljum við styðja öflugt ungmenna- og íþróttastarf í þeim bæjarfélögum sem við störfum í.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd