BHM – Bandalag háskólamanna

  • 2025
    BHM – Breytingar og barátta fyrir réttindum
    [acf_repeater_gallery repeater="company_timeline" gallery="section_images"]

    Á undanförnum árum hefur Bandalag háskólamanna lagt áherslu á kjaramál og réttindi félagsmanna. Ný framkvæmdastjórn tók við árið 2022, og undirbúningur „Jafnréttissamningsins“ hófst í kjölfarið. Árið 2023 var samið um framlengingu kjarasamninga við ríki og sveitarfélög, en samtökin hafa jafnframt gagnrýnt stöðnun kaupmáttar og aukna fjárhagslega óvissu meðal háskólamenntaðra.

    BHM hefur endurskipulagt sjóðakerfi til að einfalda styrkveitingar og tryggja gagnsæi, auk þess að efla þjónustu og stafræna lausnir fyrir félagsmenn. Samstarf við stúdentasamtök hefur verið styrkt, og bandalagið hefur tekið virkan þátt í opinberri umræðu um jafnrétti og velferð á vinnumarkaði.

  • 2025
    BHM ræður Pálu

    Pála Hallgrímsdóttir var ráðin sem kynningarstjóri BHM. Pála kemur frá Veðurstofu Íslands þar sem hún var samskiptafulltrúi.

  • 2022
    Samantekt úr Ísland 2020, atvinnuhættir og menning
    [acf_repeater_gallery repeater="company_timeline" gallery="section_images"]

    Bandalag Háskólamanna, BHM, var stofnað árið 1958 og eru regnhlífarsamtök fag- og stéttarfélaga háskólamenntaðs fólks á íslenskum vinnumarkaði. Í BHM eru 27 aðildarfélög með 16 þúsund félagsmenn sem vinna fjölbreytt sérfræðistörf á öllum sviðum samfélagsins bæði hjá hinu opinbera og á almennum markaði. Í krafti fjöldans og fjölbreytninnar stendur BHM vörð um mikilvægi hugvits, sérfræðikunnáttu og menntunar.
    Á mildum haustdegi árið 1958 komu sautján manns, allt karlar, saman á gömlu kennarastofunni í aðalbyggingu Háskóla Íslands. Þetta voru fulltrúar ellefu félaga háskólamenntaðs fólks með samtals um tólf hundruð félagsmenn innan sinna raða. Tilgangur fundarins var að stofna samtök þessara félaga í því skyni að efla samheldni háskólamenntaðs fólks á Íslandi og gæta hagsmuna þess gagnvart innlendum og erlendum aðilum.
    Samtökin sem stofnuð voru á þessum degi, 23. október 1958, hlutu nafnið Bandalag háskólamenntaðra manna en fljótlega var nafninu breytt í Bandalag háskólamanna. Stofnaðilar bandalagsins voru Dýralæknafélag Íslands, Félag íslenskra fræða, Félag íslenskra sálfræðinga, Félag viðskiptafræðinga, Hagsmunafélag náttúrufræðinga, Lyfjafræðingafélag Íslands, Læknafélag Íslands, Lögfræðingafélag Íslands, Prestafélag Íslands, Tannlæknafélag Íslands og Verkfræðingafélag Íslands.

    Kjara- og réttindabarátta í fyrirrúmi
    Margt breyttist í starfsemi BHM á fyrstu sex áratugunum. Kjara- og réttindabarátta í þágu félagsfólks var þó ætíð í fyrirrúmi í starfseminni. Framan af fór mikið púður í baráttuna fyrir samningsrétti og verkfallsrétti. Samningsrétturinn fékkst árið 1973 og takmarkaður verkfallsréttur árið 1986. Þegar þessum réttindum hafði verið náð gat bandalagið loks beitt sér af fullum þunga í kjara- og réttindabaráttunni.
    Oft var hart tekist á í kjaraviðræðum. Nokkrum sinnum efndu bandalagið og aðildarfélögin til verkfalla til að knýja á um kjarabætur og einu sinni voru slíkar aðgerðir bannaðar með lögum, árið 2015. Í kjölfarið var gerðardómi falið að úrskurða um laun félagsmanna. Árið 1990 voru kjarasamningar BHM-félaga ógiltir með bráðabirgðalögum.

    Nefndir og efndir
    Á rúmum 60 árum hefur BHM átt fulltrúa í fjölmörgum nefndum og starfshópum á vegum stjórnvalda sem falið hefur verið að móta löggjöf um málefni vinnumarkaðar. Þannig hefur bandalagið átt þátt í að koma til leiðar margvíslegum umbótum í þágu félagsfólks. Auk þess hefur bandalagið beitt sér fyrir öflugri opinberri umræðu um hagsmunamál háskólamenntaðs fólks og staðið fyrir fjölbreyttu námskeiðahaldi og endurmenntun fyrir félagsfólk aðildarfélaganna. Þá hefur rekstur og umsýsla sameiginlegra sjóða orðið sífellt viðameiri þáttur í starfseminni. Þar má nefna styrktarsjóð, sjúkrasjóð, starfsmenntunarsjóð og orlofssjóð, auk Starfsþróunarseturs háskólamanna.
    Fjöldi félagsfólks tífaldaðist
    Frá stofnun BHM hafa nokkur aðildarfélög yfirgefið bandalagið en mun fleiri hafa þó gengið til liðs við það. Aðildarfélögin eru nú 27 en voru í upphafi 11. Félagsfólk er meira en tífalt fleira í dag en árið 1958. Rétt er að geta þess að fyrst um sinn voru hlutfallslega mjög fáar konur innan aðildarfélaga BHM. Sú staða hefur gjörbreyst á rúmum 60 árum og í dag eru konur í meirihluta innan bandalagsins. Tveir þriðju félagsfólks bandalagsins eru háskólamenntaðar konur.
    60 ára afmæli BHM var fagnað í Borgarleikhúsinu þriðjudaginn 23. október 2018. Meðal gesta voru forsætisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, forystufólk samtaka á vinnumarkaði, fulltrúar viðsemjenda, forstöðumenn opinberra stofnana, forystufólk aðildarfélaga bandalagsins og almennir félagsmenn. Flutt var söng- og leikdagskrá í aðalsal leikhússins sem sérstaklega var samin í tilefni af 60 ára afmælinu.

    *Byggt á bók Friðriks G. Olgeirssonar: BHM – Saga Bandalags háskólamanna 1958-2008. Reykjavík 2008.

    BHM stendur vörð um hugvit og sérfræðiþekkingu
    Starfsemi BHM er umfangsmikil í íslensku samfélagi. Hlutverk BHM er fyrst og fremst að standa vörð um menntun, hugvit og sérfræðiþekkingu félagsfólks í aðildarfélögunum gagnvart stjórnvöldum og löggjafarvaldi. Þá hefur BHM frumkvæði að umræðu um háskólamenntun og stöðu háskólamenntaðra á vinnumarkaði. BHM mótar sameiginlega stefnu hagsmunamálum aðildarfélaganna og semur um sameiginleg réttindamál þeirra samkvæmt umboði.
    Í BHM er formannaráð sem fer með æðsta vald í málefnum bandalagsins milli aðalfunda og kemur saman fjórum sinnum á ári. Ráðinu ber að huga að stærri og stefnumótandi ákvörðunum og veita stjórn aðhald og umboð til daglegs starfs á grundvelli stefnu sem mótuð er á stefnumótunarþingi og samþykkt á aðalfundum. Framkvæmdastjórn bandalagsins fundar reglulega og tekur ákvarðanir um öll mál er varða daglega starfsemi bandalagsins í samræmi við lög þess og stefnuskrá og er í fyrirsvari fyrir bandalagið út á við. Framkvæmdastjórn gerir formannaráði grein fyrir störfum sínum og ber undir það mikilvæg stefnumótandi mál.
    Í dag er BHM til húsa í Borgartúni 6, í húsi sem oft er kallað Rúgbrauðsgerðin. Á skrifstofu BHM og í þjónustuveri bandalagsins vinna 23 starfsmenn. Árið 2021 var Friðrik Jónsson kjörinn formaður BHM. Kolbrún Halldórsdóttir var kjörin varaformaður á aðalfundi 2022. Gissur Kolbeinsson er framkvæmdastjóri. Félögin innan BHM vinna vel og náið saman og á milli þeirra er gagnkvæmur stuðningur og samstaða. Þannig hafa enda stærstu sigrarnir náðst. Á tímum hraðra samfélagsbreytinga og tækniþróunar hefur menntun og sérfræðiþekking aldrei verið mikilvægari. BHM stendur vaktina áfram og gætir hagsmuna þessa mikilvæga hóps.

  • 2002
    Samantekt úr Ísland 2000, atvinnuhættir og menning

Stjórn

Stjórnendur

BHM – Bandalag háskólamanna

Borgartúni 6
105 Reykjavík
5955100

Atvinnugreinar

Upplýsingar

1 / ?

Lesa bókina