Bifreiðaverkstæði Muggs í Vestmannaeyjum var að nafninu til stofnað árið 1984 af Guðmundi Pálssyni sem er betur þekktur undir nafninu Muggur. Hann er Vestmannaeyingur í húð og hár, atorkumikill eins og önnur ættmenni hans, en hann er sonur hins þekkta ferðamálafrömuðar Páls Helgasonar sem nefndur hefur verið faðir ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum. Enda fór það svo að til margra ára var Muggur starfandi við hlið föður síns við að þjónusta þá ferðamenn sem lögðu leið sína til Eyja.
Í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar hóf Muggur nám í bifvélavirkjun. Í Vestmannaeyjum er tíminn stundum skilgreindur á tvennan hátt: „það sem átti sér stað fyrir gos og það sem gerðist eftir gos.“ Muggur hóf sumsé að læra „fyrir gos“ en þegar gosið hófst fór Muggur til Bandaríkjanna þar sem hann lifði nokkuð viðburðaríku lífi um tíma en þegar til stóð að skikka hann til herþjónustu þá sá hann sér þess kost vænstan að koma sér heim til Eyja. Fljótlega kynntist hann konunni sem hann átti eftir að kvænast. Hann vann við bílaviðgerðir, kláraði sveinspróf og meistarapróf í bifvélavirkjun en tók sér smá hlé frá faginu til að aðstoða foreldra sína við ferðaþjónustu sem var í örum vexti.
Starfsemin
1984 hóf Muggur sjálfstæða starfsemi og opnaði verkstæði við annan mann, en þegar þeir báðir misstu hvor um sig annað foreldra sinna þá skildi leiðir og síðan hefur Muggur rekið verkstæðið einn síns liðs fyrir utan eiginkonuna Sigurbjörgu Vilhjálsmdóttur sem hefur stutt við bakið á honum alla tíð og sér um alla bókhalds og pappírsvinnu. Þegar mest var að gera voru 5 til 6 karlar starfandi á verkstæðinu en samkeppnin lét ekki á sér standa í sístækkandi Vestmannaeyjabæ svo á endanum urðu þeir tveir á verkstæðinu og höfðu meira en nóg að gera. Muggur er einn af þeim sem er ávallt boðinn og búinn að hjálpa þegar eitthvað fer úrskeiðis og þá skiptir litlu máli hvaða dagur er eða hvað klukkan slær; hann er mættur og bjargar málunum. Bifreiðaverkstæði Muggs hefur í mörgu að snúast og sinnir öllum nauðsynlegum viðgerðum á flestum gerðum og stærðum bifreiða. Allt frá því að taka upp vélar og gírkassa í fólksbílum eða rútum, niður í smávægilegasta viðhald eins og bremsuklossaskipti, eða að koma fyrir nýrri viftureim. Réttingar og sprautun er eitt af því sem Muggur hefur dregið sig út úr en hann er fyrstur manna á staðinn þegar eitthvað kemur upp á. Enda sinnir hann þjónustu fyrir FÍB og neyðarþjónustu fyrir Sjóvá.
Verkstæðið er til húsa að Strandvegi 65a í Vestmannaeyjum. Það er vel staðsett og vel sýnilegt og kann Muggur vel við sig í þessu rúmlega 350 fm húsnæði. Það er oft mikið um að vera þegar stóru knattspyrnumótin eiga sér stað á sumrin og þúsundir flykkjast til Eyja; en þá þarf oft og tíðum að hjálpa til þegar eitthvað bilar hvort sem það eru bílar eða hjólhýsi. Muggur telur ekki eftir sér að ganga í þau verk sem þarf að sinna. Hann reddar málunum. Það eru hans einkunnarorð og bjartsýni er það sem drífur hann áfram þótt hann hafi óljósan grun um að það sé kominn tími til að slaka á og njóta ávaxtanna af öllu saman.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd