Upphaflega hét fyrirtækið Bílaryðvörn hf. og var til húsa í Skeifunni 17. Það var stofnað í júlí 1970 af Jóni Rúnari Ragnarssyni, Birni Jóhannesyni og fleirum. Tilgangur þess fólst í nafninu, það sá um að ryðverja bíla og sú starfsemi er enn grundvallarþáttur í rekstrinum og hefur lítið breyst.
Starfsemin
Til að byrja með var ryðvarið með efni sem hét Tectyl, en í byrjun 9. áratugarins var skipt yfir í sænskt efni sem heitir Dinitrol, það eru úrvals hágæða efni og því hefur fyrirtækið haldið sig við það síðan. Af því eru fjórar tegundir fitu og vaxefna notaðar eftir því hvort efnið fer inn í lokuð holrými eins og hurðir, dyrastafi,vélahlíf og eða yfir botna sem verða fyrir ágjöf frá veginum. Ef vel á að vera þurfa bílar á Íslandi ryðvörn á þriggja til fjögurra ára fresti.
Bílahöllin bílasala hefur verið með öflugri bílasölum landsins og er þekkt fyrir vönduð, heiðarleg og góð vinnubrögð. Einnig er fyrirtækið stærst á markaði er kemur að heithúðun palla á pallbílum.
Eigendur
Framkvæmdastjórinn á þeim tíma, Jón Rúnar, er rakarameistari í grunninn og hélt afram að starfa við það fag fyrstu árin sem hann rak Bílaryðvörn, en hártíska karlmanna á þeim tíma var rökurum ekki hliðholl t.d. á þessum tíma Bítlaæðis, og þar kom að hann sneri sér alfarið að rekstri fyrirtækisins.
Fyrsta áratug þessarar aldar keyptu Jón Rúnar og synir hans, Rúnar og Baldur, sem báðir hófu störf hjá fyrirtækinu er þeir voru á fermingaraldri, og á síðustu árum hafa þeir feðgar verið að kaupa aðra hluthafa út úr rekstrinum og eru nú eigendur fyrirtækisinns. Nú er Jón Rúnar stjórnarformaður Bílahallarinnar – Bílaryðvörn og synirnir Rúnar og Baldur framkvæmdastjórar. Fyrirtækið varð fimmtugt árið 2020 og er elsta fyrirtæki í bílaryðvörn á Íslandi.
Aðsetur og mannauður
Árið 1990 flutti Bílaryðvörn úr Skeifunni í eigið húsnæði að Bíldshöfða 5, þar sem starfseminn er í dag. Fyrirtækið byggði húsnæðið það stórt að það rúmaði meira en ryðvörnina. Þá kom bílasalan til sögunnar og nafnið breyttist í Bílahöllin-Bílaryðvörn en hélt sömu kennitölu. Í dag eru 14 -16 manns sem vinna þar í báðum deildum. Fyrirtækið hefur verið heppið með starfsmenn og tekist vel að halda í þá. Dæmi eru um þeir hafi verið í 40 ár, eða til loka starfsævi. Kjarninn er sterkur og þegar mesta törnin er í ryðvörninni á sumrin koma ungir menn í skólafríum og láta muna um sig.
Spyrja má hvað sé gert til að halda mannskap. Svarið er að reyna að gera aðeins betur við hann í launum en taxtarnir gera ráð fyrir og búa vel að honum. Liður í því er skapa góða aðstöðu á staðnum, ekki veitir af í þessum bransa því vinnan við ryðvörnina er óþrifaleg.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd