Bílapartar ehf

2022

Bílapartar ehf. er lítið fjölskyldufyrirtæki í hjarta Mosfellsbæjar. Það voru hjónin Ásgeir Jamil Allansson og Bára Einarsdóttir sem hófu rekstur fyrirtækisins í júní árið 1989 að Rauðavatni í þeirri mynd sem það er í dag. Sögu fyrirtækisins má þó rekja lengra aftur en það var Ali Allan Jamil Shwaiki faðir Jamils sem hóf rekstur á jörðinni árið 1977 ásamt eiginkonu sinni Sigurlaugu Ásgeirsdóttur. Í fyrstu starfræktu þau þar hænsnabú og þá síðar Bílapartasöluna að Rauðavatni og má því segja að þar séu fyrstu skref fjölskyldunnar að rekstrinum tekinn. Ali faðir Jamils sá um rekstur Bílapartasölunnar til ársins 1986 þar til hann missti heilsu og rekstur fjölskyldunnar var settur á bið í um þriggja ára skeið eða þar til Jamil og Bára hófu þar rekstur aftur, sama ár og Ali lést eftir veikindi, langt fyrir aldur fram. Það væsti ekki um partasöluna á Rauðavatni þó svo að reksturinn hafi að mestu farið fram í gömlu óupphituðu útihúsi og því oft á tíðum kalt fyrir hjónin að standa vaktina á partasölunni. Lítið mátti hafast við á jörðinni þar sem jörðin sem útihúsið stóð á tilheyrði vatnsverndarsvæði. Mikið vatn hefur þó runnið til sjávar síðan þá og í dag stendur stór hluti Norðlingaholts á jörðinni.

Aðsetur og umhverfismál
Árið 2004 fluttist reksturinn búferlum til Mosfellsbæjar frá Rauðavatni og var það stórt stökk að koma sér fyrir í nýju húsnæði í Grænumýri 3. Fyrst um sinn voru Bílapartar ehf. nokkurn veginn útaf fyrir sig en stuttu síðar reis íbúðarbyggð við hlið partasölunnar. Því hefur mikið kapp verið lagt á það að halda umhverfismálum fyrirtækisins í góðu lagi og hlutu Bílapartar ehf. til að mynda Umhverfisverðlaun Mosfellsbæjar árið 2011.

Starfsemin
Í fyrstu voru það allskonar tegundir bíla sem komu í portið til niðurrifs en sú stefna breyttist fljótt þar sem Jamil og Bára vildu geta haldið betur utan um rekstur fyrirtækisins. Í dag sérhæfa Bílapartar ehf. sig í sölu á notuðum varahlutum í Toyota bifreiðar ásamt því að taka við bifreiðum til úrvinnslu fyrir úrvinnslusjóð. Árið 2011 var farið út í það að nútímavæða varahlutalagerinn og frá þeim tíma hafa allir varahlutir fyrirtækisins verið skráðir inn í sérstakan varahlutagagnagrunn upp á rekjanleika.

Mannauður
Rekstur fyrirtækisins hefur vaxið og dafnað með árunum. Í fyrstu voru það einungis Jamil og Bára sem stóðu vaktina í portinu en í dag starfa þau ásamt fjórum starfsmönnum við afgreiðslustörf partasölunnar, þeirra á meðal starfa nú synir þeirra tveir þeir Atli Jamil, Andri Jamil og Ágústa tengdadóttir þeirra. Má því með sanni segja að áhugi á bifreiðum sé ekki langt undan í fjölskyldunni.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd