Bílaþvottastöðin Lindin

2022

Bílaþvottastöðin Lindin tók til starfa um áramótin 2012-2013. Róbert Reynisson ásamt Þórði Má Jóhannessyni keyptu stöðina sem áður hét Löður, af fyrri rekstraraðila. Róbert hafði áður verið rekstrarstjóri þar. Hann þekkti vel reksturinn eftir 13 ára reynslu af bílaþvottaþjónustu. Hann sá tækifæri í því að halda áfram og jafnvel að auka umsvifin.

Þjónustan
Fólk gerir meira af því að láta þrífa bílana fyrir sig í stað þess að gera það sjálft á bílaþvottaplani eins og tíðkaðist. Bílaflotinn fer stækkandi og aukin þörf er fyrir þessa þjónustu. Róbert leggur áherslu á að halda í kúnnahópinn sem hefur vaxið frá því hann tók við rekstrinum.
Styrkur fyrirtækisins liggur í hraða þjónustunnar. Viðskiptavinir þurfa ekki að bíða lengi og þrifin ganga hratt og vel fyrir sig. Mannskapurinn er samhentur, vélarnar öflugar, hraðvirkar og vinna vel á þeim óhreinindum sem bílar jafnan safna á sig. Helsta nýjungin í þjónustu Lindarinnar eru hraðþrif sem felast í því að þegar bíll hefur farið í gegnum þvottastöðina þá getur viðskiptavinurinn komið með bílinn inn á öðrum stað og fengið þrif á innanverðum bílnum á 10 mínútum. Þessi þjónusta hefur mælst afar vel fyrir. Verðinu er stillt í hóf svo margir nýta sér að láta ryksuga, þrífa mottur og innréttinguna og fá sér kaffibolla á meðan. Vert er að benda á sjálfsþjónustuna sem hefur verið á efra planinu frá upphafi. Þar eru 6 básar með tækjum og réttum hreinsiefnum. Auk þessa er boðið upp á alþrif og bón eftir nánari pöntun. Allt upp í 500 bílar hafa farið í gegnum þvottastöðina sama daginn. Meðaltalið er í kringum 200 bílar á dag. Vélakosturinn er frá amerískum framleiðanda sem er einn stærsti framleiðandi bílaþvottavéla í heiminum. Vélarnar eru öflugar, hafa lága bílanatíðni og vinna vel á óhreinindum. Það er einungis svampur sem snertir bílana svo lítil hætta er á skemmdum. Mikil áhersla er lögð á að þjónusta viðskiptavinina vel. Ef bíllinn er ekki nógu hreinn eftir eina umferð í gegnum vélarnar þá fer hann bara aftur í gegn.

Mannauður og framtíðarsýn
Til að ná að þjónusta svona marga á bíla er mikilvægt að vera með góðan og öflugan mannskap í vinnu. 6 fastráðnir starfsmenn eru hjá Lindinni en í heildina koma 20 manns að bílaþrifunum. Opnunartíminn er frá 8-19 virka daga en 10-18 um helgar. Þessi langi opnunartími skapar rými fyrir breytilegan vinnutíma eða vaktaskipti. Unnið er eftir bónuskerfi sem er hvetjandi og hefur t.a.m. skólafólk komist í uppgrip vegna þessa. Starfsmenn halda nokkurri tryggð við fyrirtækið. Fastur kjarni starfsfólks hefur myndast og starfað lengi. Starfsmannastefnan er sú að skapa góðan anda og að allir séu samvinnufúsir. Róbert stjórnar daglegum rekstri og hefur gaman af starfinu þótt því fylgi erill og mátulega mikið stress. Tvisvar á ári gerir starfsfólkið sér dagamun með því að fara á jólahlaðborð og vorfagnaðurinn er ávallt tilhlökkunarefni. Lindin stefnir á að opna fleiri stöðvar á næstu árum.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd