Bílson verkstæðið er stofnað 2. nóvember 1984 af Guðmundi Loga Óskarssyni og Hilmari Harðarsyni. Það var fyrst til húsa í 80 fm húsnæði sem leigt var af Bæjarleiðum að Langholtsvegi 115 í Reykjavík. Bjarki Harðarson ásamt Jóni Erni Valssyni kaupa svo helminginn af rekstrinum í apríl 1985 af Hilmari. Ári síðar í apríl 1986 kaupa þeir Bjarki og Jón Örn hinn helminginn af Guðmundi Loga. Bjarki kaupir svo Jón Örn út 1988. Jón kom aldrei að daglegum rekstri.
Sagan
Fyrstu árin var lagt upp með að sinna eingöngu véla-, hjóla- og ljósastillingum á öllum bifreiðum. Á árinu 1988 vorum við farnir að sinna almennum viðgerðum á öllum tegundum bifreiða. Fljótlega urðu starfsmenn þrír og á endanum fjórir þannig að við unnum kappklæddir, því ekki var hægt að loka dyrunum út. Nýting á húsnæði var fullnýtt. Á þessum árum breyttist bílaframleiðsla mikið og tölvuvæðingin yfirtók allar stýringar í kringum allan vélbúnað. Þetta urðu þung ár vegna skorts á þekkingu. Þá var ekkert net og ekki hægt að vafra um netið í leit að upplýsingum. Námskeið voru af skornum skammti og sú þekking á nýjum bifreiðum kom eingöngu í gegnum bílaumboðin. Á þessum árum höfðum við verkefnið en engar upplýsingar. En bifvélavirkjar á Íslandi tókust á við þessa nýju veröld með eingöngu áræðni og kjark að vopni. Seinna komu til námskeið í gegnum Bílgreinasambandið.
Um áramótin 1989-1990 flutti fyrirtækið aðsetur sitt í leiguhúsnæði að Ármúla 15, í 250 fm húsnæði með möguleika á stækkun sem endaði í 400 fm. Gerður var þjónustusamningur við Heklu 1991 um þjónustu við öll þeirra vörumerki, Volkswagen, Audi og Mitsubishi. Starfmenn urðu fimm. Skoda bættist svo við 1998. Þá var orðinn aðgangur að öllum tækninámskeiðum. Við festum kaup á húsnæðinu 1996. Húsnæðið var stækkað í 400 fm og starfsmönnum fjölgað í 8. Starfsemin er í Ármúlanum til ársloka 2012 en þá var keypt húsnæði að Kletthálsi 9 og starfsemin flutt þangað í 1.400 fm húsnæði. Starfsmenn urðu 18. Byggð var forgreining þar sem sýnileiki er á öll verk úr móttöku og eins úr forgreiningu fram í aðalsal. Gæðaeftirlit er framkvæmt á öllum bifreiðum áður en þær eru afgreiddar út.
Þróun og menntun starfsmanna
Áfram heldur þróun bílgreinarinnar. Starfsmenn tóku fyrstu rafbílanámskeiðin 2014. Á árinu 2015 hættum við að sinna Mitsubishi og erum eingöngu í VW og Skoda í dag. Þekkingin er orðin mjög breið í þeim vörumerkjum. Sex starfsmenn hafa þegar þetta er skrifað lokið námskeiðum í rafmagnsbílum og hafa nafnbótina „Master Technician”. Fyrirtækið er að standast alla staðla framleiðenda bæði hvað varðar þekkingu, aðstöðu og tækjabúnað. Í dag er allur búnaður tölvustýrður en það á við bæði, vél, skiptingar og drifbúnað. Breytingin á starfsgreininni hefur verið í þá veru að bifvélavirkjar þurfa að vera bæði snjallir kunnáttumenn í tækni jafnt sem handverksmenn. Námið er þannig að grunnurinn er kenndur í skólanum en þekkingin kemur svo með endalausum námskeiðum og reynslu. Námi bifvélavirkjans lýkur aldrei, þróunin er mjög kvik og breytingar á samgöngutækjum í stöðugri þróun. Við höfum alltaf tekið nema í starfsþjálfun eftir skóla og skilað þeim í gegnum sveinspróf. Margir af þessum einstaklingum hafa svo unnið hjá okkur á annan áratug og margir þeirra eru enn við störf hjá okkur. Elsti starfsmaðurinn fyrir utan Bjarka hætti störfum í lok árs 2021 eftir rétt tæp 30 ár hjá Bílson. Það er tæknimaðurinn Sveinn Tómasson. Á síðasta ári misstum við móttökumanninn okkar, Hauk Skæringsson sem varð bráðkvaddur. Var í vinnu á föstudegi en dó á sunnudagsmorgni. Hann var búinn að vinna hjá okkur á annan áratug. Hans er sárt saknað. Yfirverkstjóri er Halldór Þ. Ásmundsson sem starfað hefur hjá okkur frá 2006.
Viðurkenningar
Bílson hefur hlotið viðurkenningu Credit Info s.l. 4 ár sem fyrirmyndarfyrirtæki.
Þegar forvarnarverðlaun VÍS voru fyrst veitt 2010 þá hlotnaðist Bílson sá heiður að fá viðurkenningu fyrir góðan árangur í öryggis og forvarnarmálum áhættumati, atvikaskráningu, innbotavörnum, brunavörnum og umgengni. Fyrirtækið hefur verið athugasemdalaust í úttekt Vinnueftirlitsins frá upphafi. Bílson hefur einnig staðist gæðaúttekt Bílgreinasambandsins alla tíð. Verkstæðið hefur haft heimild til endurskoðunar bifreiða eftir aðalskoðun frá því að sú heimild var fyrst veitt til verkstæða 1988 að undangenginni gæðaúttekt.
Framtíðarsýn
Við vinnum í öllum mögulegum aflgjöfum, s.s. bensín, diesel, metan og rafmagnsbílum. Tæknivinna og ábyrgðarviðgerðir eru margvíslegar. Við erum alltaf endastöð í tæknimálum þar sem við höfum fullan aðgang að öllum tækniupplýsingum framleiðenda. Einnig erum við að standast alla staðla sem okkar framleiðendur gera sem snúa að öllum gæðamálum. Framtíðin í greininni fyrir okkur er mjög björt. Búið er að búa í haginn fyrir næstu ár, því það sem komið hefur út úr rekstrinum alla tíð hefur verið varið í að byggja upp innviði fyrirtækisins. Í dag er allur tækjabúnaður og menntun til að sinna rafmagnsbílum til staðar í húsinu ásamt hleðslu og hraðhleðslustöðvum. Það er skrýtið til þess að hugsa að það tekur einn mannsaldur að byggja upp gott fyrirtæki en um leið horfir maður um öxl og hugsar hvað það væri gaman að vera 30 árum yngri með tækifærið í höndum sem búið er að skapa.
„Á fyrstu árunum þegar ekki var nóg að gera, þá fór maður út á verkstæðisbílnum í mikilli úrkomu og dró til sín bilaða bíla sem lágu ógangfærir í vegkantinum. Í dag er svo mikið að gera að við komumst ekki út úr húsi á opnunartíma. Grunntónninn í rekstrinum er, vertu góður við alla sem þú mætir á leiðinni upp, því þegar upp er komið, þá er bara ein leið, niður, þá mætir þú þeim öllum aftur,“ segir Bjarki.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd