Biobú ehf.

2022

Biobú ehf. var stofnað í júlí 2002 af þeim hjónum Kristjáni Oddsyni og Dóru Ruf frá Neðra-Hálsi í Kjós. Ástæðan fyrir stofnun þess var sú að það vantaði fyrirtæki á sviði mjólkurvinnslu sem væri viljugt til að vinna að og þróa markað fyrir lífrænar mjólkurvörur á Íslandi. Kristján ásamt konu sinni Dóru Ruf hafa stundað mjólkurframleiðslu að Neðra Hálsi frá árinu 1984 en árið 1996 fengu þau lífræna vottun á sína mjólkurframleiðslu. Það að vera komin með vottaða lífræna mjólk gaf þeim hjónum tækifæri til að skapa sér sérstöðu á markaði, en engar lífrænar mjólkurafurðir var hægt að fá í búðum hérlendis.

Stofnun Biobús
Biobú var því stofnað í júlí 2002 af þeim hjónum Kristjáni og Dóru á Neðra-Hálsi í Kjós eins og áður segir, en fyrstu vörur þess, lífræn jógúrt, fóru á markað 3. júní 2003. Við stofnun og undirbúning nutu þau dyggrar aðstoðar Susanne Freuler og Helga Rafns Gunnarssonar, en þau voru samstúdentar við Tækniháskóla Íslands á viðskiptabraut. Þau unnu að gerð viðskiptaáætlunar fyrir fyrirtækið og annan undirbúning sem þurfti til að stofna mjólkursölufyrirtæki. Susanne Freuler var síðan ráðin sem framkvæmdastjóri Biobús fyrsta árið, er Helgi Rafn Gunnarsson tók við sem framkvæmdastjóri og hefur haldið því starfi alla tíð síðan. Hann situr einnig í stjórn fyrirtækisins ásamt Kristjáni Oddssyni formanni og Dóru Ruf. Helgi Rafn ásamt bróður sínum, Sverri Erni Gunnarssyni sem er framleiðslustjóri eiga 40% hlut í fyrirtækinu á móti hjónunum Kristjáni og Dóru. Biobú byrjaði í 100 fm húsnæð í Stangarhyl en sprengdu það utan af sér 2006 og fjárfestu þá í 500 fm húsnæði að Gylfaflöt í Reykjavík.

Framleiðslan
Helstu vörur Biobús hafa verið sýrðar mjólkurafurðir svo sem jógúrt í ýmsum bragðtegundum og svo skyr, ostur og drykkjarmjólk. Biobú var einnig fyrst á markað með gríska jógúrt sem notið hefur mikilla vinsælda. Lífrænar vörur Biobús eru frábrugðnar hefðbundnum mjólkurvörum að því leyti að þær eru útbúnar úr ófitusprengdri lífrænni mjólk. Megin reglan er sú að vinna matvælin sem minnst og halda þeim eins náttúrulegum og kostur er.

Framtíðarsýn
Á allra síðustu misserum tóku eigendur þá ákvörðun að breyta vörumerki Biobú, stefnan var sett á að útvíkka starfsemi fyrirtækisins með það að markmiði að bjóða neytendum uppá fleiri lífrænar vörur, s.s. lífrænt nautakjöt. Þá hefur Biobú verið að þróa húðkrem úr mysupróteini í samstarfi við vísindamenn hjá Matís. Starfsmönnum Biobús hefur fjölgað jafnt og þétt frá því að vera 2-3 starfsmenn í upphafi upp í 9-10 manna vinnustað eins og hann er í dag. Á þeim tíma sem Biobú hefur starfað hefur neysla lífrænna mjólkurvara aukist jafnt og þétt, eða um liðlega 30% á ári. Undanfarin misseri hefur verið skortur á lífrænni mjólk, en það stendur þó til bóta þar sem von er á nýjum framleiðanda á lífrænni mjólk, þ.e Eyði-Sandvík í Sandvíkurhreppi, en þeir framleiða um 400 þús.lítra á ári en fyrir er Biobú að taka mjólk frá Neðra-Hálsi í Kjós, Búlandi í Landeyjum og Skaftholti í Gnúpverjahreppi, samtals um 430 þús. lítrum á ári. Aukið magn gefur möguleika á að þróa lífrænan mjólkurvörumarkað enn frekar með fleiri vörutegundum, neytendum og umhverfinu til hagsbóta.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd