Birgisson ehf.

2022

Í yfir 35 ár hefur Birgir Þórarinsson og fjölskylda rekið fyrirtæki í innflutningi á parketi, innihurðum, flísum, loftaklæðningum, utanhússklæðningum og ýmsum öðrum bygginga-vörum. Birgir hóf störf á gólfefnamarkaðnum í Teppalandi við Grensásveg, þar sem hann varð um síðir sölustjóri. Árið 1986 þá 31 árs réðst hann svo í sjálfstæðan rekstur þegar hann og fjölskylda hans keypti heildverslunina Egil Árnason hf. Fyrirtækið var á meðal fyrstu innflytjenda á parketi á Íslandi. Var eftir nokkru að slægjast því að með í kaupunum fylgdu umboð fyrir Kährs parket frá Svíþjóð og Junckers parket frá Danmörku.
Allt fram til þessa tíma höfðu gólfteppi verið aðal gólfefnið á íslenskum heimilismarkaði sem og fyrir skrifstofur og stofnanir. Nú urðu þáttaskil og parket varð smám saman vinsælasta gólfefnið hjá íslenskum neytendum. Fyrirtæki Birgis, undir nafni Egils Árnasonar, óx hratt og naut síaukinna vinsælda, ekki síst hjá arkitektum. Starfsemin krafðist aukins rýmis og fjölgunar starfsmannna er frá leið. Verslunin var flutt úr Skeifunni í húsnæði að Ármúla 8 þar sem hún er enn í dag en nú undir nafninu Birgisson ehf. Vöruhús fyrirtækisins er að Holtavegi 8. Birgisson ehf. var stofnað 5. febrúar 2011 og er fjölskyldufyrirtæki í eigu Birgis, eiginkonu hans og Þórarins Gunnars, sonar þeirra.
Eins og mörg önnur fyrirtæki varð Egill Árnason hf. illa úti í bankakreppunni og þurfti endurreisnar við. Ráðist hafði verið í byggingu 9000 fm vöruhúss sem reyndist of þungur baggi þegar að kreppti með hruni bankanna. En endurreisinin gekk vonum framar. Fastir viðskiptavinir héldu tryggð við Birgi og fjölskyldu undir nýju nafni. Vöruframboð Birgisson ehf. byggir á gæðum og góðu verði og á sannarlega upp á pallborðið hjá íslenskum neytendum. Hjá Birgisson ehf. er reksturinn byggður á reynslu, þekkingu, úrvals starfsfólki og góðu framboði af gæðavörum frá virtum og þekktum framleiðendum. Vörum sem reynst hafa vel við íslenskar aðstæður.

Reksturinn
Í glæsilegum sýningarsal Birgisson ehf. að Ármúla 8 getur að líta eitt mesta úrval landsins af viðarparketi, harðparketi, flísum og innihurðum ásamt úrvali af fylgihlutum. Lögð er áhersla á að allar vörur sem eru á boðstólum séu umhverfisvottaðar. Stór hluti veltunnar hjá Birgisson byggir á smásölu til almennra neytenda en stórir verktakar á íslenskum markaði hafa einnig verið fastir viðskiptavinir fyrirtækisins í áraraðir og halda tryggð við sinn birgja. Birgisson ehf. státar því af mörgum stórum og glæsilegum verkefnum. Meðal þeirra eru til dæmis innhurðir frá Ringo í nýja fangelsið á Hólmsheiði. Ringo innihurðirnar hafa verið á boðstólum frá 1989 og prýða mörg íslensk heimili og fyrirtæki. Birgisson ehf. hefur einnig mjög sterka markaðsstöðu hvað varðar sundlaugaflísar. Þar koma sterkt inn flísarnar frá Agrob-Buchtal í Þýskalandi. Flísar frá Agrob-Buchtal má t.d. finna í Sundhöll Reykjavíkur og Árbjæjarlaug. Þá hefur harðparketið frá þýska fyrirtækinu Swiss Krono notið síaukinna vinsælda síðasta ártuginn. Þá má ekki gleyma vinsælasta viðarparketinu á Íslandi, en síðustu áratugi eða allt frá 1954 hefur Kährs parketið frá Svíþjóð verið mest selda viðarparketið á Íslandi.
COVID-19
Árið 2020/2021 hefur einkennst af COVID-19 faraldri. Birgisson ehf. hefur lagt áherslu á að fylgja öllum sóttvarnarreglum með breyttu starfaskipulagi auk annarra sóttvarna sem sóttvarnayfirvöld hafa krafist. Hefur þar vel til tekist. Margir hafa nýtt sér þetta furðulega ár 2020/2021 til framkvæmda heima og verður segjast að salan hjá Birgisson hafi farið langt fram úr björtustu vonum.

Samkeppni
Mikil samkeppni ríkir á gólfefnamarkaði sem og í öðrum byggingavörum. Í þessari miklu samkeppni leggja eigendur Birgisson ehf. áherslu á að starfsmenn fyrirtækisins hafi góða þekkingu og reynslu, veiti gæðaþjónustu, og að vöruframboðið sé glæsilegt, vandað og frá virtum og þekktum framleiðendum. Einnig fylgjast eigendur vel með nýjungum á gólfefnamarkaði og reyna að vera fyrstir til að kynna þær fyrir íslenskum neytendum.

Starsfólk
Hjá Birgisson ehf. starfa nú 18 manns og hefur fjölgað jafnt og þétt frá upphafi og í takt við aukin umsvif. Birgir Þórarinsson er forstjóri en sonur hans Þórarinn Gunnar er framkvæmdastjóri. Það má því segja að önnur kynslóð hafi nú tekið við stjórnartaumunum hjá Birgisson ehf.

Samfélgsmál
Birigsson ehf. lætur einnig til sín taka þegar kemur að samfélagsmálum og styrkir mörg góð málefni, tekur virkan þátt í kolefnisjöfnun og umhverfismálum.

Framúrskarandi fyrirtæki
Birgisson ehf. hefur verið í hópi Framúrskarandi fyrirtækja á lista Creditinfo samfellt frá
2016-2021 og Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri frá 2017-2021 hjá Keldunni og Viðskiptablaðinu.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd