Biskupsstofa
Þjóðkirkjan og Samráðsvettvangur trúfélaga og lífsskoðunarfélaga á Íslandi
Samráðsvettvangur trúfélaga og lífsskoðunarfélaga á Íslandi var stofnaður í Ráðhúsi Reykjavíkur 24. nóvember 2006. Að stofnun samráðsvettvangsins stóðu 13 trúfélög í samvinnu við Alþjóðahús en Trúarbragðafræðistofa Hugvísindasviðs Háskóla Íslands kom þar sömuleiðis að öllu undirbúningsferlinu. Ávörp fluttu Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Marsibil J. Sæmundsdóttir formaður mannréttindanefndar Reykjavíkurborgar og Einar Skúlason framkvæmdastjóri Alþjóðahúss en Guðrún Dögg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, var fundastjóri. Undir stefnulýsingu samráðsvettvangsins skrifuðu forystumenn og fulltrúar allra þeirra trúfélaga sem stóðu að stofnun hans en síðan þá hafa nokkur félög sem skilgreina sig ýmist sem trúfélög eða lífsskoðunarfélög bæst við með fulla aðild.
Aðdragandinn
Það var íslenska þjóðkirkjan sem átti frumkvæðið að stofnun Samráðsvettvangs trúfélaga og lífsskoðunarfélaga en áhugi á þvertrúarlegum málefnum hafði farið vaxandi innan hennar fyrir aldamót og voru dæmi um að fulltrúar annarra trúarbragða væru boðnir á málþing eða sem gestafyrirlesarar hjá henni. Önnur trúfélög af ýmsum trúarbrögðum sem höfðu þvertrúarlegt samstarf á stefnuskrá sinni höfðu sömuleiðis stöku sinnum frumkvæði að slíkum fundum á eigin forsendum.
Árið 1980 hafði þjóðkirkjan tekið upp samstarf við nokkur af fjölmennustu trúfélögum landsins sem játa kristna trú í Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga. Enn lengra var gengið árið 1996 þegar Toshiki Toma, lútherskur guðfræðingur frá Japan sem flust hafði hingað til lands árið 1992, var ráðinn sem prestur innflytjenda en þjónusta hans nær til allra óháð trúarbrögðum.
Starfshópur um samskipti þjóðkirkjunnar við önnur trúarbrögð var stofnaður af sr. Sigurði Árna Þórðarsyni á Biskupsstofu árið 2002 og var þegar í stað farið að kanna hvernig þessum málum væri háttað hjá systur kirkjunum á Norðurlöndunum og Englandi. Vorið 2005 var í samvinnu við Alþjóðahús haft samband við öll fjölmennustu trúfélögin hér á landi, sem myndað höfðu tengsl við ríkið, til að kanna hvort grundvöllur væri fyrir stofnun samráðsvettvangs. Eftir allmarga undirbúningsfundi í eitt og hálft ár með fulltrúum og forystumönnum þessara og nokkurra annarra smærri trúfélaga var sameiginleg stefnulýsing samráðsvettvangs loks samþykkt og stofnfundur haldinn.
Stefnulýsingin
Í stefnulýsingu samráðsvettvangsins kemur fram að markmiðið sé „að stuðla að umburðarlyndi og virðingu milli fólks með ólík lífsviðhorf og af ólíkum trúarhópum og trúarbrögðum og standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi.“ Tekið er fram að slíkt náist „ekki með því að samsinna hverju sem er eða láta hvað sem er gagnrýnilaust heldur með því að vera reiðubúinn til að hlusta á sjónarmið annarra, setja sig í spor þeirra og virða sjálfsákvörðunarrétt sjálfráða einstaklinga og trúfélaga.“ Áhersla er lögð á að virða beri „að aðildarfélögin árétti sérstöðu sína í kenningarlegum efnum, boðun og starfsháttum“ og tekið fram að tilgangurinn sé hvorki sam-eining trúarbragða né sameiginlegt helgihald aðildarfélaganna í nafni samráðsvettvangsins. Enda þótt sérhverju aðildarfélagi sé frjálst að efna til sameiginlegs helgihalds með öðrum þegar tilefni gefst og aðstæður leyfa, megi aðeins gera það í nafni viðkomandi félaga en ekki vettvangsins. Þá er einnig tekið fram að óheimilt sé að gefa út yfirlýsingar í nafni samráðsvettvangsins sem ekki hafi verið samþykktar af öllum aðildarfélögunum og geti hvorki fulltrúarnir skuldbundið eigin trúfélög né samráðsvettvangurinn aðildarfélögin. Þetta þýðir að fyrst og fremst er um að ræða vettvang þar sem leiðtogar trúfélaganna eða fulltrúar þeirra fá tækifæri til að kynnast, skiptast á upplýsingum og bregðast við vandamálum sem upp kunna að koma milli þeirra eða í þjóðfélaginu.
Aðildarfélög
Öll trúfélög og sambærileg lífsskoðunarfélög með formleg tengsl við ríkið geta fengið sjálfkrafa aðild að samráðsvettvanginum ef þau óska þess. Alls eru 22 félög með slíka aðild núna en þar er um að ræða félög sem skilgreina sig sem kristin (Fríkirkjan í Hafnarfirði, Fríkirkjan í Reykjavík, Hjálpræðisherinn, Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu [mormónar], Kirkja sjöunda dags aðventista, Óháði söfnuðurinn, Rómversk-kaþólska kirkjan, Rússneska rétttrúnaðarkirkjan, Smárakirkjan [áður Krossinn], Vegurinn og Þjóðkirkjan), íslömsk (Félag múslima á Íslandi, Menningarsetur múslima á Íslandi og Stofnun múslima á Íslandi), bahá´ía (Bahá’í samfélagið), búddhísk (Búddistafélag Íslands, Búddistasamtökin SGI á Íslandi og Zen á Íslandi: Nátthagi), ástatrú (Ásatrúarfélagið), sameiningarsinnuð (Heimsfriðarsamband fjölskyldna og sameiningar [moonistar]) og guðlaus (DíaMat og Siðmennt). Að auki hefur Trúarbragðafræðistofa Hugvísindasviðs Háskóla Íslands samstarfsaðild án atkvæðisréttar en Alþjóðahús var samstarfsaðili þar til það var endurskipulagt sem Alþjóðasetur árið 2010.
Starfsemin
Talsmaður samráðsvettvangsins fyrstu árin var Einar Skúlason framkvæmdastjóri Alþjóðahúss en frá 2011 hefur sr. Jakob Rolland frá Rómversk-kaþólsku kirkjunni gegnt því hlutverki. Fulltrúar þjóðkirkjunnar hjá samráðsvettvanginum hafa frá upphafi verið Bjarni Randver Sigurvinsson og sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir en fyrstu árin var þriðji fulltrúinn sr. Toshiki Toma.
Fjöldi funda hefur að jafnaði verið haldinn á hverju ári allt frá upphafi, a.m.k. eitt málþing skipulagt annað hvert ár og margvíslegt kynningarefni gefið út, svo sem upplýsingabæklingur um mikilvæg atriði í tengslum við andlát og greftranir í ólíkum trúarhefðum og dagatal með hátíðisdögum trúar- og lífsskoðunarfélaga sem dreift hefur verið til m.a. mennta- og heilbrigðisstofnana um land allt. Málþing hafa m.a. varðað trúarsiði, trúarbragðafræðslu í skólum, trú í opinberu rými, skoðanafrelsi, mannréttindi, umhverfismál og frumvarp sem lagt var fram á Alþingi árið 2018 gegn umskurn drengja en í því tóku þátt m.a. fulltrúar frá fjölda samtaka gyðinga og múslima víðsvegar að úr heiminum og var víða fjallað um það í alþjóðlegum fjölmiðlum.
Það hefur sýnt sig að ekki er vanþörf á þessum samráðsvettvangi og hefur hann átt mikilvægan þátt í því að auka skilning og virðingu milli aðildarfélaganna og stuðla þar að bættum samskiptum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd